Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Page 44
42
Asta Svavarsdóttir
meðalnotkun á öllu landinu. Auk þess er notkun þolfalls með þykja
í 1. persónu algengari þar en á hinum stöðunum. Bæði í Reykjavík
og á Akureyri er nokkuð hátt hlutfall nefnifalls með hlakka en sé
hún höfð ópersónuleg er miklu meiri tilhneiging til að hafa með henni
þágufall á Akureyri. Til þess að fá frekari hugmynd um það hvort
þarna sé um raunverulegan mun að ræða milli landshluta, hvort
„þágufallssýkin" sé útbreiddari á Norðurlandi, var brugðið á það ráð
að bera niðurstöður frá þessum tveimur stöðum saman við niðurstöður
frá þeim stöðum sem næst þeim liggja, Keflavík og Hafralæk í Aðal-
dal. Þótti nóg að athuga þrjár sagnir: langa, vanta og þykja.
Mynd 6 sýnir að hlutfall ,,rétts“ falls með þolfallssögnum er talsvert
hærra á Hafralæk en Akureyri og jafnvel hærra en í Reykjavík með
langa. Með þykja gætir hins vegar svipaðrar tilhneigingar til ofvöndun-
ar í 1. persónu og á Akureyri. í Keflavík er miklu meiri ruglingur
í fallnotkun með þessum þremur sögnum en í Reykjavík. Af lauslegum
samanburði virðist því ljóst að ruglings í fallnotkun með ópersónuleg-
um sögnum gætir alls staðar á landinu eða a. m. k. í öllum landshlut-
um. Sem fyrr segir kann tilviljun að ráða nokkru um niðurstöður á
hverjum stað vegna þess hvað þátttakendur voru fáir og því er vara-
samt að fullyrða nokkuð um tíðni og útbreiðslu ,,þágufallssýki“ í ein-
stökum landshlutum. Hins vegar er greinilegt að ,,þágufallssýkin“ er
ekki bundin Suðvesturlandi sérstaklega né heldur nokkrum öðrum
landshluta. Frekari upplýsingar um niðurstöður frá einstökum stöðum
er að finna í töflum í Viðauka II.
2.2.4
Loks var athugað lauslega hvort niðurstöður bentu til þess að tengsl
væru á milli ruglings í fallnotkun með ópersónulegum sögnum og ytri
þátta á borð við námsárangur og félagslega stöðu. Þetta var ekki kann-
að nógu gaumgæfilega til að niðurstöðurnar geti talist endanlegar en
þær gefa þó ákveðna vísbendingu um þetta atriði.
Athuguninni var þannig háttað að annars vegar voru teknir út allir
þeir sem höfðu 5 ,,villur“ eða færri í prófinu í heild sem þýðir að
þeir höfðu a. m. k. 80% þess ,,rétt“; aðeins var miðað við þær þrettán
sagnir sem könnunin beindist að og enginn greinarmunur var gerður
á því hvers eðlis ,,villurnar“ voru. I þessum hópi reyndust vera 59
börn eða 29.2% þátttakenda. Hins vegar voru teknir út þeir sem höfðu
13 ,,villur“ eða fleiri sem merkir að þeir höfðu helming verkefnisins