Vera - 01.02.1991, Page 28

Vera - 01.02.1991, Page 28
“ í LÍFI V Klukkan er að verða tíu og börnin að tínast í salinn til að sjá Prin- sessuna í Skýjaborgum. Hallveig býður þau velkomin. En hún finnur ekki aðalpersónu leikrits- ins, Leónóru prinsessu, í vösum bláu sögusvuntunnar sem hún ber. Þar finnur hún bara lítinn fugl. Hún fer því inn í leikhúsið að leita prinsessunnar og biður einn áhorfenda að hringja fyrir sig bjöllunni svo að hún komist inn. Nú er Hallveig komin á sinn stað og byrjar að stjórna brúð- unum og samstarfið við áhorf- endur er hafið. Börnin hafa áhrif á gang mála og þeim finnst þau ákaflega mikilvæg. Þau hringja bjöllum, syngja og nota ýmis blæbrigði raddarinnar. - Kunnið þið að hnerra eins og kónguló, spyr Hallveig og börnin breytast samstundis í kóngulær sem hnerra. A sviðinu birtast persónur sem ekki vita hvað gerst hefur í leikritinu og þá þurfa áhorfendur að rifja upp atburða- rásina í stuttu máli, þannig að engin hætta er á að þau gleymi söguþræðinum. Og þau verða að leggja á minnið mörg atriði sem hafa áhrif á gang mála. Sýningin er krefjandi en athyglisgáfan svíkur ekki þessa ungu áhorf- endur. Litli fuglinn reynist vera Leónóra prinsessa í álögum og það eina sem getur bjargað henni er að einhver elski hana nógu mikið, „því sá sem enginn elskar er alltaf í álögum". Leikurinn snýst síðan um það að börnin hjálpa brúðunum að aflétta álög- um prinsessunnar. Margir koma við sögu, m.a. konungurinn sem skipar landsmönnum að senda dóttur sinni gjafir til að sýna hve heitt þeir elski hana, hjartalaus galdranorn sem hneppti hana í álög og álfur sem skilur hvernig í öllu liggur og greiðir úr sögu- flækjunni með hjálp áhorfenda. Leiksýningin er skipulagður spuni. Hallveig reynir að notfæra sér athugasemdir áhorfenda án þess að raska formi sýningar- innar. Það er mikið þrekvirki að halda athygli svona lítilla leikhúsgesta í rúman klukkutíma. I hléinu er farið í lítinn leik sem kemur efni sýningarinnar við. Börnin leita að lykli að búrinu þar sem litli fugl- inn er læstur inni. Hallveig leyfir einu og einu að leita í vösum sín- um og þau finna ýmislegt annað en lykilinn. Jóna Hildur finnur t.d. lítið skrín í einum vasanum. - Ætli sé demantshringur í því, spyr Hallveig. En í skríninu reynast vera tvær rúsínur. - Er það ekki betra en dem- antshringur, spyr Hallveig og Jóna Hildur segir um leið og hún stingur þeim upp í sig: - Jú, af því það er hægt að borða rúsínur! En það er Jónas sem finnur lykilinn. Hann virðist vaxa um helming þar sem hann stendur með lykilinn í höndunum og glóð í augunum. Fóstrurnar segja að hann muni lifa á þessu næstu mánuði. Þegar sýningin byrjar aftur eftir hlé minnir Jónas gjarn- an á, að það hafi verið hann sem fann lykilinn. Hin börnin fá líka að vinna frægðarverk áður en leikritinu lýkur. Hjarta galdranornarinnar finnst, en einhver verður að taka það að sér að koma því á réttan stað. - Elskar einhver prinsessuna nógu mikið til að fórna lífi sínu, spyr Hallveig og börnin svara einróma Jáááá! Kristjana fóstra velur þrjú börn í þessa háskaför, en öll hin verða að hjálpa til í huganum. Ætlunarverkið tekst, hjartað kemst á sinn stað og börn- in hafa unnið mikið afrek. Þau hafa leyst prinsessuna úr álögum með því að elska hana nógu mikið. Og þá er náttúrulega kátt í höllinni. Það stendur heima að þegar hátíðahöldin byrja í Skýja- borgum er komið að hádegisverði barnanna og Hallveig lokar að sér meðan hún rífur niður leikhúsið. Hún vill ekki eyðileggja ævin- týrið í hugum barnanna með því að leyfa þeim að sjá líflausar 28

x

Vera

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vera
https://timarit.is/publication/858

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.