Saga - 1986, Page 340
338
RITFREGNIR
þessum hætti. Hér að framan kvaðst ég sakna umfjöllunar um einstaka
mikilvæga hugsuði, en ég held þó að í svona bók geti oft verið gagnlegra að
draga fram meginstefnur og strauma en að tíunda hugmyndir einstaklinga.
Til dæmis held ég að tilvistarstefnunni væru gerð betri skil með því að útlista
nokkrar almennar meginhugmyndir, sem einkenndu þá stefnu, heldur en að
segja stuttlega frá sex fulltrúum hennar, eins og gert er í bókinni. Með því
móti á að vera hægt að koma fleiri og mikilvægari atriðum að í stuttu máli og
draga jafnframt úr hættunni á mistúlkunum. En þetta er síst auðveldari leið og
tilraun höfundar til þess að gera pragmatismanum bandaríska slík skil finnst
mér misheppnuð.
Ólafi eru vel ljósar takmarkanir þessarar bókar og hann lítur ekki svo á að
hann sé að skrifa fræðirit eða að koma nýstárlegum túlkunum á framfæri,
heldur að skrifa yfirlit sem geti orðið lesendum tilefni og leiðarvísir til frekari
athugana. Textanum fylgir ritaskrá, þar sem bent er á frekara lesefni „til þess
að lesandi, og þá nemandi f samvinnu við kennara, geti kynnst ólíkum
sjónarmiðum. “ (9) Bókin gerir því miklar kröfur bæði til kennara og nem-
enda, sem ekki er víst að þeir geti mætt. Skilyrði þess að bókin nái tilgangi
sínum eru vel menntaðir kennarar og góð bókasöfn. Vanti þetta tvennt er
hætt við að svo fari, sem Sigurður Nordal varaði við á sínum tíma, að
nemendur viti óþarflega mikið í hlutfalli við það sem þeir skilja. Þetta vill oft
brenna við í greinum eins og hugmyndasögu, þar sem nemendur eiga að
kunna skil á einstökum fróðleiksmolum eða „köllum" sem skipta litlu eða
engu máli fyrir skilning þeirra á sjálfum sér og veruleika sínum. Gegn þessari
hættu myndi bókin sjálf spoma enn betur með fyllri og fjölbreyttari um-
fjöllun.
Þær ábendingar um lesefni á íslensku við einstaka kafla, sem er að finna
aftast í bókinni, eru gagnlegar, en þær duga námfúsum lesendum ekki til þess
að dýpka skilning sinn á hugmyndasögunni að einhverju ráði. Það er því full
ástæða til að benda líka á vandað erlent Iesefni um hugmyndasögu, bæði
almennt og um einstök efnisatriði. Það má e.t.v. segja, að til lítils sé að benda
á erlent lesefni sem ekki er almennt að finna á söfnum, en ég held að slíkar
ábendingar í kennslubók geti stuðlað að því að bókasöfn komi sér þeim
bókakosti upp. Það eitt væri mikill ávinningur. En mestu varðar þó sá
möguleiki sem bók af þessu tagi býður jafnan heim: að hún kveiki áhuga þó
ekki sé nema örfárra einstaklinga á sögu sinni og samtíð.
Vilhjálmur Árnasoti