Saga - 1986, Page 338
336
RITFREGNIR
síðan afgreiddur með tveimur málsgreinum. Það vakir eflaust fyrir Ólafi að
leggja sérstaka rækt við fornöld og miðaldir til að vega upp á móti þeirri
ósögulegu efnismeðferð sem flest viðfangsefni þurfa nú að sæta. Það er eins
og ekkert eigi sér sögu nú á dögum. En ég efast um að það sé endilega
sterkasta svarið við þessum hugsunarhætti að fara nógu langt aftur og vera
sem ítarlegastur um það sem er elst. Söguleg efnistök eru spuming um aðferð
en ekki umfang. Það er ekki síður mikilvægt að fjalla ítarlega um það sem
stendur okkur næst, því það á sér lengsta sögu. Það er líka þar sem tengingin
við reynslu og hugmyndaheim lesandans á sér stað. Markmið sögukennslu
hlýtur að vera að auka sjálfsþekkingu nemenda, að dýpka sýn þeirra á það
umhverfi sem þeir eru sprottnir úr og gera þá hæfari til þess að takast á við
eigin veruleika. í því skyni á góð kennsla í hugmyndasögu að geta verið
drýgra veganesti en flest annað.
Vegna þessa hefur mér stundum fundist sem það gæti verið gagnlegt að
skrifa hugmyndasögu „afturábak", ef svo mætti segja. Þá væri gengið útfrá
meginstraumum í hugmyndaheimi samtímans og reynt að rekja þá aftur í
tímann. Slík efnistök krefjast einatt djarfari túlkana en finna má í hefðbundn-
um hugmyndasögum, þar sem meginmarkmiðið er að segja samviskusam-
lega frá. Auðvitað er það skiljanlegt að í hugmyndasögu sé megináhersla lögð
á að segja frá hugsuðum og hugmyndum í réttri tímaröð og staðsetja þau í
víðara samhengi stjórnmála, atvinnuhátta og menningar. En þess ber líka að
gæta að slík frásögn kemst ekki hjá því að fela í sér ákveðna túlkun; sagan er
sögð undir tilteknu sjónarhomi sem setur mark sitt á framvindu hennar. Það
sjónarmið, sem mér sýnist að setji skýrast mark á sögu Ólafs, er að hug-
myndasagan sé snurðulítill þráður framfara, sem einkum megi rekja til
þróunar á sviði raunvísinda og tæknilegrar hagnýtingar þeirra. Þessi „upplýs-
ingartónn" er gefinn þegar í „Inngangi" bókarinnar þar sem höfundur segist
leggja megináherslu á þá „einstaklinga sem vitandi vits eða ósjálfrátt leystu
eigin kynslóð eða eftirkomendur sína úr læðingi kreddulærdóms." (12) Það
fer vart á milli mála við lestur bókarinnar, að þessa „lausnara" er einkum að
finna á sviði raunvísinda, en kredduna innan kristni og kirkju, ekki síst á
miðöldum: „Einstakir afburðamenn og sporgöngumenn þeirra reyndu að
brjótast úr myrkviði skólaspekinnar út í heiðríkju vísindalegrar hugsunar en
þeir áttu jafnan í höggi við blint trúarofstæki." (154)
Það viðhorf, sem fram kemur í þessari setningu, er að vísu til marks um
viðtekna söguskoðun, en hún er eigi að síður lituð mjög afdrifaríkum
fordómum sem hafa í síauknum mæli verið teknir til endurskoðunar. Menn
hafa velt upp nýjum hliðum á tengslum trúar og vísinda, séð hinar „myrku
miðaldir" í bjartara ljósi, jafnframt því sem skýjabakkar hafa hrannast upp á
himni vísindanna. Það hafa verið leidd að því rök að kristin trú hafi á sinn hátt
stuðlað að vexti og viðgangi hinna „nýju vísinda" með afstöðu sinni til