Vera - 01.11.1982, Síða 28

Vera - 01.11.1982, Síða 28
En krakkinn þarf aö fá að anda að sér hreinu lofti, eins og krakkarnir í alvöruvögnunum, og konan verður að fara út til að kaupa, — ein, því ef hún væri trúlofuð, eða kannski gift, mundi kærastinn hennar ekki vilja standa hjá vagninum, þó að hún þyrfti að skreppa inn í búð til að spyrja hvað eitthvað kostaði.- Og vinkonur hennar mundu ekki vilja hjálpa henni að keyra og heldur ekki ganga með nema stutt af því vagninn er svona. Eins og það er þó nauðsynlegt, að hafa einhvern að passa svona vagn, þegar maður þarf að skáka sér eitthvað frá, svo hann leggi ekki af stað eöa krakkinn detti ekki út. Allt getur svosem komið fyrir. — Oftast er engin bremsa á þessum vögnum, og ef þeir eru á hlaupahjólum eða hjólaskautum, eru þeir í meira lagi óþjálir viðureignar. Eg held maður muni, þegar maður var á hjólaskautum sjálfur, það er ekki svo ýkjalangt síðan. Ef maður á annað borð er kominn af stað, er næstum ógerningur að stanza eða ráða nokkuð hvar maður lendir, — þeir geta anað með mann út á götu, einmitt þegar bíll kemur á fleygiferð, — og maður getur ekki snúið viö og ekki stanzað nema kannski fyrir tilviljun, — stundum dettur maður rétt fyrir framan bílinn. Og bíllinn snarbremsar og heflar malbikið, maður fær óbótaskammir og kannski flengingu hjá bílstjóranum. — Samt gat maður ekki hætt, heldur gerði þetta aftur og aftur, — af því það var svo gaman, svo spennandi að geta ekki stöðvað sig, þegar mest reið á.----- En hjólaskautarnir breyta ekki um innræti, þó að einhver klambri ofan á þá körfugarmi og kalli það barnavagn. Þarna eiga þeir til að draga konurnar á eftir sér niður allt Banka- stræti, svo þær geta enga rönd við reist, heldur hlaupa á eftir, útblásnar af gremju og sprengmóðar, þangað til hjólaskautarnir stanza loksins við einhverja mishæð. Þá skorða þær vagnana við tröppur og þora ekki að skilja við þá fyrr en þær eru búnar að láta steina við hjólin, eins þó að vagninn standi á jafnsléttu. Þær strjúka svitann af enninu með handarbakinu og reyna að muna, hvort þær eiga nóg fyrir kjötbita í kvöldmatinn. Maður bíður á meðan og miðar á vagninn eins og köttur á mús, þangaö til konan er komin inn í búðina.----- Maður hefur svosem aldrei átt vagn sjálfur, en það er ekki hægt annað en taka eftir þessu, þegar maður hringsólar kringum alla þessa vagna og stelst til að kíkja í þá meðan mæðurnar cru fjarver- andi. Þess vegna passar maður að koma ekki við Ijótu vagnana, — þeir gætu ætt á stað og runnið eitthvað í vitleysu. Það er ekki alltaf, að maður finni stein til að setja við hjólin. Stundum grenja krakkarnir bæði í Silver-Cross-vögnunum og öðrum vögnum, og þá hefur maður góða og gilda ástæðu til að gægjast undir skyggnið og segja fallegt við krakkann, — jafnvel þó að pabbarnir séu viðstaddir, — því karlmenn eru svo dæmalaust klaufskir aö hugga krakka, þó að þeir séu allir af vilja gerðir. Og enginn getur tekið það illa upp fyrir manni að vilja hugga krakka, sem grenjar, hvort sem maður er stelpugopi eða virðuleg frú. Ef það er krakki í Silver-Cross-vagni eða einhverjum alvöru- vagni, þá hristir maöur hringluna í bandinu oggerir sigsætan framan í krakkann. En ef það er krakki í hinsegin vagni, þá smellir maður í góm og gerir sprell með fingrunum, því þar er engin hringla. Ef