Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1968, Page 137
Aðgerðir við heyrnardeyfu
eftir
Erling Þorsteinsson lækni
Algengasta orsök heyrnardeyfu er sljóvgun skyntækja í
innra eyra og heyrnartaugum. Allir þeir, sem komast á efri
ár, tapa nokkru af heyrn, einkum á efstu tónunum. Jafnvel
um þrítugsaldur fer þessi heyrnardeyfa að verða mælanleg
hjá flestum, þó að menn verði hennar sjaldnast varir. Slík
heyrnardeyfa, sem oft er nefnd taugaheyrnardeyfa, hefur
reynzt ólæknandi enn sem komið er. Aftur á móti er möguleiki
á að bæta heyrn, þegar um er að ræða sjúkdóma eða galla í
þeim hlutum eyrans (hljóðhimnu, hamri, steðja eða ístaði)
sem leiða hljóðbylgjurnar frá ytra eyranu til skyntækjanna.
Oftast eru þetta afleiðingar langvarandi eyrnabólgu, sem
valdið hefur skemmdum á hljóðhimnu eða heyrnarbeinum.
Á síðari árum hefur í vaxandi mæli tekizt að ráða bót á
heymardeyfu af þessu tagi með margháttuðum aðgerðum,
sem of langt mál yrði að lýsa hér. Til gamans vil ég þó geta
um eitt dæmi um slíka aðgerð. Sjúklingurinn var stúlka á
fermingaraldri, sem heyrði mjög illa, sökum þess að hljóð-
himnur hennar höfðu grafizt burt að mestu á báðum eyrum
við langvinnar eyrnabólgur. Eftir að ég hafði gert við hljóð-
himnurnar með því að græða í þær bætur teknar úr útlimsæð,
batnaði heyrnin svo mjög á fáum dögum, að hún varð eðlileg
að kalla. Nú hefði mátt búast við, að stúlkan yrði himinlifandi
glöð, en því fór fjarri. Henni fannst hávaðinn í fyrstu svo
ærandi, að hún sívafði klútum um höfuðið til þess að deyfa
(135)