Morgunblaðið - 17.11.2009, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 17.11.2009, Blaðsíða 19
19 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 17. NÓVEMBER 2009 Golli Gert við Nú þykir ekki óhætt að gera við hús að utan nema klæða það í áður. Viðgerðarmenn kæra sig enda auðvitað ekki um að missa neitt ofan á höfuð þeirra sem framhjá ganga. Þá kemur þéttriðið netið að góðu gagni. Á NÆSTU vikum verður tekist á um skattastefnuna á Al- þingi og einnig utan þings því í þjóðfélaginu eru skiptar skoð- anir og mismunandi hagsmunir þegar skattkerfið er annars vegar. Vegna þess hve tekjur ríkis og sveitarfélaga hafa fallið af völdum bankahrunsins og keðjuverkandi afleiðinga þess er ekki um annað að ræða en grípa til róttækra aðgerða. Að öðrum kosti verður ekki hægt að stoppa upp í fjárlagagatið. Tekjuöflun Hallanum má mæta með tvennum hætti. Ann- ars vegar með því að skera niður útgjöld hins op- inbera og hins vegar með því að afla meiri skatt- tekna. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir hvoru tveggja. BSRB hefur varað við miklum niðurskurði hjá hinu opinbera og bent á tvennt máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi er stórvarasamt að veikja velferðarkerfið. Það á sérstaklega við á tímum samdráttar og efna- hagsþrenginga. Einmitt þá er þörf á þéttriðnu öryggisneti velferðarþjóðfélagsins. Að öðrum kosti lenda margir utangarðs með hrikalegum félagslegum afleiðingum. Niður- skurður hefur einnig í för með sér neikvæðar efnahagslegar afleiðingar því hann leiðir til atvinnumissis sem síðan þarf að fjármagna með at- vinnuleysisbótum og félagslegum úrræðum sem kosta sitt. En eftir því sem við forðumst niðurskurðinn þurfum við meira að reiða okkur á tekjuöflunina. Ekki er sama hvernig tekna fyrir ríki og sveitarfélög er afl- að. Tekjujöfnun Öllu máli skiptir að skattlagningin sé réttlát. Hún þarf að vera með þeim hætti að um hana sé víðtæk sátt í samfélaginu. Ég er sannfærð um að almennt vill fólk sjá félagslegt réttlæti í skattlagningu. Það þýðir að greitt sé í samræmi við greiðslugetu; að skattlagningin ráðist af því hve aflögufærir aðilar eru og gildir þar hið sama um einstaklinga og fyrirtæki. Á undanförnum árum hefur því miður ekki verið stuðst við slíka vinnureglu. Þvert á móti hefur sköttum verið létt af efnafólki en hinir efna- minni verið látnir bera byrðarnar. Þessu þarf nú að snúa við. Þrepaskiptur tekjuskattur er svar við þeirri kröfu. Eflaust verða margir til að mótmæla slíkri skattlagningu. Hætt er við að þau mótmæli berist einkum frá þeim sem eru vel stæðir og yrðu fyrir bragðið látnir borga hlutfallslega meira í slíku kerfi en hinir sem eru efnaminni. Slíkt er hins vegar í samræmi við réttlætiskennd okkar flestra og í þeim anda sem BSRB hefur ályktað. BSRB styður þrepaskipt kerfi enda hafa samtökin löngum bent á að skattkerfið sé ekki einungis tekjuöflunartæki heldur skuli einnig nota það til tekjujöfnunar. Stóriðjan á ekki að vera stikkfrí En vissulega eru fleiri möguleikar fyrir hendi. Með óbeinum sköttum, virðisaukaskatti, tollum og vörugjöldum hefur hið opinbera aflað upp undir 40% tekna sinna á undanförnum ár- um. Breytingar á þessum skattstofnum skipta því ekki síður máli en tekjuskatturinn. Virð- isaukaskatturinn er á hinn bóginn því marki brenndur að hann hækkar verðlag og þar með lánskjaravísitölu. Hann kemur einnig niður á kaupmætti ekki síður en tekjuskattur og er mikilvægt við allar breytingar á virðisauka- skatti og öðrum óbeinum sköttum að neyslu- mynstur almennrar launafjölskyldu sé haft í huga. Enn ein leiðin til tekjuöflunar eru svokall- aðir umhverfisskattar sem fela í sér gjöld á raf- orku til stóriðju. Það hefur verið sárgrætilegt að fylgjast með því hve slæmar viðtökur hug- myndir um umhverfisskatta hafa fengið hjá Samtökum atvinnulífsins. Enn eru þessir skatt- ar inni í myndinni en í mjög smækkaðri mynd frá því sem lagt var upp með. Ekki notendagjöld í velferðarþjónustunni Að mínum dómi þarf að stilla skattlagning- unni upp í forgangsröð. Hvort viljum við skatt- leggja stóriðjuna – sem notið hefur afslátt- arkjara í samningum sínum – eða almennt launafólk? Fyrir mitt leyti á ég ekki erfitt með að svara þeirri spurningu. Það eru reyndar fleiri spurningar sem menn verða að svara í tengslum við skattaumræðuna. Sú veigamesta er þessi: