Morgunblaðið - 22.08.2011, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 22.08.2011, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 22. ÁGÚST 2011 og bar heimili hennar vott um allan útsauminn sem hún hafði gert á yngri árum. Og ófáar voru lopapeysurnar sem hún prjónaði. Á seinni árum fór hún að mála hjá eldri borgurum og það sannaðist enn og aftur hvað hún var flink í höndunum. Það var gaman að fara með henni á málverkasýningar og var Tolli í miklu uppáhaldi hjá henni. Alla tíð reyndist hún mér svo vel og áttum við góðar stundir saman. Hún hafði ótrúlegt minni og gaman að heyra hana rifja upp æskuárin. Hún var mikil smekkkona í fatavali. alltaf svo glæsileg og aldrei gleymdi hún að setja á sig andlitið. Meira að segja síðustu daga hennar á spítalanum mundi hún eftir að setja á sig varalit og þurfti ekki spegil, „bara eftir minni“ sagði hún. Hún fylgdist vel með öllum barnabörnunum og fór á allar sýningar sem þau tóku þátt í og hafði mikið gaman að. Það var líka svo gaman að segja henni sögur af þeim því hún gat hlegið marga daga á eftir að uppátækj- unum eða einhverju skemmti- legu sem þau höfðu sagt eða gert. Það voru mikil forréttindi að fá að eiga hana sem tengdamóð- ir og þó það sé sárt að kveðja, þá veit ég að hún var tilbúin að kveðja þennan heim. Elsku amma ( tengdamamma) þakka þér fyrir samverustund- irnar og minningin um þig mun lifa í hjarta mínu um ókomin ár. Þín tengdadóttir Auður. Elsku yndislega amma. Nú þegar þú kveður þennan heim vil ég fá að skrifa til þín nokkur orð. Þegar ég hugsa um hana ömmu mína þá kemur upp í hug- ann brosmild, falleg kona. Þú varst alltaf jákvæð, glaðlynd og skemmtileg. Þú varst vel lesin og fannst ekki skipta hvort þú læsir á ensku, dönsku eða ís- lensku, en þú hafðir alveg sér- staka ánægju af því að lesa bók. Einnig varstu frábær listmálari sem kom ekki í ljós fyrr en þú hafðir tíma til að sinna þessu áhugamáli þínu og þvílíkur lista- maður sem þú varst. Þegar börnin mín og barna- barn fæddust og eitthvað var um að vera í þeirra lífi varstu alltaf svo áhugasöm. Þér var alltaf umhugað að taka þátt í lífi okkar allra eins og best þú gast. Ófáar voru góðu stundirnar sem fjölskyldan átti í Drápuhlíð- inni, hvort sem það var þegar öll stórfjölskyldan hittist á aðfanga- dagskvöld eða þegar Húsið á sléttunni var í sjónvarpinu á sunnudögum. En alltaf var amma kletturinn okkar allra og var gott að leita til hennar. Nú kveð ég þig, fallega amma mín. Hvíl í friði. Ingibjörg Dís Gylfadóttir. Elsku amma. Einhvern veginn er maður ekki alveg búin að átta sig á þessu. Þú hefur alltaf verið til staðar og verið hjá okkur og þess vegna finnst manni þetta vera frekar óraunverulegt. En ég veit að þú ert farin í þína hinstu ferð. Ég veit þó að þú ert nú loksins komin til afa Magn- úsar sem þú misstir frá þér allt of snemma á lífsleiðinni og hann Palli frændi hefur líka tekið á móti þér, svo mikið veit ég. Þegar ég hugsa til þín koma margar minningar upp í huga minn, úrabúðin í Ingólfsstræti, sunnudagshittingurinn í Drápu- hlíðinni þar sem öll fjölskyldan hittist og áttum þar góðar stundir sem færðist svo yfir á