Fréttablaðið - 09.12.2011, Side 72

Fréttablaðið - 09.12.2011, Side 72
9. desember 2011 FÖSTUDAGUR44 Pólýfónfélagið Madrigalar og erlend sönglög Nýi diskurinn kominn í Eymundsson, Skífuna, Tólf tóna og Bóksölustúdenta. Diskurinn fæst einnig á félagsverði hjá stjórn Pólýfónfélagsins. Símar: 565 6799 - 847 7594 553 0305 - 8640306 „Þetta er örugglega ekki síðasta verkefnið sem ég vinn með íslensk- um ljósmyndurum,“ segir Celina Lunsford ljósmyndafræðingur. Cel- ina var myndritstjóri ljósmynda- bókarinnar Ný náttúra sem kom út hjá forlaginu Crymogeu í haust. „Þetta hefur verið afar gefandi reynsla og komið mér í samband við marga íslenska ljósmyndara.“ Bókin kom út í tengslum við sýn- ingu á verkum íslenskra samtíma- ljósmyndara, Frontiers of Another Nature, sem haldin var í Frank- furt í haust. Þess má geta að hún er að fara í dreifingu í Bandaríkj- unum og er að sögn útgefanda verið að skoða möguleika á dreifingu á Norðurlöndum, í Frakkalandi og Bretlandi. „Við höfum fengið mjög góð viðbrögð frá fólki sem við höfum sent bókina.“ Manngerð náttúra er viðfangs- efni bókarinnar, hún segir sögu íslenskrar landslagsljósmyndunar en gerir það á óvæntan hátt. Tveim- ur myndum er stillt saman á hverri opnu, yfirleitt sín úr hvorri áttinni. „Mig langaði til þess að vekja forvitni lesenda. Og þó að mynd- irnar virki ólíkar í fyrstu, þá er eitthvað í myndbyggingunni sem tengir þær saman, og iðulega í umfjöllunarefni þeirra – þannig tala myndirnar saman.“ Í bókinni eru bæði nýjar og gamlar ljósmyndir og Lunsford segir það hafa komið sér ánægju- lega á óvart hversu margir áhuga- verðir íslenskir ljósmyndarar séu starfandi. Spurð hvort þeir hafi einhverja sérstöðu segir hún það liðna tíð að þjóðerni setji afgerandi mark á ljósmyndara. „Ljósmyndir fara svo víða í dag, ljósmyndar- ar geta svo auðveldlega kynnt sér verk kollega sinna í öðrum löndum í gegnum netið að það er af sem áður var þegar auðvelt var að þekkja franskar ljósmyndir frá banda- rískum. Hins vegar hafa einstakir ljósmyndarar oft skýr einkenni og mikil áhrif. Ragnar Axelsson, Raxi, hefur til dæmis haft mikil áhrif með myndum sínum af norðurslóð- um,“ segir Lunsford að lokum. - sbt Mig langaði til þess að vekja forvitni lesenda. Og þó að myndirnar virki ólíkar í fyrstu, þá er eitt- hvað í myndbyggingunni sem tengir þær saman. Gefandi reynsla að vinna með íslenskum ljósmyndurum CELINA LUNSFORD Lunsford, sem hélt fyrirlestur hér á landi á dögunum, með bókina Nýja náttúru sem hún var myndritstjóri að. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI Bækur ★★★★★ Valeyrarvalsinn JPV Höfundur: Guðmundur Andri Thorsson „Ég er löngu dauður. Ég ætti að vera fyrir löngu slokknaður og kannski er ég það líka en hef bara ekki áttað mig á því enn. Ég er bara vitund,“ (7) segir sögumað- ur Valeyrarvalsins, sem fylgist af alúð með þorpinu sínu og íbúum þess. Valeyrarvalsinn er sagnasveig- ur, sextán sögur sem tengjast, og gerast allar á sömu tveimur mín- útunum í þorpinu Valeyri. Kór- stjórinn Kata hjólar niður eftir Strandgötunni á leiðinni í Sam- komuhúsið þar sem verða tón- leikar um kvöldið og hún hjólar „í gegnum“ allar sögurnar. Það er táknrænt í mörgum skilningi (og skemmtilegt í því ljósi að í öllum bókum Guðmundar Andra Thors- sonar koma fyrir kvenpersónur með nafninu Kata – eða Katrín). Hinir væntanlegu tónleikar sam- eina fólkið, tónlistin ómar í höfð- um þess. Kata hefur nefnilega „fundið milli lófa sér þennan við- kvæma hljóm. Valeyrarhljóminn.