SunnudagsMogginn - 13.02.2011, Page 16
16 13. febrúar 2011
S
tríð Silvios Berlusconis, forsætis-
ráðherra Ítalíu, við ítalskt rétt-
arkerfi heldur áfram. Á miðviku-
dag fóru saksóknarar í Mílanó
fram á að mál á hendur Berlusconi vegna
ásakana um að hann hefði misnotað vald
sitt og haft samræði við ólögráða stúlku
fengi flýtimeðferð fyrir dómstólum vegna
þess að fullnægjandi sannanir lægju fyrir
um að hann hefði framið bæði brot. Ber-
lusconi brást þegar ókvæða við, sakaði
ásakendur sína um undirróður og vísaði
málatilbúnaði þeirra á bug sem tilraun
pólitískt litaðs dómsvalds til að bola sér úr
embætti.
„Ég get bara sagt að þetta er farsi,“
sagði Berlusconi. „Það er enginn grund-
völlur fyrir þessum ásökunum. Eina
markmið rannsóknarinnar er að koma
óorði á mig í fjölmiðlum.“ Berlusconi og
stuðningsmenn hans hafa iðulega sagt að
ítalska dómskerfið sé griðastaður komm-
únista, sem hafi það helst fyrir stafni að
brugga gegn honum launráð.
„Við erum ekki bolsévikar“
Ugo De Siervo, forseti stjórnlagadómstóls
Ítalíu, æðsta dómstigs landsins, svaraði
Berlusconi fullum hálsi á fimmtudag og
sagði ásakanir hans „ýktar og taugaveikl-
aðar“ og bætti við: „Flestir okkar eru
mjög hófsamir og nú höfum við verið
stimplaðir. Við erum ekki bolsévikar.“
Seinna um daginn fór í dreifingu viðtal,
sem birtist við Berlusconi í föstudags-
útgáfu dagblaðsins Il Foglio. Þar lætur
forsætisráðherrann vaða á súðum og for-
dæmir samræmdar tilraunir „til að breyta
hlægilegri rannsókn í alþjóðlegt hneyksli í
anda njósnaveiðanna, sem gerðar voru í
„líf annarra“ í Þýskalandi kommúnista“.
Líf annarra nefnist þekkt kvikmynd, sem
snýst um það hvernig njósnir þýsku ör-
yggislögreglunnar, Stasi, um almenning
eitruðu austur-þýskt samfélag.
„Ég er stundum syndari rétt eins og all-
ir,“ sagði Berlusconi í játningatóni í við-
talinu, en bætti svo við að hinir siðavöndu
dómarar vildu ekki bara koma honum frá
heldur breyta ítölsku samfélagi: „Þeir sem
boða hið siðprúða lýðræði með eig-
inleikum púritana og jakobína eru með
alræðislýðræði í huga, andstæðu kerfis,
sem byggist á frelsi, umburðarlyndi og
sannri siðferðislegri samvisku bæði op-
inberlega og í einkalífi.“
Ítalskt dómskerfi er þannig uppbyggt
að saksóknarar geta beðið um flýti-
meðferð telji þeir að þeir séu með óyggj-
andi sannanir í höndum. Cristina De
Senso, dómari í Mílanó, þarf nú að skera
úr um hvort svo sé og hefur til þess fimm
daga. Telji hún að svo sé ekki þurfa sak-
sóknararnir að fara hefðbundna leið í
dómskerfinu og tekur það mun lengri
tíma. Di Censo þarf einnig að skera úr um
það hvort dómstólar í Mílanó séu hæfir til
að fara með málið. Lögmenn Berlusconis
halda því fram að mál hans geti aðeins
farið fyrir sérstakan dómstól ætlaðan
þingmönnum. Einn þeirra, Niccolo Ghed-
ini, hefur einnig sagt að verði fallist á
flýtimeðferð verði því áfrýjað og þá fer
málið fyrir neðri deild ítalska þingsins þar
sem Berlusconi hefur meirihluta.
Edmondo Bruti Liberati saksóknari og
félagar hans halda því fram að Berlusconi
hafi greitt dansara í næturklúbbi, Karimu
el-Marough, sem kölluð er Ruby og málið
Rubygate, fyrir kynlíf þegar hún var 17
ára. Hann hafi einnig notað vald sitt með
ólögmætum hætti þegar hann fyrirskipaði
í maí á liðnu ári að hún skyldi látin laus úr
haldi eftir að hún var handtekin fyrir
búðarstuld. Berlusconi útskýrði inngrip
sitt með því að hann hafi haldið að hún
væri frænka Hosnis Mubaraks, forseta
Egyptalands, á miðvikudag kvaðst hann
hafa viljað koma í veg fyrir alþjóðlegt
hneyksli. Ruby er reyndar frá Marokkó og
ekki skyld Mubarak.
Ekki er refsivert að kaupa vændi á Ítal-
íu, en þegar ólögráða einstaklingur á í
hlut varðar það allt að þriggja ára fangelsi.
Misnotkun embættis varðar allt að 12 ára
fangelsi.
„Í svona læknasloppi og
engu innanundir“
Gestir í samkvæmum Berlusconis hafa
verið yfirheyrðir og símar hleraðir. Mála-
tilbúnaðurinn er á 389 síðum og um miðj-
an janúar var hann afhentur þinginu, sem
átti að skera úr um hvort ákæruvaldið
fengi heimildir til frekari rannsókna á
einkareitum forsætisráðherrans. Inni-
haldið átti að fara leynt, en hefur verið til
stöðugrar umfjöllunar í blöðum, allt ofan í
óþægilegustu smáatriði. „Hann er orðinn
gamall,“ segir ein af samkvæmisstúlk-
unum í afriti af símtali. „Feitur og ljótur,
en örlátur.“
Þar er einnig þetta samtal: „Maður á að
vera hin opinbera hjúkrunarkona.“ „Ha,
ha. Hann sagði það líka við mig.“ „Grín-
astu við hann, þú þarft að vera með þykj-
ustu blóðþrýstingsmæli og slopp.“ „Í
svona læknasloppi og engu innanundir.“
„Og þá segir þú við hann, ég er hjúkr-
unarkonan, ég á að rannsaka þig – þú
veist hvað hann hefur gaman af svoleiðis
hlutum.“
Í skjölunum eru lýsingar á samkvæm-
um Berlusconis í villu hans í Arcore. Eftir
nektardansinn á Berlusconi að velja þær
konur úr sem fá að vera um nóttina. Talað
er um „bunga-bunga“-samkvæmi.
Ákæruvaldið er með þrjár persónur til
rannsóknar vegna gruns um að hafa út-
vegað stúlkur í samkvæmin. Þar á meðal
er Nicole Minetti, fyrrverandi aðstoð-
arkona á tannlæknastofu, sem Berlusconi
kynntist þegar maður réðst á hann og
keyrði líkan af dómkirkjunni í Mílanó í
andlitið á honum. Minetti er nú svæðis-
stjóri flokks Berlusconis í Langbarðalandi.
Reuters
Ég er
stundum
syndari
Silvio Berlusconi hefur ávallt verið umdeildur,
en hvað eftir annað hafa ítalskir kjósendur kosið
hann til valda. Nú er þó svo komið að páfa ofbýð-
ur lífstíll forsætisráðherrans og við honum blasa
réttarhöld vegna ásakana um samræði við ólög-
ráða stúlku og misbeitingu valds síns.
Karl Blöndal kbl@mbl.is
Þátttakandi í mótmælum gegn Berlus-
coni heldur á lofti bleikum nærbuxum.