Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Side 27
„Þágufallssýki'
25
að búa að baki þegar rithöfundar láta þær persónur sínar sem minna
mega sín vera ,,þágufallssjúkar“ öfugt viö þær sem hærra standa í
þjóðfélagsstiganum (Elías Mar 1950:111,127; Ásta Sigurðardóttir
1961:101,102).
B. Chr. Jacobsen (1980) telur að þolfall með ópersónulegum sögn-
um sé tillært, það eigi sér enga hliðstæðu í málinu í frumlagsstöðu
og sé því beinlínis í andstöðu við málkerfið. Hann bendir á að baráttan
gegn ,,þágufallssýkinni“ gæti leitt til þess að fólk hætti smám saman
að nota hinar vandmeðförnu þolfallssagnir og þær dæju þannig út í
málinu. í annan stað gæti hún valdið klofningi málsins í hversdagsmál
og opinbert mál: í daglegu tali notuðu menn þágufall með öllum óper-
sónulegum sögnum en við sérstök tækifæri gripu þeir til hins tillærða
þolfalls með þeim sögnum sem það ætti við. Sú hætta væri auk þess
fyrir hendi að sumir næðu ekki tökum á síðarnefndu fallnotkuninni,
t. d. þeir sem nytu lítillar skólagöngu og ættu erfitt með nám, og væri
þarna kominn vísir að stéttbundnum mállýskumun (sjá einnig Hö-
skuldur Þráinsson 1981:9-10).
Hér hefur verið drepið á helstu sjónarmið sem fram hafa komið
í sambandi við ,,þágufallssýki“ og verður höfð nokkur hliðsjón af þeim
þegar fjallað er um niðurstöður könnunarinnar hér á eftir.
2. Um könnun á fallnotkun í frumlagssæti ópersónulegra setninga
2.0
I þessum kafla verður greint frá könnun þeirri sem fyrr er getið.
Fyrst verður sagt frá markmiði, undirbúningi og framkvæmd hennar
en síðan fjallað um helstu niðurstöður. Aðaláherslan er lögð á heildar-
niðurstöður og reynt að finna svör við spurningum eins og þessum:
Hversu algeng er ,,þágufallssýkin“? Fylgir hún einhverjum ákveðnum
sögnum? Er munur á fallnotkun eftir því hvort ,,frumlagið“ er 1. eða
3. persónu fornafn? Hefur ,,þágufallssýkin“ einhverja ,,fylgikvilla“?
Einnig er gerður samanburður á niðurstöðum frá nokkrum stöðum
á landinu til að fá einhverja hugmynd um það hvort ,,þágufallssýki“
sé staðbundin. Loks er athugað hvort einhver tengsl virðist vera milli
,,þágufallssýki“ og annars vegar námsárangurs en hins vegar félags-
legrar stöðu. í lok kaflans eru helstu niðurstöður dregnar saman í
örstuttu máli.