Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1968, Qupperneq 152
virðist þó ekki hafa nægt Lavoisier, því að hann reyndi óbeint
að eigna sér hina upphaflegu tilraun Cavendish með brennslu
vetnis. Þetta atvik, ásamt því sem fyrr var lýst, hefur orðið
til að rýra álit Lavoisiers í augum margra seinni tíðar manna.
Þegar kunnugt varð um það á Vesturlöndum, að Rússinn
Lomonosov hefði um margt komizt að svipuðum niðurstöðum
og Lavoisier áratugum fyrr, voru ýmsir svo tortryggnir að
geta þess til, að Lavoisier hefði séð rit Lomonosovs, en„láðst“
að greina frá því. Slíkt er þó afar ósennilegt.
Uppgötvanir Lavoisiers sýndu, að nauðsynlegt var að
endurskoða hugmyndir manna um frumefnin og koma á
nýju nafnakerfi í efnafræði. Lavoisier lagði sig mjög fram við
þetta starf. Árið 1787 gaf hann, ásamt fleiri kunnum efnafræð-
ingum, út bók um nafngiftir í efnafræði. Fram að þeim tíma
höfðu engar fastar reglur gilt um efnanöfn, og það var undir
hælinn lagt, hvort einn efnafræðingurinn skildi nákvæmlega,
hvað annar var að fara. Hið nýja kerfi, sem Lavoisier átti
drýgstan þáttinn í, kvað svo á, að nafn hvers efnis skyldi gefa
til kynna úr hvaða frumefnum það væri samsett. Kerfið var
svo ljóst og rökrétt, að allir efnafræðingar tóku það fljótlega
upp, og hefur það verið notað óbreytt í grundvallaratriðum
síðan.
Áhugi Lavoisiers á eðli bruna leiddi til þess, að hann fór að
rannsaka háttarlag dýra í andrúmslofti, súrefni og köfnunar-
efni. Hann mældi varmaframleiðslu dýranna og komst að
þeirri niðurstöðu, að í líkömum þeirra hlyti að fara fram
hægfara bruni. Við innöndun gekk súrefni andrúmsloftsins
í samband við kolefni og vetni fæðunnar og myndaði koldíoxíð
og vatn, sem hvort tveggja kom fram við útöndun. Sú tækni,
sem Lavoisier beitti við varmamælingamar, varð grund-
völlurinn að varmamælingafræðinni. Margir telja Lavoisier
jafnframt upphafsmann lífeðlisfræði og lífefnafræði, og víst
er um það, að hann kom fyrstur skipulagi á rannsóknir í
þessum greinum.
(150)