Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1982, Blaðsíða 277
Orð af orði
kál og kála
Um so. kála ‘ata út, óhreinka’ og no. kál hk. ‘óhreinindi, óhreinkun’
eru allmörg dæmi í íslensku, þau elstu frá 17. öld. í Orðabók G. A.
er kál þýtt sem ‘háskalegt fall í vatn’ (periclitatio in aquis) og so.
kála með að ‘steypa sér í háska’ (impingere in periculum). Kemur
manni í hug að orðabókarhöfundurinn hafi í þessari útleggingu sinni
haft hliðsjón af vísu séra Stefáns Ólafssonar um hestinn Einmana:
„Einmani fékk illt kál, þá ofan féll í Kílsál . . .“, en það getur þó
naumast staðist, m. a. aldurs vegna. Á öðrum stað í Orðabók G. A.
erso. kála tilfærð: ,,kvola, kala maculare . . . “, þ. e. ‘óhreinka'. Mörg
dæmi önnur eru um so. kála ‘óhreinka . . .’ og kál hk. ‘óhreinindi’,
t. d. í Píslarsögu síra Jóns Magnússonar, Nucleus . . . Jóns biskups
Arnasonar, Orðabók B. H. og ýmsum síðari heimildum. En hver er
þá uppruni hk.-orðsins kál ‘óhreinindi, . . .’ og so. kála ‘ata út, . . .’?
Orðin virðast ekki eiga sér samsvörun í öðrum norrænum málum
(sæ. máll. kálá, kolo ‘sótugur, kámaður’ er vísast leitt af kol) og merk-
ingarleg tengsl við kál hk. ‘grænmeti, . . .’ koma naumast til greina.
Isl. orðið kál ‘óhreinindi, óhreinkun’ sýnist hinsvegar eiga sér
samsvörun í þýsku, sbr. mhþ. kadel ‘sót, óhreinindi’, sbr. einnig mlþ.
kade ‘viðbrunnin steikarmylsna á pönnu, hamsar’. ísl. kál er þá <
germ. *kaþla- (sbr. mál ‘tal’ < *maþla- og stál ‘stabbi, . . .’ < *staþla)
og so. kála nafnleidd. Af þessum sama toga eru líkl. ísl. kað hk.
‘fjöldi af e-u smáu’, barnakað ‘óhreinindi; nýfæddur (barn-)ungi’ og
so. kaða ‘mylja, merja; hrúga niður’; eldri merking orðstofnisins virð-
•st vera ‘óhreininda-mylsna, kám, smælki’. Þá er í orðabókum forn-
málsins tilfærð (einangruð) orðmynd káð hk. ‘ólifnaður, svall’ (lengd
stofnsérhljóðs ekki örugg); ef hún er rétt hermd og heyrir hér til gæti
hún verið í hljóðskipti við kað. En það er sem sé óvíst; einnig er
ovíst hvort fno. viðurnefni eins og kaðall og mno. auknefnið káðungur
eru af þessum toga, og sama á við um ísl. kóð ‘smáfiskur,
smælki, . . .’, sem oftast er skýrt á annan veg.