Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Qupperneq 26
24
Asta Svavarsdóttir
á hana sem villu, t. d. í skólum og fjölmiðlum. Á síðari árum hefur
réttmæti baráttunnar gegn ,,þágufallssýkinni“ hins vegar verið dregið
nokkuð í efa og hún hefur m. a. verið harðlega gagnrýnd frá félagslegu
sjónarmiði. í umræðunum hefur hins vegar ekki verið hægt að styðjast
við neinar tölulegar upplýsingar um útbreiðslu og tíðni ,,þágufallssýki“
og oft stendur fullyrðing gegn fullyrðingu án þess að hægt sé að skera
úr um réttmæti þeirra með nokkrum haldbærum rökum.
Til skamms tíma hefur upprunasjónarmiðið vegið þungt þegar meta
skal hvað er ,,réttast“ og ,,best“ í máli og málverndarmenn verið treg-
ir til að viðurkenna málbreytingar sem komið hafa upp á síðari tímum.
Gjarnan er reynt að sporna við þeim og snúa þeim við og oft bent
á örlög flámælisins sem dæmi þess að slíkt sé mögulegt. „Þágufalls-
sýkin“ er líklega fremur ung í málinu, aðeins hafa fundist strjál dæmi
frá seinni hluta 19. aldar (Halldór Halldórsson 1981:218), og þykir
því rétt aö berjast gegn henni. Enda þótt ýjað hafi verið að því að
breytingin loði einkum við suðvesturhorn landsins (sjá t. d. Jakob Jóh.
Smári 1920:101-102) virðist sú skoðun þó ríkjandi að hún sé ekki stað-
bundin (sbr. Halldór Halldórsson 1971:26, 1981:218). Hún getur því
ekki talist mállýskueinkenni, a. m. k. ekki í landfræðilegum skilningi,
og hingað til hafa fáir gert ráð fyrir annars konar mállýskuskiptingu
hérlendis. Auk þess telja andstæðingar hennar að hún sé ekki verulega
almenn eða útbreidd og því mögulegt að sporna við henni. Kennarar
eyða talsverðum tíma í að kenna börnum ,,rétta“ fallnotkun með
ópersónulegum sögnum og í bókum til móðurmálskennslu er varað
við ,,þágufallssýki“ og fylgja gjarnan verkefni til að þjálfa ,,rétta“
fallnotkun. I þeirri kennslubók sem notuð er í neðri bekkjum allflestra
grunnskóla á landinu er þetta gert undir yfirskriftinni ,,Talar þú rétt
mál?“ (Ársæll Sigurðsson 1970:40,59,86).
Á síðustu árum hefur komið fram sú skoðun að hin opinbera barátta
gegn ,,þágufallssýkinni“ sé vonlítil og jafnvel beinlínis óæskileg frá
félagslegu sjónarmiði. Gísli Pálsson (1979) telur að samhengi sé á milli
,,þágufallssýki“ og þjóðfélagsstöðu og baráttan geti stuðlað að og
skerpt stéttbundinn mállýskumun auk þess að vekja málótta meðal
almennings, hræðslu við að tjá sig opinberlega af ótta við að hafa
ekki viðurkennda málnotkun á valdi sínu. Aðrir hafa tekið undir þá
skoðun að tengsl kunni að vera milli ,,þágufallssýki“ og félagslegrar
stöðu (t. d. Höskuldur Þráinsson 1981:9-11) og sú hugmynd hlýtur