föstudagshádegi eftir að þú hættir með úrabúðina þína. Þessir tímar í Drápuhlíðinni voru yndislegir tímar og þegar ég hugsa um þessa tíma hlýnar mér um hjartaræturnar. Eitt með þig var að þér fannst alltaf gaman að gefa gjaf- ir en aldrei mátti maður gefa þér neitt. Svo einn daginn ákvöðum við barnabörnin að gefa þér eina gjöf. Það var þannig að Siggi náði í þig og fór með þér í bíltúr en á meðan komum við öll barnabörnin og barnabarnabörn og fengum Smára til að taka mynd af okkur á tröppunum á Drápuhlíðinni og svo voru einnig teknar myndir af okkur inni í stofu líkt og var alltaf gert einu sinni. Þegar við gáfum þér myndirnar varstu svo glöð og ánægð en um leið mjög hissa hvernig við gátum öll kom- ið inn til þín án þess að þú vissir af því. Þetta gladdi mig svo mik- ið að sjá hvað þetta gladdi þig og hvað þetta gekk allt vel. Elsku amma. Takk fyrir allar stundirnar, þær eru mér dýr- mætar. Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.) Þín, Margrét Gígja. Elsku besta amma mín, það er svo óendanlega sárt að vita til þess að þú skulir ekki vera leng- ur hjá okkur. Það verður erfitt að venjast lífinu án þín, þú ert búin að vera svo stór hluti af mínu lífi. Ég er ákaflega stolt af því að vera alnafna þín. Það hrannast upp í huga mér margar góðar minningar um þig. Þú varst alltaf glaðleg, glæsileg og svo „smart í tauinu“ eins og þú orðaðir svo skemmtilega og aldrei gleymdir þú að setja á þig varalit. Ég gleymi aldrei hvað ég var hrifin af blómakjólnum sem þú varst í þegar ég var skírð og að þú skyldir síðan mæta í hon- um aftur þegar ég gifti mig fannst mér alveg frábært. Það sýndi sig að þú varst jafn glæsi- leg þó árin hefðu færst yfir þig. Það var alltaf gaman að koma til þín og þú sagðir svo margar góðar sögur af ævinni þinni. Þú varst svo ótrúlega minnug og sagðir alltaf svo skemmtilega frá. Á mínum yngri árum var ég mjög matvönd en þú varst sú eina sem gat fengið mig til að borða kjötbollur, kartöflur og sósu sem þú kallaðir „brall í bauk“. Það var alltaf mjög spennandi að fá brall í bauk hjá ömmu. Einnig gleymi ég aldrei góðu pönnukökunum þínum. Þú ferðaðist mikið til útlanda og þar á meðal til Hollands. Þú talaðir mikið um hvað þér þætti landið fallegt og hvað það hefði verið gaman að sjá alla fallegu túlípanagarðana og vindmyllurn- ar. Þegar ég síðan fór sem skiptinemi til Hollands 1991 sendi ég þér póstkort af vind- myllum en þú málaðir einmitt svo fallega mynd eftir kortinu og gafst mér í afmælisgjöf. Þú varst mikill listamaður og gerðir allt svo vel sem þú tókst þér fyr- ir hendur. Umhyggja þín og áhugi á langömmubörnunum var ein- stakur og það var svo gaman hvað þú varst áhugasöm um hvað Ylfa Karen og Viktor Nökkvi gerðu í frítímanum. Ef krakkarnir komu ekki með í heimsókn spurðirðu alltaf hvern- ig þau hefðu það og hvað þau væru að gera. Það var mjög gaman hvað þú hafðir líka mik- inn áhuga á að sjá sýningarnar hjá Ylfu Karen í Borgarleikhús- inu. Þú varst alltaf svo jákvæð og glöð, þrátt fyrir að vera með stöðugan höfuðverk síðustu ár og liði illa, þá hlóst þú bara og kallaðir það „ellimannaveiki.