Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Page 225
Um vísiorð í íslensku og viðskeytið -na
223
til stöðu hennar sem þáttar í stærri málheild. Andspæni þessara
hlutverka kemur skýrast fram í setningum (5)-(9). í setningum (5)a
og (7)a getur aðeins verið um að ræða síðarnefnda hlutverkið, vísunin
er háð frekara málsamhengi. Það samhengi vatnar hins vegar í dæmun-
um að framan, og því eru setningar (5)a og (7)a ótækar einar sér.
Eðlilegast er að skilja setningar (6)a, (8)a og (9)a á sama veg. I setn-
ingum (5)b-(9)b er svo fyrrnefnda hlutverkið á ferðinni, vísunin er
í beinu sambandi við hinar ytri aðstæður tjáningarinnar, vettvang
hennar og tíma. Hugsanlegt er og að skilja setningar (6)a, (8)a og
(9)a þannig, en hið stíllega frávik er þá verulegt frá setningum (6)b,
(8)b og (9)b.
2. Bendivísun — endurvísun
2.0
Sá munur sem hér var lýst er bundinn þeim hugtökum sem á er-
lendum málum eru nefnd anafóra og deixis. Með anafóru er almennt
átt við að tiltekin orð eða orðliðir hafa það hlutverk að láta í ljós
samvísun við mállið sem fyrir kemur í nánasta málsamhengi, þannig
að vísun þeirra verður ekki ráðin óháð þeim mállið sem þau standa
fyrir (sjá Lyons 1977: 659-660). Einkum eru það ákveðin fornöfn og
atviksorð auk ákveðins greinis sem þessu hlutverki gegna. Hér verður
notast við íslenska heitið endurvísun um anafóru með fyrrgreind
einkenni hennar í huga. Reyndar er það umdeilt mál hvort takmarka
eigi hugtakið anafóra við þau tilvik þar sem vísiorðið (eða vísiliðurinn)
er samvísandi við tiltekinn mállið í hinu setningarlega umhverfi eða
hvort einnig eigi að Iáta það ná til þeirra tilvika þegar sömu vísiorð
eru óháð hinu setningarlega umhverfi og hafa sjálfstæða vísun. Innan
ummyndanamálfræðinnar hefur t.d. komið fram, að því er varðar for-
nöfn a.m.k., að greina beri á milli „surface anaphora“, sem tekur
til hins fyrra, og „deep anaphora", sem tekur til hins síðara, og þá
gert ráð fyrir að fornöfn séu sumpart afleidd af nafnliðum við um-
myndanir, en sumpart séu þau til staðar í djúpgerð (sjá Hankamer
og Sag 1976).
Með deixis er átt við þá vísun sem látin er í ljós út frá því sviði
í tíma og rúmi sem hver tjáning hefur þegar hún er sögð. Hér verður
haft íslenska heitið bendivísun um deixis í samræmi við upprunalega
merkingu erlenda orðsins og með tilliti til þess að um er að ræða víkun