Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Page 228
226
Jón Hilmar Jónsson
Tanz 1980:70). En hin tvíliða aðgreining í íslensku er ekki fastur
merkingarþáttur staðarvísiorða. Vísiorðin hérna (hér), þarna og þessi
geta öll vísað til mismunandi nálægðar við tjástað, það er aðeins við
andspæni hérna (hér) og þarna að aðgreiningin kemur til sögunnar.
Tímavísun er látin í ljós á miklu margþættari hátt en staðarvísun, bæði
að því er varðar þá aðgreiningu á fjarlægð miðað við tíma tjáskiptanna
(tjástund) sem hægt er að láta í ljós og þá málkerfislegu möguleika
sem fyrir hendi eru til að tjá vísunina. Staðarvísun er fyrst og fremst
tjáð með vísiorðum sem eiga heima í atvikslið setningarinnar (hér,
hérna, þarna) eða eru ákvæði innan nafnliðar (þessi). Innan sömu
setningarliða er einnig hægt að Iáta í Ijós tímavísun (núna; fyrrnefndur,
þessi). En tímavísun, afstaðan til tjástundarinnar, er þó fyrst og fremst
tjáð í sagnlið setningarinnar, í hinum eiginlegu tíðum sagna og öðrum
sagnlegum tíðarsamböndum. Á þann hátt eru möguleikar á að af-
marka fjarlægð frá stöðu mælandans á annan og nákvæmari hátt mál-
kerfislega en hægt er með vísiorðum staðarvísunar. Séu vísiorð í
atvikslið borin saman við samsvarandi vísiorð fyrir staðarvísun kemur
fremur í Ijós þríliða en tvíliða andstæða. Vísiorðin nú og núna vísa
til tjástundar, hvort sem vísunin rúmar tjástundina eða látin er í ljós
önnur nálægðarafstaða til hennar. En auk þess má líta á vísiorð á
borð við á eftir og áöan, þar sem vísað er til nánustu nálægðar við
tjástund í framtíð og fortíð, sem grunnvísiorð fyrir tímavísun. Athyglis-
vert er að núna getur verið óaðgreint með tilliti til þessarar þríliða
aðgreiningar, getur vísað til næstu nálægðar við tjástund bæði í fortíð
og framtíð:
(11) Hvenær sástu ljósið í glugganum? — Ég sá það núna.
(12) Ætlarðu ekki að fara með bréfið í póst fyrir mig? —Jú, ég
skal gera það núna.
2.1.2. Málsamhengisleg bendivísun
Þau vísiorð sem láta í Ijós bendivísun sem bundin er við stað eða
vettvang tjáningarinnar geta einnig látið í ljós vísun þar sem nálægðar-
afstaðan er yfirfærð til þess mállega samhengis sem um er að ræða:
(13) Hús foreldra minna stóð fremst á sjávarbakkanum, allfjarri
öðrum húsum, og það var drjúgur spölur að ganga til Kristínar
frænku minnar sem bjó í litlu hvítmáluðu timburhúsi efst í