Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1968, Síða 148
af Frakklandi, sem þá var í undirbúningi. í því starfi ferðaðist
hann um landið þvert og endilangt og öðlaðist þá margvíslega
þekkingu, sem síðar kom honum að góðum notum. Áhugamál
Lavoisiers voru mörg, og alls staðar sögðu hæfileikar hans til
sín. Ekki leið á löngu þar til ritgerðir tóku að birtast eftir hann
um ýmis torskýrð fyribæri svo sem þrumuveður og norðurljós.
Jafnframt fór hann að fást við efnafræði og kannaði meðal
annars efnasamsetningu á gipsi. Niðurstöður þeirra tilrauna
voru fyrsta merka framlag Lavoisiers til efnafræðinnar.
Hagnýt vandamál vöktu líka áhuga Lavoisiers. Hann tók
þátt í samkeppni um tillögur til að bæta götulýsingu Parísar-
borgar og hlaut heiðurspening úr gulli fyrir greinargerð sína
um það efni. Árið 1768, aðeins 25 ára að aldri, var hann
kjörinn meðlimur hins konunglega franska vísindafélags í
viðurkenningarskyni fyrir unnin störf. Slíkt var fágætur
heiður fyrir jafn ungan mann.
Lavoisier var nú fastráðinn í að halda áfram vísindastörfum
sínum, sérstaklega í efnafræðinni, sem hugur hans beindist æ
meir að. Til þess að tryggja íjárhag sinn til frambúðar lagði
hann hálfa milljón franka í fyrirtæki, sem bar nafnið Ferme
Générale, en það var einkafyrirtæki, sem annaðist skattheimtu
fyrir Frakklandskonung. Skattheimtan greiddi ákveðna upp-
hæð til konungs, en fékk að halda því, sem henni tókst að
innheimta umfram hina tilskildu upphæð. Að sjálfsögðu gekk
fyrirtækið hart eftir skattinum og var því mjög óvinsælt af
almenningi. Þótt Lavoisier stæði ekki sjálfur í skattheimtunni,
var hann ötull ráðgjafi um stjóm fyrirtækisins. Þeir peningar,
sem honum áskotnaðist, um 100 þúsund frankar á ári, runnu
að mestu leyti til efnarannsókna og gerðu honum kleift að
koma upp hinni glæsilegustu rannsóknarstofu.
Árið 1771, þá 28 ára að aldri, gekk Lavoisier að eiga Marie
Anne Paulze, dóttur fyrirmanns í skattheimtunni. Stúlkan
var þá aðeins 14 ára og ráðahagurinn gerður að undirlagi
föður hennar til þess eins að losna við ásókn áhrifamanna,
(146)