SunnudagsMogginn - 14.08.2011, Blaðsíða 23
14. ágúst 2011 23
irverkstjóri rúmlega tvítug. Sem verkstjóri vildi
ég vinna með fólki en ekki stjórna því. Við vorum
öll að vinna að því sama: að koma fiskinum í sölu
og ég var jafn mikið á færibandinu að vinna eins
og að stjórna. Þetta var mikil lífsreynsla. Ég þurfti
að segja upp fólki, þar á meðal vinkonum
mömmu. Það var erfitt og tók á. Ég reyndi að
vera töffari þegar ég var að þessu en svo fór ég
heim og táraðist.“
Langaði þig aldrei til að gera eitthvað annað
en að vinna við fisk?
„Nei. Í vinahópi mínum eru flestir með meiri
menntun en ég, búnir að fara í gegnum mennta-
skóla og háskóla. Á sínum tíma voru alltaf ein-
hverjir að spyrja að því í hvaða menntaskóla, há-
skóla – og hvað þetta heitir nú allt saman – ég
hefði farið. Ég var búin að svara þessari spurn-
ingu margoft og það endaði með því að ég svar-
aði: „Ég hef hvorki farið í menntaskóla né há-
skóla. Ég fór í Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði en
ég er með helmingi hærri laun en þið.“ Ég var
ekki spurð aftur. Ég hef ekkert á móti menntun
en hún er ekki allt.“
Svo yfirgafstu Siglufjörð.
„Þegar ég var tuttugu og fimm ára hugsaði ég
með mér: Á þessum stað kemst ég ekki lengra en
ég er komin. Ég get haldið áfram að vera verk-
stjóri hérna og ég get haldið áfram að vera inni í
skápnum og eiga kærasta. En það var ekki það
sem ég vildi. Ég ákvað að breyta lífi mínu og flutti
suður. Í dag bý ég með konu, Söru Dögg Svan-
hildardóttur sem er skólastjóri Barnaskóla Hjalla-
stefnunnar í Hafnarfirði.“
Óvænt brúðkaup
Hvernig var að vera lesbía á litlum stað eins og
Siglufirði?
„Þegar ég var sautján ára fannst mér ég hrífast
af konum á óvenju sterkan hátt en meðan ég bjó á
Siglufirði hleypti ég þessum tilfinningum aldrei
lengra en að höfðinu. Eftir að ég flutti suður og
kom út úr skápnum tóku foreldrar mínir þeim
tíðindum afskaplega vel. Mamma táraðist reynd-
ar og fannst ég velja erfiða leið, en eins og ég
sagði við hana: „Ég valdi þetta ekki, þetta valdi
mig.“ Pabbi sagði: „Meðan þú ert hamingjusöm
þá er ég hamingjusamur.“
Ég er að vinna í algjörum karlaheimi og hef
aldrei orðið vör við fordóma eða andúð vegna
kynhneigðar minnar. Ég elska þessa kalla sem ég
hef verið að vinna með. Þeir kynna mig á fundum
og segja: „Hér er Bylgja“, og ef spurt er um
einkalíf mitt segja þeir: „Hún býr með konu“.
Þeir hafa alltaf sýnt mér stuðning og virðingu.“
Hvernig kynntistu konunni þinni?
„Fyrir sjö árum var ég með Brynju Gunnars-
dóttur vinkonu minni á Ítalíu á skíðum. Ég var
nýskilin og mamma hafði dáið mánuði áður. Ég
var ákaflega leið og sagði við Brynju að ég sæi
enga framtíð. Brynja sagði: „Hvað með Söru
Dögg? Mér finnst hún vera sætasta lesbían á Ís-
landi. Langar þig ekki að fara út að borða með
henni?“ Ég sagðist vera til í það og Brynja hringdi
í Söru. Við komum heim á laugardagskvöldi og á
sunnudagskvöldi fór ég út að borða með Söru.
