Saga - 1986, Page 296
294
RITFREGNIR
Anna Sigurðardóttir: VINNA KVENNA Á ÍSLANDI í
1100 ÁR. ÚR VERÖLD KVENNA II. Kvennasögusafn
íslands, Reykjavík 1985. 482 bls., myndaskrá, heimilda-
skrá, nafnaskrá og efnisyfirlit á íslensku og dönsku.
Á síðastliðnu ári lauk kvennaáratug Sameinuðu þjóðanna. Hér á landi var þess
minnst á margan hátt, m.a. með útgáfu bókarinnar Konur hvað nú?1 í henni er
reynt að meta hvort árangur hafi orðið á íslandi af því alþjóðlega átaki til að
bxta stöðu kvenna, sem hófst með kvennaárinu 1975 og var fram haldið með
kvennaáratugnum, 1976—1985. Pótt staða kvenna hafi ekki batnað að mun
voru þessi ár mjög viðburðarík í sögu íslenskra kvenna. Þar ber einna hæst
stofnun Kvennasögusafns íslands sem hóf starfsemi sína á fyrsta degi kvenna-
árs Sameinuðu þjóðanna, 1. janúar 1975. Anna Sigurðardóttir, sem hefur
verið forstöðumaður safnsins frá upphafi, Else Mia Einarsdóttir og Svanlaug
Baldursdóttir bókasafnsfræðingar stóðu að stofnun þess.
Kvennasögusafnið er sjálfseignarstofnun. Anna Sigurðardóttir hefur lagt til
húsnæði fyrir safnið á heimili sínu og ómælda vinnu í þágu þess. Þar við
bætist að stofn safnsins eru bækur, handrit og önnur gögn sem Anna gaf því.
Allt þetta og meira til hefur hún lagt fram án nokkurs endurgjalds eða launa.
Safnið hefur að vísu fengið örlítinn styrk árlega úr ríkissjóði, sem hrekkur því
miður aðeins til bókakaupa í fornbókaverslunum eða á bókamarkaði.2
Tilgangurinn með stofnun Kvennasögusafnsins var að stuðla að því að saga
kvenna yrði rannsökuð. Markmið þess eru margþætt eins og stofnskráin ber
með sér.3 Fyrst er að nefna söfnun, varðveislu og skráningu á heimildum sem
á einhvern hátt snerta líf og störf kvenna fyrr og nú. Þjóðhátíðarsjóður hefur
nokkrum sinnum veitt safninu styrk til að skrá og flokka gögn þess, en þar er
mikið starf enn óunnið. Því er einnig ætlað að greiða fyrir áhugafólki um
sögu íslenskra kvenna, að hvetja fólk til að varðveita hvers konar heimildir
svo og að hafa samvinnu við önnur kvennasögusöfn. Loks er safninu ætlað að
miðla þekkingu á sögu kvenna og gefa út fræðslurit og heimildaskrár „þegar
ástæða þykir til og íjárhagur leyfir", eins og segir í fimmtu grein stofnskrár.
Slæmur fjárhagur hefur fyrst og fremst staðið safninu fyrir þrifum. í
framtíðinni verður að hlúa betur að og tryggja rekstur safnsins. Þegar
Þjóðarbókhlaðan rís ætti Kvennasögusafnið að eiga þar öruggt athvarf. En
framtíð safnsins verður ekki einungis tryggð með því. Til þess að þoka
markmiðum þess áleiðis verður að ráða til safnsins launaða starfsmenn.
1. Konur hvað nú? Staða íslenskra kvenna í kjölfar kvennaárs og kvennaáratugar Sameinuðu
þjóðanna 1975—1985. Ritstjóri Jónína Margrét Guðnadóttir. Rvík 1985.
2. íslenskar kvennarannsóknir. 29. ágúst—1. sept. 1985. Rvík 1985. Fjölrit, 5.
3. Stofnskrá Kvennasögusafns íslands. í Kvennasögusafni Islands, Hjarðarhaga 26,
Reykjavík.