Litli Bergþór - 01.11.2002, Blaðsíða 20

Litli Bergþór - 01.11.2002, Blaðsíða 20
Njörður með verðlaunahryssuna Perlu ogfolald hennar. L-B: Þú ert mikið fyrir hesta hef ég heyrt. Hvemig kynntist þú hestamennskunni? Njörður: Ég kynntist auðvitað hestum fyrst hér í Brattholti, - ef frá er talið þegar við krakkarnir stálumst á hestbak í Kleppsholtinu hér í gamla daga. Eigandi hrossanna þar fékk okkur þá til að “passa” hestana, sem við gerðum samviskusamlega! - Einar og Sigga áttu góða hesta, sérstaklega man ég eftir jarpri hryssu, ættaðri frá Helludal, sem Einar átti og var annálaður gæðingur. En ég eignaðist ekki hest stjálfur, fyrr en ég var komin yfir tvítugt. Þá eignaðist ég meri sem hét Brúnka frá Teigi í Mosfellsbæ, en hún var undan 1. verðlauna hrossum í báðar ættir. Dóttir hennar heitir Perla, fædd 1977 á Kjartansstöðum og gaf ég Láru hana. Hún fékk 1. verðlaun árið 1996 og heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 1997. Út af þeim mæðgum er hrossastofninn hér kominn. L-B: Ert þú með mikið af hrossum? Njörður: Maður segir náttúrlega aldrei hvað maður á mikið af hrossum! En við skulum segja að það sé þónokkuð, en fer þó fækkandi. Það er ekki gott að selja hross núna. Ég var bæði að temja og selja hér áður fyrr og svo notum við alltaf eitthvað af hrossum í hestaleigu- na hér. En hestaleigan hefur líka farið minnkandi seinni árin. Það er boðið upp á svo margskonar afþreyingu fyrir ferðamennina nú orðið, jöklaferðir, fljótasiglingar og fleira. En það er samt alltaf reitingur. Förum þetta klukkutíma túra hér upp að Gullfossi, niður að Brúarhlöðum eða hér upp í haga. L-B: Temur þú öll þín hross sjálfur? Njörður: Nei, ég hef í seinni tíð aðallega sent í tamningu, en unnið sjálfur með þau á undan og eftir. L-B: Lára, hvaðan ert þú og hverra manna? Lára: Ég heiti Guðrún Lára Agústdóttir, fædd á Þingeyri við Dýrafjörð 10. júlí árið 1946 og uppalin þar. Innfæddur Dýrfirðingur í báðar ættir, sem sagt Vestfirðingur í húð og hár og minn uppáhalds matur er siginn fiskur með hnoðmör og aðalbláber! - segir Lára og brosir. Móðir mín heitir Ingunn Jónsdóttir og er af Vigurætt og faðir minn Ágúst Lárusson, verkamaður, á ættir að rekja til Breiðafjarðareyja og móðir mín reyndar líka. Þau búa bæði háöldruð á Hrafnistu. Við erum 7 systkinin og búa þau öll, systkini mín, í Reykjavík og Hafnarfirði. Þau heita: Kristján, Jóhannes, Ágúst, sem er tvíburabróðir á móti mér, Ambjörg, Jónas og Kristjana, sem er yngst. Enginn af mínum nánustu ættingjum er lengur fyrir vest- an. L-B: Og skólagangan, hvernig var hún? Lára: Eftir barnaskólann fór ég einn vetur í verknámsskólann í Reykjanesi þegar ég var 15 ára. Var þar m.a. með Unnari Böðvarssyni, sem var skólastjóri hér í Reykholti fyrir nokkrum árum. Það var góður skóli. En því miður lenti ég í vinnuslysi haustið áður en ég átti að byrja 2. veturinn, svo það varð ekki af frekari skólagöngu þar. Ég var að vinna við roðflettningsvél í frystihúsinu heima á Þingeyri og festi hægri hendina í færibandinu. Handarbakið laskaðist illa og hefur aldrei jafnað sig alveg, en ég var í góðum hönskum, sem björguðu því að ekki fór ver. Sem betur fer er ég örfhent! Það var mikill hávaði í vélunum og í minningunni er skelfingin þegar ég stóð þarna og veifaði lausu hendinni og reyndi að koma stelpunum, sem unnu með mér, í skilning um hvað hafði gerst og þær bara hlógu. Héldu að ég væri að fíflast eins og við gerðum oft unglingarnir. Þegar ég ég hafði jafnað mig eitthvað fór ég á Akranes fyrst sem vinnukona, vann síðan á símstöðinni þar og svo í bókbandi í Reykjavík. Sumarið sem ég varð 18 ára vann ég eitt sumar á upp- tökuheimilinu í Breiðuvík fyrir vestan. Þar var heimili fyrir vandræða unglinga oftast 10-12 unglingar í einu. Ég var kunnug matráðskonunni þar frá Þingeyri og hún bað mig að koma. Og þar sem ég var að fara í húsmæðra- skólann á Laugalandi í Eyjafirði um haustið (1964), fannst mér tilvalið að vinna á svona einangruðum stað, þar sem ég gæti ekki eytt peningunum! Njörður og Lára um það leytið sem þau kynntust. Og í Breiðuvík kynntist ég Nirði, sem þá var ráðsmaður þar. Ég fór með skipi á Tálknafjörð og hann sótti mig þangað og það varð náttúrlega ást við fyrstu sýn, segir Lára og brosir. Síðan vorum við aðskilin í næstum heilt ár meðan ég var á húsmæðraskólanum. En fyrst sambandið entist þennan aðskilnað, segi ég að það hafi strax verið góð reynsla fyrir hjónabandið! Eftir einn vetur á húsmæðraskólanum fór ég síðan, með hjálp Njarðar, beint á Gullfoss vorið 1965, að vinna í veitingaskálanum þar hjá Sigríði Bjömsdóttur og Katý systur hennar. Mér finnst það hafa verið minn besti skóli að koma þangað, því þær unnu allt sjálfar. Bændurnir komu með heilu kýrskrokkana og Einar í Brattholti kom með mjólkina. Mjólkin var reyndar ekkert unnin þar, en kjötið var allt unnið og við bökuðum allt sjálfar og auðvitað var allt þvegið þar. Ég man að stundum var moldrokið af Hrunaafrétt svo mikið að við þurftum að taka inn þvottinn. En nú er gaman að sjá hve mikið er búið að græða upp þarna innfrá og landið lítur allt öðru vísi út núna. Litli Bergþór 20

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.