“ Ég er svo glöð að þú fékkst að kynnast yngsta syni mínum, honum Sigþóri Nóa. Þú varst mjög hrifin af honum og kallaðir hann „litla sundgarpinn“. Eitt sinn er ég kom með hann upp á spítala og þú varst mikið veik og hálfsofandi, þá opnaðir þú augun og brostir svo fallega til hans. Þessu mun ég seint gleyma. Það er mikill söknuður sem fyllir hjarta mitt á þessari stundu en ég er þakklát fyrir allar góðu minningarnar. Elsku besta og yndislega amma, takk fyrir allt og allt og guð geymi þig. Þín, Ingibjörg. Amma mín, þá kom að því að þú fékkst hvíldina. Í hvert skipti sem ég kom til Íslands var ynd- islegt að koma í heimsókn til þín. Það verður skrítið að kveðja þig í síðasta sinn. Þú ert hreint út sagt stór- kostleg kona sem hefur gefið okkur mikið af ást og umhyggju. Minning þín mun lifa með okkur en þín rúm 95 ár hafa verið ein- stök. Búið að vera yndislegt að hlusta á frásagnir þínar, eins og við systurnar sögðum: það ætti að gefa út bók með ömmusög- um. Ævin þín hefur verið ein- stök og lærdómsríkt að hlusta á frásagnir þínar. Amma, þú varst svo frábær. Alveg einstök kona. Þú varst einstaklega handlag- in og uppfinningasöm, frábær handavinnukona og sannur lista- maður. Upp úr áttræðu fórstu að mála með öldruðum og hafðir mikla hæfileika, amma mín. Varst heldur aldrei hrædd við nýjustu tæki. Þú varst á undan þinni samtíð með að fá þér strauvél, uppþvottavél, litasjón- varp, örbylgjuofn og nú síðast sjálfvirka ryksugu og það rúm- lega níræð. Það var ógleymanlegt að koma í heimsókn, þú varst alltaf svo glöð og fylgdist vel með öllu sem við börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin tókum okkur fyrir hendur. Passaðir alltaf upp á að eiga eitthvað fyrir alla þeg- ar við komum. Pönnukökurnar þína voru þær bestu. Hekla og Björk fannst alltaf svo flott að koma til ömmu og töluðu um að þú værir svo fín og sæt kona. Þær voru líka alltaf svo stoltar þegar þær fengu að drekka úr spariglasi á fæti. Síðustu 5 ár sagðir þú iðulega þegar ég kom í heimsókn: „ Jæja, ég tóri enn.“ Heimili þitt var yndislegt og alltaf varstu vel til höfð. Fórstu ekki út úr húsi nema búið væri að setja upp andlitið og varalit- urinn á sínum stað. Það var svo gaman þegar þú hringdir í okkur til Danmerkur og ógleymanlegt að hitta þig á skype. Þú hefur upplifað allt frá því að hringja í gegnum símstöð og tala á skype. Við í Danaveldi eigum eftir að sakna þín ótrú- lega mikið og erum þakklát fyrir allan þann tíma sem við áttum með þér. Alla ævi ferðaðist þú mikið um Evrópu. Sem ung kona með pabba þínum, með afa og síðar með vinkonum þínum um allan heim. Ekki má gleyma sumrinu sem við áttum saman í Rockport 1978 en þar áttirðu góða vin- konu, Esther, sem þú varst dug- leg að halda sambandi við með bréfaskriftum. Síðustu reisuna þína, eins og þú kallaðir það að ferðast, komstu í heimsókn til Kóngsins Köbenhavn. Þú varst 85 ára gömul og orðin lúin í fótunum. Gleymi aldrei þegar þú hljópst upp á 3. hæð hjá mér. Fussaðir yfir að hvíla þig í stól á leiðinni, nei þú tókst tröppurnar með trompi. Yndislegt að fá þig í heimsókn í Danaveldi eins og þú orðaðir það. Já þú varst mjög góð í að sletta á dönsku og við gátum hlegið mikið að því. Nú kveðjumst við í síðasta sinn og ég vil ljúka þessu með kvöldbæn sem á alltaf eftir að minna á þig: Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.) Láttu nú ljósið þitt loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesús mæti. (Höf. ók.) Þín, Kristín og fjölskyldan í Danaveldi. Elsku yndislega amma mín, núna ertu búin að kveðja þetta jarðlíf rúmlega 95 ára gömul. