Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2004, Page 134
132
Þórunn Blöndal
Hér er ekki ætlunin að bera endurgjöf í frásögnum saman við endur-
gjöf í öðrum samtalshlutum þótt slíkur samanburður sé áhugavert
rannsóknarefni í sjálfu sér. í því sem hér fer á eftir er sjónum einvörð-
ungu beint að endurgjöf í frásögnum en samanburður látinn bíða enn
um sinn.
3.2 Gögnin
Samtöl verða tæpast athuguð að gagni nema þau hafi verið tekin upp
og skráð nákvæmlega. Það er því nauðsynlegt fyrir þá sem rannsaka
samtöl (og talað mál almennt) að hafa aðgang að gögnum úr talmáli.
Gögnin sem hér eru notuð eru úr ÍSTAL, íslenska talmálsbankanum,
en honum var komið á laggirnar á árunum 2000 til 2002.14 ISTAL
inniheldur einungis sjálfsprottin samtöl (e. authentic), þ.e. samtöl
sem eru þeim einum ætluð sem taka þátt í þeim og þar sem eina mark-
miðið eru samskiptin sjálf. Samtölin í ÍSTAL eru 31 talsins, öll tekin
upp á heimilum eða á vinnustöðum þátttakenda við eins eðlilegar
kringumstæður og kostur er. Þeir sem ræðast við í samtölunum í IS-
TAL eru vinir, kunningjar og samstarfsfólk og samtölin eiga sér stað
á meðan fólk situr að snæðingi eða spjallar yfir kaffibolla eða rauð-
vínsglasi. Þátttakendur eru fullorðið fólk, flestir milli 30 og 60 ára,
karlar og konur í einkynja og blönduðum samtölum og allir eiga þeir
íslensku að móðurmáli. Alls eru í ÍSTAL um 20 klukkustundir af
uppteknu og skráðu efni en stöðugt er unnið að því að bæta í bank-
ann.15
14 Greinarhöfundur var verkefnisstjóri þau tvö ár sem skipulega var unnið að
söfnun og skráningu gagna. Með henni í stýrihópnum voru eftirtaldir einstaklingar:
Ásta Svavarsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Hrafnhildur Ragnarsdóttir, Kristín Bjarna-
dóttir, Sigurður Konráðsson og Þóra Björk Hjartardóttir. Verkefnið var styrkt myndar-
lega af RANNÍS og Rannsóknarsjóði Kennaraháskóla íslands. Nemendur úr fram-
haldsdeild KHÍ sáu um upptökur viða um land en skráningu gagna höfðu með hönd-
um þær Kolbrún Eggertsdóttir og Halldóra Björt Ewen.
15 Þess má geta að þótt formlegri vinnu við ÍSTAL sé lokið stendur söfnun í
gagnabankann enn yfir. Nemendur á íslenskukjörsviði í KHÍ hafa tekið upp samtöl í
grunnskólum og nokkur þeirra verða hluti bankans þegar þau hafa verið fullskráð og
hið sama gildir um samtöl sem tekin eru upp í rannsóknarverkefninu SAMNÁM (sjá
Þórunni Blöndal 2004b).