Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Page 167
Um méranir
165
Rétt er að vekja athygli á því, að sumar orðskipanirnar í dæmunum
virðast unglingunum ekki tamar. Þannig merktu býsna margir við
sjaldan fyrir mig/mér hungrar eftir réttlæti og mig/mér iðrar þess, svo
að kannski má segja, að hinir prófuðu unglingar séu ekki sterkir á
svellinu í trúarlegu máli. Sennilega er kal á fótum nú orðið til þess
að gera fátítt fyrirbæri, því að býsna margir höfðu hvorki heyrt mig
né mér kelur á fótunum. Þá virtust nokkuð margir aldrei hafa heyrt
mig sundlaði og mig uggir, og sögnin ugga yfirleitt virtist líka heldur
lítt kunnugt dæmi. Athygli vekur líka hve margir sögðust sjaldan hafa
heyrt mig/mér undrar og mig/mér þrýtur kjark.
Eins og áður er getið, voru þeir dregnir frá, sem þekktu hvorugt
afbrigðið (þ. e. hvorki þolfails- né þágufallsdæmið), ef þeir voru 5%
eða fleiri, og prósentur reiknaðar sérstaklega að þeim frádregnum.
Sá reikningur er birtur í Töflu Ib, og þar sést, að yfirleitt hefur þessi
frádráttur fremur lítil áhrif á prósentutölurnar.
Tafla Ib: Viðbótaryfirlit yfir svör um sagnir sem oftast eru taldar
taka með sér þolfall fremur en þágufall — hér eru ekki
taldir með þeir sem hvorki höfðu heyrt sögnina með þol-
falli né þágufalli.
sögn: þolfallsdæmi (mig) oft sjaldan aldrei þágufallsdæmi (mér) oft sjaldan aldrei
hungra 74.3 23.6 2.1 5.7 29.3 65.0
iðra 81.6 18.4 0.0 4.4 27.2 68.4
kala 64.9 32.0 3.1 11.7 22.7 65.6
minna 85.3 13.3 1.4 32.2 46.1 21.7
sundla 58.0 29.4 12.6 40.5 32.2 27.3
ugga 56.0 41.0 3.0 5.2 26.9 67.9
meðaltal: 70.0 26.3 3.7 16.6 30.7 52.7
Þá er komið að þeim dæmum, sem upphaflega var skotið inn til
þess að kanna, hvort einhverjir væru að ,,gera sprell“. Þetta eru dæmi
með sögnunum finnast, sárna og þykja, sem ég bjóst við, að enginn
hefði heyrt nema með þágufalli. Þetta fór þó á annan veg, eins og
fram kemur í Töflu II. Þar sést að vísu að langflestir höfðu aðeins
heyrt mér finnst og aðeins 6% sögðust sjaldan hafa heyrt mig finnst
og enginn oft. Nokkuð öðru máli virðist gegna um sárna og þykja,
eins og sjá má í töflunni. 24.5% þátttakenda segjast oft hafa heyrt