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir allar góðu stundirnar með þér og minningarnar eiga eftir að ylja mér um ókomin ár. Það er gott til þess að vita að þú varst tilbúin að kveðja þennan heim og loksins ertu búin að hitta afa eftir 45 ár. Þú lifðir tímana tvenna, elsku amma, og upplifðir margt á þinni löngu ævi. Það var gaman að hlusta á frásagnir þínar. Man þegar þú sagðir mér frá ferm- ingunni þinni, gekkst langa leið til kirkju yfir fjall, með kjólinn í poka og klæddir þig í fyrir utan kirkjuna. Einnig man ég þegar þú sagðir mér frá fyrsta bílnum sem kom til Víkur þegar þú varst aðeins 11 ára gömul og hvað þið vinkonurnar brölluðuð og hlóguð mikið saman. Þú sagðir mér líka frá fyrstu vinnunni þinni í Kaupfélaginu í Vík en sjálfur kaupfélagsstjór- inn hringdi og bauð þér vinnuna. Á stríðsárunum vannstu í verslun í Reykjavík og afgreidd- ir oft hermennina. Gómaðir einn þeirra sem hafði stungið varning inn á sig og kallaðir sjálf á lög- regluna. Já, við hlógum mikið að þessari sögu og fleiri skemmti- legum. Þú varst alveg einstök og yndisleg amma, alltaf svo já- kvæð og létt í lund. Lagðir mik- ið upp úr því að vera vel til höfð og með varalitinn á sýnum stað. Þó heyrnin væri ekki góð síð- ustu ár var sjónin einstaklega góð og lastu alla tíð mikið af bókum og blöðum á ensku og dönsku. Á áttræðisaldri fórstu í myndlist og kom þá í ljós þvílíka hæfileika þú hafðir á því sviði. Heimsóknirnar í Drápuhlíðina eru einstaklega minnisstæðar. Í mörg ár var öll stórfjölskyldan saman á aðfangadag. Ég man líka þegar öll fjölskyldan flykkt- ist til þín á sunnudögum að sjá Húsið á sléttunni í litasjónvarpi. Já, amma, þú varst alltaf með nýjustu tækin. Einnig eru heim- sóknirnar í úra- og skartgripa- verslunina minnisstæðar. Það var svo gaman að fá að fara í búðarleik, setja saman kassa og skoða alla dýrgripina. Í Bólstaðarhlíðina fluttirðu 91 árs en þar varstu mjög ánægð, sagðir oft að þú hefðir átt að flytja fyrir löngu. Þú hélst heim- ili allt til dauðadags, helltir upp á könnuna þegar við komum í heimsókn og áttir alltaf eitthvað gómsætt með kaffinu. Svefnher- bergið þitt var þakið myndum af öllum afkomendunum sem voru ófáir og hafðirðu gaman af því að sýna mér allar myndirnar. Ég man að þegar ég spurði þig hvað þér þætti erfiðast við að eldast sagðirðu að það að vera öðrum háður væri erfiðast. En þú kvartaðir aldrei né kveinkaðir þér heldur varst allt- af svo jákvæð og glaðleg. Þú hefur alla tíð sýnt mér og Klöru Dögg mikinn áhuga og spurðir iðulega m.a. hvernig gengi í skólanum, vinnunni og með sum- arbústaðinn en þangað komstu fyrir tveimur árum. Það er mér mjög dýrmætt að þú skyldir koma í brúðkaupið mitt fyrir tæpu ári og skemmta þér vel. Fjölskyldan hefur alla