SunnudagsMogginn - 14.08.2011, Blaðsíða 47
14. ágúst 2011 47
Þ
etta er samvinnufélag ungra starfsmanna þar
sem allur hagnaðurinn er settur í sjóð, sem
fer í að styrkja þau til náms,“ segir Ragnar
Sverrisson, sem fer fyrir Samhljómi menn-
ingarheima í samstarfi við Vini Afríku og Vini Kenía.
„Ég veiktist heiftarlega af sóríasis og eftir að hafa
þurft að fara í liðskiptaaðgerðir hér heima ákvað ég að
fara suður til Afríku og athuga hvort hitinn þar gerði
mér ekki gott,“ segir hann. „Kenía varð fyrir valinu og
það er skemmst frá því að segja að
ég heillaðist af landi og þjóð og er
núna giftur konu frá Kenía. Ég hef
áhuga á að búa þar hluta úr ári og
hér hluta úr ári.“
Munaðarlaus börn í fyrirrúmi
Fyrsta skrefið var að einbeita sér að
munaðarlausum börnum í hjálp-
arstarfinu, en í Kenía eru það um
10% þjóðarinnar. „Við hófum starf-
semina með því að setja á stofn eld-
hús, þar sem munaðarlaus börn og
aðrir sem þurftu á að halda, gátu komið og fengið að
borða,“ segir Ragnar.
„Fyrir nokkrum árum var öllum börnum í Kenía
gert kleift að ganga í barnaskóla, skólagjöld voru lögð
niður. Í framhaldsskóla eru skólagjöld, reyndar mjög
lág, en fyrir þá sem ekki eiga fyrir þeim er erfitt að
greiða þau. Svo það er gríðarlegt brottfall úr skóla.
Frumhugmyndin hjá mér var að hjálpa ungu fólki að
komast í menntaskóla.“
En hvaða verkefni urðu fyrir valinu? „Ég er tækni-
menntaður og reyndi að nýta mér það,“ svarar Ragnar.
„Við einbeittum okkur fyrst að tveimur verkefnum.
Annars vegar að súta nílarkarfaroð, sem er samstarfs-
verkefni við fyrirtæki í Kenía sem heitir Kyrgi og Sút-
un á Sauðárkróki, eina fyrirtækið í Evrópu sem sútar
fiskroð. Það hefur sett mikla fjármuni í markaðs-
setningu og sölu á fiskroði inn á tískumarkaðina í Evr-
ópu og Bandaríkjunum.“
Borað með handafli
En meginverkefnið er að bora eftir vatni með handafli.
„Þetta eru frumstæðar aðferðir, sem víða eru notaðar
og voru notaðar á Íslandi fyrr á öldum,“ segir Ragnar.
„Vatn er líf hér eins og annars staðar en rennur ekki úr
krönum á hverju heimili eins og við eigum að venjast.
Margir ganga tugi kílómetra eftir vatni á hverjum degi.
Draumurinn er að setja á stofn samvinnuiðnskóla
fyrir ungt fólk. Þar sem til að mynda yrði kennt að
smíða vatnsbor, vatnsdælu og kælivél. Við stefnum að
því að bjóða upp á túristaferðir þar sem skilyrðið er að
túristarnir haldi námskeið eða fyrirlestur í því fagi sem
viðkomandi er sérfróður um. Innfæddir hafa áhuga á
að læra handverk og tækni.“
En hvernig gekk að hrinda þessum markmiðum í
framkvæmd? „Það er meira en að segja það, að hefja
nýtt verkefni í ókunnu landi með takmarkaðar upplýs-
ingar. En með mikilli yfirlegu og ráðum góðra manna,
fékk ég sjálfstraust til að hrinda þessu í framkvæmd,“
svarar Ragnar.
Eftir mikla yfirlegu, hönnun og teikningar var lagt í
leiðangurinn „Never ending story“. „Ég hafði samband
við gamlan vin, Samvil járnsmið, sem hefur starfað við
að þjálfa unga stráka í járnsmíði til að skapa þeim
möguleika á betri framtíð. Samvil lagði til aðstöðu og
ekki síst innblástur með frábærum samstarfsmönnum,
ótrúlegri útsjónarsemi og atorku. Nú er svo komið að
hann dreymir borvélina og á hverjum morgni segir
hann við mig: „Ég get ekki sofið. Mig er farið að
dreyma vélina.“ Hér telja menn ekki eftir sér að móta
járnið með höndum eða handverkfærum einum saman,
og járnið er hamrað, sagað, sorfið og mótað. En snitt-
vélin sem Bjarni pípari gaf okkur er leynivopnið við að
búa til borvélina.“
Vélin tekur á sig mynd
Ragnar heldur áfram: „Smám saman fór vélin að taka á
sig mynd. Svo var hafist handa, grafið og borað. En ár-
angurinn var ekki samkvæmt væntingum til að byrja
með. Áhyggjur skinu úr augum samstarfsmanna
minna. Minn helsti hjálparkokkur, Jef, sem hafði að-
stoðað mig við smíðina, sagði við mig: „Þetta hlýtur að
virka, þetta verður að virka!“ Og horfði á mig með
vonleysi í augum. Hvert sem ég leit skein vonleysið úr
augunum. Það er merkilegt hvað þeir gefast fljótt upp.
Áhyggjur þeirra hvíldu þungt á herðum mínum, þó ég
vissi að það tæki í besta falli nokkrar vikur að ná ár-
angri. Það jákvæða var, að við höfðum byrjað við
verstu mögulegu aðstæður og lært margt af því. Við
vorum rétt hjá verkstæðinu og gátum gert þær breyt-
ingar sem augljóst var að þyrfti að gera. Svo ákváðum
við að reyna við betri aðstæður – finna jarðveg þar sem
ekki er grjót.“
Allir vilja bora eftir vatni
Hann segir að eftirspurnin eftir svona „borvél“ hafi
komið sér á óvart. „Enda reyndum við að gera hana
eins ódýra og hægt var. Svo erum við með hugmyndir
um að hreinsa vatn, einfaldlega með því að láta sólina
skína í gegnum það og sigta það í gegnum sand, það á
að gera það drykkjarhæft.“
Yfirskriftin „Never Ending Story“ gefur til kynna
umfang verkefnisins. Og markmiðið er göfugt, að
hjálpa bágstöddum til sjálfshjálpar.
Vatn er líf
Að gefa fólki tækifæri til að nálgast vatn á við-
ráðanlegu verði og að skapa samvinnufélag um
starfsemina. Þannig er hugmyndin á bak við
Samhljóm menningarheima, sem styðja Kenía-
búa til sjálfshjálpar, einkum börn og unglinga, í
samstarfi við Vini Kenía og Vini Afríku.
Sigurður Snæberg Jónsson
Borvélin prufukeyrð
með heimamönnum
á vettvangi í Kenía.
Ragnar
Sverrisson
Aðstæður metnar, tek-
in jarðvegssýni og
metið hvaða end-
urbætur þarf að gera.
Árangur var ekki eftir
væntingum í byrjun og
þurfti að útskýra að verk-
ið krefðist þolinmæði.