Líf og list - 01.10.1951, Blaðsíða 2

Líf og list - 01.10.1951, Blaðsíða 2
Tuttugasti ágúst HÉR SIT ÉG á kaffihúsinu, ein- mana sem ösp í holti, maður á miðj- um aldri og farinn að fitna, á köfl- um svolítið þreyttur á taugum, en þó sæmilegasta skepna. Ég er einn, svo aleinn, að ég hef ekki lyst á kaffinu. Hvar eru vinir mínir? Það má guð vita. Líklega í sumarfríi eða einhvers konar fríi. Horfnir eru þeir, að minnsta kosti í bili; og nú sé ég, hve þetta kaffihús er ljótt og snautt. Með sumri, þegar jörð fer að gróa og trén að laufgast í görðun- um, fölnar og visnar að sama skapi allt líf á kaffihúsinu. Unaðsskær birta hásumarsins kemur upp um lit- leysi veggjanna, skítinn á gólfinu, myrkurdrungann í skotunum, óheil- næmi andrúmsloftsins. Kaffihúsið er ekki sumarstofnun. Dýrð hins stutta íslenzka sumars kemst ekki yfir þröskuld þess. Það er víst þess vegna, að hér eru svo fáir í kringum mig, því að hver vill fara á mis við dýrð hins stutta íslenzka sumars. Ég sit við opinn glugga og horfi út á götuna. Stúlkan kemur með kaffið og vínarbrauðið. Ég geri til- raun til að neyta þessara dýru krása, en í sama bili fer Ijúfur blær inn um gluggann og ber með sér angan af þurrkaðri töðu utan af túni, og ég gleymi vínarbrauðinu, gleymi stund og stað, því að þessi angan lýkur upp heimi minninganna, sem venju- lega blundar rótt í neðstu skúffu hugans. Ég hef yngzt um tuttugu ár og létzt um tuttugu kíló, ungur og sterkur sveitamaður að hamast við heyþurrkun á túni föður míns fyrir austan, og sólin logar og svíður sveitt andlit mitt, og ég finn kraft vöðvanna og styrk tauganna, og kaupakonan er á aldur við mig sjálf- an. Við erum að binda, hvort okk- ar skyldi verða fljótara að þræða í högldina? Skítt með það, meira máli skiptir, að vangar okkar snertast, þegar við beygjum okkur eftir högld- unum. Ekki veit ég, hvort er heitara og rjóðara, þessi sól, sem svíður hægri kinn mína, eða þessi vangi, sem brennur á þeirri vinstri, en ég tek það, sem hendi er nær, og taðan er sterk og angandi, jafnvel þótt hún sé engin blástör. Já, það er kaffið, skyldi það vera alveg ódrekkandi? Vínarbrauðið er eins og liðið lík, það sjá allir, en ég vil reyna við kaffið. En aftur fer blærinn um gluggann og slær fyrir úr annarri átt. Síldarlykt! Guð blessi þig, indæla síldarlykt neðan frá höfn, einnig þú ferð með mig mörg ár aftur í tímann og alla leið norður á Siglufjörð. Ég er þar í at- vinnuleit, peningaleit og ævintýra- leit, og allt er þetta auðfundið, það er hér á hverju götuhorni, á hverju plani og í hverjum danssal. Hér er liturinn litur, lyktin lykt og lífið líf, ekki siður en á túni föður míns. Síld- arskip og síldarkarlar, forugar göt- ur, skýluklútar og gular olíusvuntur, leifturhröð handtök, hve mörgu ægir hér ekki saman, hversu undursam- legir töfrar búa ekki í þessari himn- esku grútarlykt, sem blessuð bæjar- stjórnin sendir mér inn um gluggann á þessu litlausa og mannlausa og náttúrulausa kaffihúsi. Fröken, ég ætla að borga, gjörið þér svo vel. Ég ætla að fara út, þangað sem grasið grær og síldin angar, ég ætla að binda nokkra bagga af töðu eða vinna tímakom á plani norður á Siglufirði eða eitthvað svoleiðis. Nei, annars, ég fer ekki í sumar, það verður of seint. En næsta sumar, að mér heilum og lifandi, ég skal fara fyrstur og koma seinastur, hlaðinn af angan sumars og varma sólar, þó ég sé kominn á miðjan aldur og far- inn að fitna. Ég skal. Tuttugasti og sjöundi október. OG SVO ER allt í einu kominn vetur. Löngum hefur verið alsiða á íslandi og þótt góð lenzka að bölva vetrinum niður fyrir allar hellur og bregða honum sem tákni hins illa. Þó hefur veturinn átt týhrausta mál- svara. Bjarna Thorarensen hefur sjálfsagt runnið til rifja vetrarkvíði og kuldavol landa sinna, enda tok hann svari vetrarins svo að um mun- aði. Bjarni var vetrardýrkandi og játaði opinskátt trú sína á hinn harða og kalda en hreinskipta höfð- ingja, sem elur hrausta og geiglausa, harða og hreina menn. Þessi trU hans kemur víða fram, en hvergi tígulegar en í kvæði hans um Vet- urinn, einu skáldlegasta og stílgöfg' asta kvæði, sem vér eigum: Hann er riðinn frá heimum miðnáttar, aflbrunni alheims og ótta munaðar. Annað skáld norænt trúði á kuld- ann til menningar mannskepnunni og mundi hafa viljað kalla norðrið aflbrunn alheims eins og Bjami, ef hann hefði verið borinn til eins kynngimagnaðs máls og hann. Það var Johannes V. Jensen. í meistara- verki hans um jökulinn flýja frum- stæðir norðurverar suður á bóginn undan aðsteðjandi ísöld. Aðeins einn snýr við, bregður grönum við norð- anéljunum, kreppir hnefann um steinöxi sína og fetar einn og ein- beittur til norðurs aftur, tekur upp baráttuna við kuldann, og kuldinn gerir hann að manni: „Han blev det förste menneske“. Kuldinn gerði oss að mönnum, seg- ir Johannes V. Jensen. Veturinn gerði oss íslendinga að bókmennta- þjóð, segjum vér. Að eðlisfari erum vér ekki bókmenntalega sinnaðri en aðrir menn, en samt gerðum vér a miðöldum heimsins beztu bækur, og enn megum vér heita vel liðtækir. Framh. á bls. 23 2 LÍF og LIST

x

Líf og list

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Líf og list
https://timarit.is/publication/819

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.