Bændablaðið - 24.05.2005, Page 15
Þriðjudagur 24. maí 2005 15
Ferðaþjónusta bænda keypti á
dögunum 570 fermetra hæð við
Síðumúla 2. Helmingur
hæðarinnar er nú þegar í
útleigu. Segja má að húsnæðið
sem kemur í hlut Ferðaþjónustu
bænda sé fokhelt en Sævar
Skaptason framkvæmdastjóri
sagði að ætlunin væri að flytja
inn í nýja plássið í haust.
„Kaupin á húsnæðinu - sem er
á annarri hæð - eru mikilvægt
skref fyrir Ferðaþjónustu bænda
og að þeim hefur verið stefnt í
langan tíma,“ sagði Sævar og
bætti því við að
ferðaþjónustubændur hefðu safnað
í sjóð til að mæta þessum
útgjöldum. Þegar allt er reiknað
saman má segja að kostnaðurinn á
mánuði verði áþekkur því sem
fyrirtækið greiðir mánaðarlega í
leigu á núverandi stað.
Sævar sagði að útlitið í sumar
væri ágætt. „Þetta verður ekkert
metár. Bókanir fóru seint af stað
en það er í fullkomnu samræmi
við ferðamáta nú til dags,“ sagði
Sævar. „Sala okkar á ferðum til
útlanda hefur gengið samkvæmt
björtustu vonum. Með tilkomu
Bændaferða hefur Ferðaþjónusta
bænda náð að festa sig enn betur í
sessi sem skipulagsaðili fyrir
utanlandsferðir,“ sagði Sævar.
Ferðaþjónusta bænda
festir kaup á húsnæði
Hingað inn ætlar Ferðaþjónusta bænda að flytja í haust, segir Sævar Skaptason, þar sem hann stendur í
fokheldu húsnæðinu. Á innfelldu myndinni má sjá Síðumúla 2.