Saga - 1986, Qupperneq 277
RITFREGNIR
275
að nokkru kylfu ráða kasti um niðurröðunina. Þannig er sagt frá sjóveiki í
kafla um veiðar með handfæri, frá seilingu fisks í kafla um veiðar með lóð, en
frá heitum á þorski í kafla um veiðar með þorskanetum (IV 128, 148, 153).
Hvergi held ég að þetta sé neitt verulega til baga. Hitt skiptir meira máli að
Lúðvík leggur rækt við rökrétta skipan atriða innan undirkaflanna; textinn er
svo hlaðinn fróðleik, upplýsingum og útskýringum, að óliðleg skipan gæti
gert hann versta hröngl.
Ekki reynir síður á ritleikni Lúðvíks í hinum fjölmörgu nákvæmu lýsingum
hluta og vinnubragða. Þar eru að vísu myndirnar mjög til stuðnings, en samt
skrifar Lúðvík þannig í lengstu lög að textinn sé skiljanlegur án myndanna, og
gerir hann það af miklu öryggi; en bein, nákvæm lýsing er miklu flóknara
höfundarverk en fljótt á litið mætti ætla.
Hinar teiknuðu skýringarmyndir, sem eru mikill hluti myndaforðans, eru
textanum fyllilega samboðnar að skýrleik og listfengi og mjög vel samstilltar
við hann. Eins eru kort prýðilega gerð, úrval ljósmynda ríkulegt og gott,
litmyndir margar og settar inn þar sem þær eiga við; er þannig miklu meiri
búningsbót að þeim en sérstökum litmyndasíðum. Eins er útlit bókarinnar
allt með ágætum, kápa, band, letur o.s.frv., og þykir mér mest til um það hve
vel tekst til í umbrotinu að láta tilvísanirnar — oft tíu til tuttugu á hverri síðu
— fara skikkanlega. Því að auðvitað er ekki fullkominn frágangur á fræðiriti
nema tilvísanimar séu á sömu síðum, sérstaklega þegar í þeim er jafnmikil og
bersýnilega vönduð vinna og í Sjávarháttum. Eins hefur mikil alúð verið lögð
við alla lykla að bókinni, fyrirsagnir (einnig sem yfirskrift hverrar opnu),
efnisyfirlit, myndaskrá, heimildaskrár og atriðisorðaskrá. Með hinni síðast-
nefndu fylgja sérskrár um orðtök og málshætti, en nafnaskrá bíður lokabind-
is. Eins virðist prófarkalestur allgóður.
Þegar öll frágangsatriði eru frá hendi höfundar og útgefanda svo þaulhugs-
uð og gegnvönduð, hlýtur ritdómari að hrífast með og gaumgæfa hvað enn
betur mætti fara, og einstaka hnökra má raunar finna á flestum sviðum, eins
°g undantekningar frá meginreglunni.
Hrópandi prentvillur eru ekki auðfundnar (þó ein áberandi í stórri fyrirsögn
á bls. 31), en meira um lúmsku gerðina. Þegar millivísað er í atriðisorðaskrá
frá „beiting" til „beiting", þá á það víst að vera „beit«ing.“ Á bls. 272 hlýtur
skipskenning að eiga að vera ,jór vers“ fremur en „vors“. Á bls. 239 kemur
braglýti upp um orðalagsbrengl („hef ég gefið" í stað „gefið hefi eg“), og í
tilvísuninni reynist vera prentvilla í blaðsíðutalinu (57 fyrir 56; tölustöfum er
alltaf villuhættara en bókstöfum). Fyrirsögnin „Beitt í borð“ (bls. 116) er
íortryggileg, vísar til aukaatriðis í kaflanum, en kynni að vera brengluð úr
»Beitt um borð“. Á einum stað er mynd í ósamræmi við meginmálið: 40.
mynd á bls. 66, þar sem vantar „plankabúta" tvo. Og skekkja virðist vera í
texta með 137. mynd (bls. 173), talað um fjóra menn í stað tveggja.