Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Side 163
Um méranir
161
fall var haft á undan í hverri setningatvennd. Engin dæmi voru gefin
um nefnifall með þessum sögnum, svo sem áður hefur komið fram,
en alkunnugt er, að þess háttar dæmi eru til og þau koma greinilega
fram í þeim litlu sögulegu athugunum, sem greint er frá í sögulega
partinum.
Ég óskaði þess við Guðna Guðmundsson, rektor Menntaskólans í
Reykjavík, að hann lánaði mér 5. bekk skóla síns í eina klukkustund
til framan greindrar könnunar. Varð hann góðfúslega við þeirri beiðni,
þótt liðið væri að prófum og því erfitt um vik að eyða tíma í annað
en prófundirbúning. Könnunin fór fram 27. marz 1981, samtímis hjá
öllum bekksögnum 5. bekkjar. Viðstaddir nemendur voru 151, og
tóku þeir allir þátt í könnuninni. Flestir nemendanna eru fæddir 1962.
Umsjón með könnuninni hafði Jón S. Guðmundsson cand. mag., yfir-
kennari, þar sem ég gat ekki verið viðstaddur. Vitaskuld gætti sá
kennari hvers bekkjar, sem kenna hefði átt í kennslustundinni, þegar
könnunin fór fram.
Sumir líta ef til vill svo á, að hópurinn, sem þátt tók í könnuninni,
hafi verið fulleinlitur, t. d. notið sömu kennslu. Ég tek ekki þessa
gagnrýni til greina. Nemendur í 5. bekk menntaskóla eru af ýmsu
sauðahúsi, og þeir, sem þeir hafa átt tal við, úr öllum áttum. Rétt
er að hafa í huga, að ekki var spurt um málfar þátttakenda sjálfra,
heldur þess fólks, sem þeir umgangast. Vafalaust er það mjög margt
og úr öllum aldurshópum, en til gamans má geta þess, að stærð úrtaks-
ins (151 þátttakandi) er sem næst 3.4% árgangsins (þ. e. þeirra sem
fæddir eru 1962 og voru heimilisfastir á íslandi um áramót 1980/81).3
1.2 Nokkrar athugasemdir um könnunina
Félagslegar kannanir eru eðli sínu samkvæmt ótryggar. Ástæðan er
sú, að maðurinn er erfitt rannsóknarefni. Einstaklingar bregðast mis-
jafnlega við — þeir eiga meira að segja til að ljúga — þeir eru í ólíku
skapi á ólíkum tíma og misjafniega fyrirkallaðir.
Helztu atriði, sem ég tel nauðsynlegt að taka fram um fyrr greind
efni, að því er varðar þessa könnun, eru eftirfarandi:
1. Vanir kennarar vita, að nemendur á menntaskólaaldri hafa oft
á tíðum gaman af ,,að gera sprell“, sem kallað er. Af þessum
sökum gat ég búizt við, að vel kynnu sumir að svara út í hött.
3 Upplýsingar frá Hagstofu íslands (Guöni Baldursson).
Islcnskt mál IV 11