Birtingur - 01.04.1956, Blaðsíða 9
INGIMAR ERLENDUR SIGURDS S O N :
Osýnilegt handtak
Gamla konan vekur undarlegan óhug í sál
drengsins. Hún býr í sama húsi og foreldrar
hans — þau uppi, hún niðri, einstæðingur,
mislynd eins og árin að baki henni, sviphörð
en hjartagóð. IJtlit hennar verður bæði til að
æsa og skjóta börnum skelk í bringu. Stórir
krakkar erta hana og stríða, unz hún hefur
stafinn á loft og sópar þeim burtu með hreyf-
ingunni einni saman. En drengurinn uppi á
lofti stríðir henni aldrei, hann er hræddur
við návist hennar, auk þess er hann hljóðlát-
ur krakki og lítið fyrir ærsl. Hann hefur ver-
ið hræddur við hana síðan foreldrar hans
fluttu í húsið fyrir þrem mánuðum. Eitt-
hvað ókomið, kannski líka liðið, eitthvað, sem
bíður hennar, (eða var það gamla konan sem
beið?) horfir á hann óræðum augum, andar
til hans og vekur undarlegan geig. Hvað var
það? Eitthvað hræðilegt, sem hafði komið
fyrir löngu og mundi koma aftur?
Hann veit það ekki, en það leitar á hann,
hann dreymir jafnvel um það, svífandi, ó-
jarðneska drauma.
Hann tekur til að spyrja mömmu sína um
gömlu konuna. Hvar hafði hún verið, hvað
hafði hún gert, hvernig og hvenær hafði
hún komið í húsið, hvernig varð hún svona
og til hvers var hún hér? En svör hennar
rúma ekki spurningar hans. Þetta heldur á-
fram að vera óttablandin ráðgáta. Lykt
gömlu konunnar fyllir vit hans. Hann fylgist
með hreyfingum hennar og hlustar. Hon-
um finnst eins og einhver óskiljanleg og ó-
höndlanleg snerting fari um sig, án þess að
þreifa á sér eða skilja eftir nokkur merkjan-
leg spor. Hann fann greinilega dag einn, er
hún tók beinaberum lúkum um hönd hans
og bað hann skila til mömmu sinnar að finna
hana niður, að það voru ekki hendur henn-
ar, heldur snerting ósýnilegra handa. Hann
varð skelfingu lostinn, hörfaði undan unz
hún sleppti, þaut upp stigann, dauðhræddur,
að ósýnilegar hendur færu um bak honum og
vefðu hann óttalegum örmum. Hjarta hans
barðist ótt og títt, og hann þorði ekki að
segja mömmu skilaboðin, eins og hann ótt-
aðist, að þau vörðuðu hann og kynnu að
baka honum ólán, rífa heim hans til grunna,
svo hann stæði eftir nakinn og einn. En hann
óttaðist einnig að svíkja gömlu konuna á
skilaboðunum. Hver vissi líka nema hann gæti
keypt sér grið frá þessu óskiljanlega voða-
valdi. Var ekki eins og vottaði fyrir vinsemd
í öðru auga gömlu konunnar?
Hann færði mömmu sinni skilaboðin og
beið þess í ofvæni að hún kæmi upp aftur.
Þegar hún kom hélt hún á smjörsköku í
hendinni. „Blessuð gamlan konan, hún vildi
endilega gefa mér þetta, henni var gefið svo
mikið smjör“, sagði hún við pabba hans.
„Hún ætlast til að þú gefir henni brauð í
staðinn", rumdi heimspekilega í föður hans.
7