Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1968, Page 113
Reiknivél Pascals.
Fyrstu reiknivélarnar voru smíðaðar skömmu eftir, að
reiknistokkurinn var fundinn upp. Sú fyrsta, sem vitað er
um, var smíðuð árið 1642. Franski heimspekingurinn og
stærðfræðingurinn Blaise Pascal smíðaði það ár samlagn-
ingarvél, og var hann þá aðeins 19 ára. Vélina smíðaði hann
fyrir föður sinn, sem var skattheimtumaður. Samlagningar-
vél Pascals er i lögun eins og ílangur kassi. Ofan á kassanum
eru hjól, sem svara til eininga, tuga, hundraða o.s.frv. Fyrir
ofan hvert hjól er gat, þar sem lesa má tölu, sem stendur á
hjóli, sem er inni í kassanum. Þegar tala er lögð við aðra,
sem þegar er komin inn í vélina og lesa má í gegnum götin
fyrir ofan ytri hjólin, þá er ytri hjólunum snúið þannig, að
við bætast viðeigandi margar einingar, tugir, o.s.frv. Við
frádrátt er snúið í gagnstæða átt. Vandinn við vélar sem
þessar er að flytja eða geyma, þ.e.a.s. að bæta einum við
tugatöluna, þegar einingafjöldinn er kominn upp í tíu eða
yfir o.s.frv. Pascal tókst að leysa þennan vanda, en erfitt
reyndist að framleiða þessa vél á þeim tíma. Vél Pascals var
fyrst og fremst samlagningarvél. Margföldun var framkvæmd
með endurtekinni samlagningu og deiling með endurteknum
frádrætti. Ef margfalda átti tölu með fimm, varð að setja
hana fimm sinnum í vélina.
(111)