“ (10) Þorpslífinu er lýst fagurlega og sagt af þorpsbúum og þeirra stússi. Hvernig fólk tekur á erf- iðleikunum sem lífið færir því, hvernig menn ná ekki sambandi, hvernig hægt er að vera saman en dvelja samt í tveimur heimum. Hvernig maðurinn er alltaf einn. „Það er svo erfitt að vera manneskja, Salka mín,“ skrif- aði HKL og margar persónur Valeyrarvalsins eiga sannarlega erfitt. Þær þrá að eignast barn en geta það ekki, þær glíma við spila- fíkn og drykkjuskap, þær halda framhjá og yfirgefa fólk sem þarf á þeim að halda. Þær hafa líka sjálfar verið misnotaðar og særð- ar. Þær dreymir um annað líf en megna ekki að breyta neinu. Sagt er að það sé höfuðsynd rithöfundar að þykja ekki vænt um persónur sínar. Guðmund- ur Andri er ekki syndugur rit- höfundur í þessu tilliti. Þvert á móti sýnir hann persónum sínum föðurlega umhyggju (svona „pabbi skilur drenginn“ viðhorf). Manneskjur geta verið svo mikl- ir vitleysingar, svo mikil grey. En það er alltaf ástæða fyrir því að þær hegða sér eins og þær gera og ef staldrað er við í stað þess að dæma kemur ýmislegt óvænt í ljós. Væntumþykja höfundarins í garð persóna sinna smitast líka yfir til lesandans, sem fær áhuga á þessu fólki og er alls ekki sama um það. Það er hollt að lesa um Lífið með öllum þess gæðum og göll- um. Þegar sagt er af brothættum manneskjum eru fáir höfundar sem sýna meiri nærgætni en Guð- mundur Andri Thorsson. Og þeir eru mjög fáir sem kunna að skrifa svona fallegan texta. Raunar eru hálfgerð helgi- spjöll að vera að lesa þessa bók nú í byrjun desember, vegna þess að Valeyrarvalsinn er aðfanga- dagskvöldsbók. Hún er sparibók sem maður les með kjötsvima og konfekti, þegar síðustu tónar útvarpsmessunnar eru þagnaðir og værðin færist yfir. Valeyrar- fólkið fylgir manni svo inn í nótt- ina og býr lengi í hugskotinu. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir Niðurstaða: Undurfalleg saga, sem ilmar af sól og seltu og mannlegri þrá. Tónlist ★★★★★ Hljóðritanir nemenda Liszts á tónlist hans, ásamt ritgerð Runólfur Þórðarson og ýmsir flytjendur 12 tónar Nemendur meistarans Runólfur Þórðarson er hálfgerð goðsögn í tónlistarlífinu á Íslandi. Hann er verkfræðingur en býr yfir víðtækari þekkingu á píanóverk- um og píanóleikurum en flestir aðrir Íslendingar. Fyrir áhugamenn um Franz Liszt, sem átti 200 ára afmæli í október sl., er ritgerð Runólfs um nemendur Liszts skyldueign. Liszt var ekki aðeins frábær píanó- leikari og tónskáld, heldur líka mikilhæfur kennari. Hann kenndi mörgum helstu píanóleikurum samtímans. Með ritinu fylgja tveir geisladiskar þar sem nem- endur meistarans spila verk eftir hann. Það er fróðlegt að hlusta á þá. Túlkunin er oft rafmögnuð. Þetta er fortíðin ljóslifandi, það er nánast eins og að heyra Liszt sjálfan. Auðvitað eru upptökurnar slæmar, enda eldgamlar. En fróðleg og ítarleg ritgerð Runólfs, sem og stemningin í mörgum upptökunum, bætir það upp og vel það. Þetta er einfaldlega frábær útgáfa. Niðurstaða: Skyldueign fyrir áhugafólk um píanóleik og tón- listarsöguna yfirleitt. Jónas Sen Öll fallegu orðin

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.