Ef við öflum ekki ríkissjóði og sveit- arsjóðum tekna erum við þá tilbúin að borga með notendagjöldum hvort sem það eru skóla- gjöld, sjúklingagjöld eða annað? Þessu hafa Ís- lendingar margoft svarað í skoðanakönnunum. Almennt vill fólk greiða fyrir velferðarþjón- ustuna með almennum sköttum en ekki ein- staklingsbundnum gjöldum. Þetta segir þjóðin aðspurð og hefur gert um langt árabil. Þessum viðhorfum verður að finna stað í skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Eftir Elínu Björgu Jónsdóttur » Öllu máli skiptir að skattlagningin sé réttlát. Hún þarf að vera með þeim hætti að um hana sé víðtæk sátt í samfélaginu. Elín Björg Jónsdóttir Höfundur er formaður BSRB. BSRB vill réttlátt skattkerfi ÁÐUR en frumvarp um breytingar á skattalögum hefur ver- ið lagt fram fer stjórn- arandstaðan, undir for- ystu Sjálfstæðisflokks, mikinn á Alþingi. Í vændum eru úrbætur á skattkerfinu þar sem í ríkari mæli verður horft til þess að þeir sem mest hafa á milli handanna leggi meira af mörkum og þeim sem minna hafa verði hlíft sem kostur er. Aðstæður eftir hrunið eru erf- iðar og óhjákvæmilegt annað en að hækka skatta, eins og boðað var fyrir kosningar, þótt það verði seint til vinsælda fallið. Með skattahækkunum verður komist hjá því að skera inn að beini vel- ferðarþjónustuna og menntakefið til þess að ná endum saman. Þess var að vænta að í röðum sjálfstæð- ismanna og framsóknar yrðu rekin upp ramakvein enda er með mark- vissum hætti verið að breyta því kerfi sem ríkisstjórnir áðurnefndra flokka hönnuðu fyrir vini sína og velunnara sem jafnframt fengu ríkiseigur, s.s. banka og símafyr- irtæki á kostakjörum. Þau við- skipti voru sumpart fjármögnuð með kúlulánum sem sum hver eru enn ógreidd. Almenningur hlýtur að spyrja sig hvers vegna stjórn- arandstaðan taki á málum eins og raun ber vitni. Talsmönnum þeirra flokka sem bera höfuðábyrgð á hruninu væri nær að bíða eftir frumvarpi ríkisstjórnarinnar svo hægt sé að ræða málin af yfirveg- un, ábyrgð og skynsemi í stað upp- hrópana. Talsmenn stjórnarand- stöðunnar virðast hafa gleymt því sem almenningur veit; að skatta- hækkanir nú eru óhjákvæmileg af- leiðing ýmist aðgerða eða aðgerð- arleysis Sjálfstæðisflokks og meðreiðarsveina þeirra í ríkis- stjórnum allt frá 1991. Í samræmi við stefnu rík- isstjórnarflokkanna verður með breytingum á skattkerfinu stuðlað að auknum jöfnuði á meðal þegna þessa lands. Full þörf er á enda hafa bæði skýrslur OECD og rannsóknir og greiningar vísinda- manna sýnt að í valdatíð sjálfstæð- ismanna var vaxandi ójöfnuður í íslensku samfélagi. Í rausnarlegum skattalækkunum meints góðæris var þannig um búið að lækkanir kæmu þeim best sem mest höfðu á milli hand- anna. Ýmsar íviln- anir voru veittar, s.s. lágsköttun á fjár- magnstekjum og arðgreiðslum en per- sónuafsláttur var aftur á móti frystur. Nú er stefnt á lag- færingu á skattkerfi sem um margt var óskakerfi þeirra best settu. Tekjuöflun ríkisins verður nú líkari því sem þekkist í norræn- um velferðarsamfélögum. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni á Alþingi þegar frumvarpið lítur dagsins ljós. Munu sjálfstæðismenn áfram grímulaust verja sérhagsmuni og misskiptingu? Munu þeir leggjast í vörn fyrir hagsmuni auðvaldsins eða munu þeir sýna skilning á því að við þessar erfiðu aðstæður þurfi breiðu bökin að leggja meira af mörkum? Stjórnarandstöðunni væri hollt að horfa í eigin barm og sýna heiðarleika, eins og óskað var eftir á nýafstöðnum þjóðfundi, með því að styðja ríkisstjórnina í þeim óhjákvæmilegu breytingum sem framundan eru. Almenningur mun varla meta mikils yfirboð þeirra flokka sem hafa brugðist þjóð sinni með afdrifaríkum hætti. VG dró ekki dul á það í aðdraganda kosn- inga sl. vor að hluti af glímunni við fortíðarvandann fælist í skattkerf- isbreytingum jafnframt því sem byrðunum yrði dreift af sanngirni. Menn geta í ljósi umræðu síðustu daga velt því fyrir sér hver orðið hefði raunin ef auðhyggja Sjálf- stæðisflokksins væri áfram ráðandi við ríkisstjórnarborðið. Nútímavæðing skattkerfisins Eftir Berg Sigurðsson »Munu Sjálfstæðis- flokkur og Fram- sókn verja hagsmuni auðvaldsins eða sýna skilning á því að nú þurfi breiðu bökin að leggja meira af mörkum? Bergur Sigurðsson Höfundur er framkvæmdastjóri þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.