Brynja hafði lofað að hringja í mig yfir matnum
og ef stefnumótið væri neyðarlegt ætlaði hún að
koma. Þegar hún hringdi sagði ég: „Hættu að
trufla mig, það er svo gaman!“ Við Sara erum
búnar að vera saman síðan.
Við giftum okkur í maí 2009. Ég laug því að
henni að við værum að fara út að borða með sjáv-
arútvegsráðherra. Sagði henni að hún yrði að
vera í fínum fötum en áður en við færum í matinn
þyrftum við að sækja vinafólk út í Álftanes. Ég
var búin að útvega prest, hafði kallað út fjöl-
skyldur okkar og nána vini sem biðu í Bessa-
staðakirkju. Á miðjum Álftanesvegi stöðvaði ég
bílinn og sýndi Söru risastóra blöðru sem vin-
kona okkar hafði sett upp. Á henni á stóð: Viltu
giftast mér? Ef þú segir nei eru 20 metrar í hjarta-
hnoðtæki og 30 metrar í rotara. Sara leit á mig og
ég sagði: „Við erum ekki að fara út að borða með
sjávarútvegsráðherra. Ég ætla að biðja þig um að
giftast mér.“ Hún sagði já með tár í augum en
spurði mig svo hvert við værum að fara. „Ekki
spyrja meira, við keyrum bara áfram. Kannski er
einhver á Bessastöðum,“ sagði ég. Þetta var lítið
og sætt brúðkaup með fjölskyldu og bestu vin-
um.“
Hvarflaði aldrei að þér að hún myndi segja
nei?
„Nei! En ef hún hefði sagt nei hefði ég bara gert
úr þessu gott partý. Ég veit að hún elskar mig og
ég elska hana afskaplega heitt.“
Langar ykkur til að eiga börn?
„Ég er ekki viss um að ég hefði tíma fyrir barn.
Söru Dögg finnst ég stundum vera dálítill kall. Ég
sagði við hana: „Ef við ætlum að eignast barn þá
verðurðu að átta þig á því að þú verður að vera
heima með barnið fyrstu tvö árin. Ég get ekki
tekið mér frí, ég er ein að vinna hjá þessu fyr-
irtæki.“ En hún hafði engan sérstakan áhuga á
barneignum.
Fólk hefur oft sagt við mig: Þið verðið að eign-
ast barn. En það er ekkert sjálfgefið að svo verði.
Margir vina minna segja: Nú á ég þrjú börn sem
eiga eftir að hugsa um mig í ellinni. Ég geri at-
hugasemd við þetta. Móðir mín fékk heilabilun,
gat ekki tjáð sig og var á stofnun síðustu árin sín.
Mér þótti mjög vænt um að hafa haft möguleika á
því að geta annast hana á þeim tíma, en geri mér
um leið grein fyrir því að það er ekki öllum gefið.
Heldurðu að framtíð þín verði í sölumennsku
á fiski?
„Já, ég er mjög ánægð í þannig starfi. Ég verð í
fiski þar til ég verð gömul. Ég er mjög jarðbundin
og ekki mikið fyrir að skipta um vinnu. Ég hef
alltaf verið í sama geiranum og þar er bara fiskur
og fiskur og enn meiri fiskur.“
’
Á sínum tíma
voru alltaf ein-
hverjir að spyrja
að því í hvaða mennta-
skóla, háskóla – og
hvað þetta heitir nú allt
saman – ég hefði farið.
Ég var búin að svara
þessari spurningu
margoft og það endaði
með því að ég svaraði:
„Ég hef hvorki farið í
menntaskóla né há-
skóla. Ég fór í Fisk-
vinnsluskólann í Hafn-
arfirði en ég er með
helmingi hærri laun en
þið.“ Ég var ekki spurð
aftur. Ég hef ekkert á
móti menntun en hún er
ekki allt.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Ég er að vinna í algjörum karla-
heimi og hef aldrei orðið vör við
fordóma eða andúð vegna kyn-
hneigðar minnar.“