tíð verið mjög samheldin og börnin þín fjögur og tengdabörn hugsuðu einstaklega vel um þig og komu daglega í heimsókn. Ég kveð þig með söknuði, elsku amma, og þakka fyrir allt það sem þú hefur gefið mér. Guð blessi þig. Þín, Margrét Elsa. Elsku Inga amma, nú hefur þú kvatt okkur eftir 95 góð ár. Í mínum huga varst þú kletturinn í fjölskyldunni sem tengdir alla saman. Maður getur ekki annað en dáðst að því hvað þú varst dug- leg kona, varst búinn að vera ein í meira en 45 ár eftir að afi dó. Sást um að halda áfram rekstri á úra- og skartgripaversluninni þar sem maður var tíður gestur sem barn og man ég hvað margt var að skoða og sjá þar. Síðan keyrðir þú bíl þangað til þú varst 85 ára og eina vandamálið var orðið fyrir þig að rata þar sem borgin stækkaði svo ört. Ég minnist þess svo vel þegar við komum alltaf á sunnudögum í heimsókn í Drápuhlíðinni þar sem öll fjölskyldan mætti. Við horfðum á Stundina okkar í lita- sjónvarpinu þínu og undantekn- ingarlaust voru bakaðar pönnu- kökur (pönsur), mitt uppáhald. Ekki má heldur gleyma að sem barn man ég að við vorum öll fjölskyldan á aðfangadag jóla í Drápuhlíðinni og það voru bara engin jól öðruvísi. Aldrei heyrði maður ömmu kvarta eða vera neikvæða, hún var alltaf svo jákvæð og í góðu skapi og sá alltaf það góða í öll- um. Það er huggun og friður fyrir fjölskylduna að vita það að þú hefur fengið hvíld og ert á góð- um stað hjá Guði á himnum. Ég veit fyrir víst því að trú þín á Guð var einlæg og sönn. Ég kveð þig, amma mín og mun ávallt geyma allar góðu minningarnar. Bið Guð að blessa og styrkja alla afkomendur hennar Ingu ömmu. Magnús Gylfason. Yndislega langamma, við vor- um svo ofboðslega heppin að fá að kynnast þér. Þú varst alltaf svo sæt og góð við okkur. Það var gaman að koma að heimsækja þig, þú áttir alltaf svo gott kex. Pabba fannst líka svo gaman að koma til þín og fá kaffisopa hjá þér. Við spil- uðum oft á spil hjá þér og þú vissir alltaf hvar spilin voru geymd. Já, þú varst svo rosalega minnug. Þú sagðir alltaf við okk- ur hvað við værum góð systkini. Það var gaman þegar þú bauðst okkur á jólaböllin, þetta voru skemmtilegustu jólaböllin. Það var líka svo sætt af þér að bjóða okkur koma að horfa á myndina Stikkfrí. Okkur fannst líka gam- an að þú mundir alltaf eftir af- mælisdögunum okkar og hringd- ir í okkur. Langamma, ég (Ylfa Karen), var svo stolt þegar þú komst að sjá mig á sýningunum í Borg- arleikhúsinu.Við eigum eftir að sakna þín svo mikið. Við vildum óska þess að Sigþór Nói, litli bróðir okkar, hefði líka kynnst þér eins vel og við en við eigum eftir að segja honum hvað hann átti góða langömmu. Guð geymi þig, elsku langamma. Knús, Ylfa Karen og Viktor Nökkvi. „Væri ekki rétt að laga kaffi?“ Þetta var alltaf viðmótið sem mætti manni þegar komið var í heimsókn til Ingibjargar. Ingibjörg var fædd og uppalin í Vík í Mýrdal og hafði alla tíð sterkar taugar til Víkur þó hún hafi flutt þaðan ung kona. Hún eignaðist þar góðar vinkonur og hélst sú vinátta á meðan þær lifðu. Ingibjörg var alltaf mjög sjálfstæð og dugleg kona og til SJÁ SÍÐU 22

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.