enginn er nálægt, seilist maður í pelann og lætur túttuna upp í litla munninn, en það þorir maður ekki, ef foreldrarnir eru nálægt, því það er frekt að láta túttu upp í krakka annars fólks. Þegar mömmurnar standa mann að verki, er ekki um annaö að gera en víkja sem skjótast og horfa lotningarfullum aðdáunaraugum á krakkann. — Konurnar með ljótu vagnana verða ennþá blárri í íraman og sumar verða á svipinn eins og eitthvert misendi hafi komizt upp um þær. Svo rykkja þær í vagnana, svo glamrar við og hriktir í öllu hrófatildrinu. Vagnólánið dregur þær með sér og þær reyna að spyrna hælunum í kantsteinana, eins umkomulausar og doríur aftan í dráttarbát. Fínu frúrnar gjóa til manns hornauga með góðlegri fyrirlitningu og skoða krakkann vandlega, cins og til aö ganga úr skugga um, að maður hafi ekki eyðilagt hann. Svo svífa þær af stað, eins og lysti- snekkjur í óskabyr, og senda manni blendið Maríubros. Og maður reynir að berja því inn í hausinn á sér, að maður eigi engan krakka lengur, — enda var þetta ekki svarthærður strákur, heldur Ijóshærð telpuhnyðra, með alltöðruvísi hár og alltöðruvísi augu og munn--------og manni kemur það víst ekkert við. Þetta var krakki annarrar konu. Þó verður manni illt við, — maður spennir greipar fyrir aftan bak til að stilla sig um aö grípa þennan krakka og sleppa honum aldrei aftur — víst kemur manni það við, — ojú! Hefur maður kannski aldrei eignazt krakka? Jú. Maðurhefurfættsinn krakka, — maðurhefurengzt ogöskrað af kvölum, eins og villidýr í skógareldi, — og verið næstum dáinn, bara heyrt lækninn segja langt í burtu: — Það er drengur, fröken! Og maður hefur fundið óljóst, eins og í draumi, að lítill, heitur böggull var lagður í handarkrikann á manni. Var það kannski bara draumur að velta til höfðinu og sjá þessi perlubláu augu og svarta, hrokkna hárið þarna við hliðina á sér? Var það bara draumur, þegar manni fannst brjóstin vera að springa og maður hlakkaði svo til að Iáta hann sjúga? Kannski var það bara, því um morguninn var hann farinn, og mjólkin seytlaði út í fötin og storknaði þar eins og blóð. — En það var ekki draumur, þegar maður grét og leitaði alls staðar og bað guð að láta þessa ókunnu konu skila honum aftur, koma með hann til móður sinnar, sem elskaði hann svo mikið, — því maður var þó móðir hans, — kannski bara lauslát stelpa, sem hafði verið með kana og ekki getað stoppað, frekar en í gamla daga — en móðir samt, — móðir þessa drengs.------ Það er heldur enginn draumur, þegar maður óskar og biður að guð láti hann vera í einhverjum af öllum þessum vögnum, — láti mann finna hann — láti litla drenginn þekkja mömmu sína og brosa til hennar. Nei, þaö er ekki bara forvitni og erindisleysa, þegar maður er að leita og kíkja þetta inn í alla barnavagna, því manni kemur þetta við, — kemur það svo sannarlega við, hvað sem hver segir. Kannski á maður ekki lengur strákinn sinn, en enginn getur komið í veg l'yrir að móðir hans elski hann og leiti að honum í öllum vögnum. Vonandi er hann í alvöruvagni, en það er ekki vísara en víst, maður verður að gá allsstaðar, — í einhverjum vagninum er þessi yndislegi hnokki, með perlubláu augun sín, spékoppinn í vinstri kinninni og tinnusvarta hrokkna kollinn, — en í hvaða vagni?

x

Vera

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.