Bændablaðið - 24.05.2005, Blaðsíða 28
28 Þriðjudagur 24. maí 2005
Erfðabreytt matvæli
til umfjöllunar í Noregi
Norsku bændasamtökin, Norges
Bondelag, fjölluðu nýlega um
framleiðslu erfðabreyttra mat-
væla á stjórnarfundi sínum og
samþykktu þar eftirfarandi
ályktun um málið: Ógerlegt er
við núverandi aðstæður að sjá
með vissu fyrir um langtímaaf-
leiðingar fyrir landbúnað, um-
hverfi og neytendur af notkun
erfðabreyttra lífvera. Mikilvægt
er að hafa varann á í því sam-
bandi. Norsku bændasamtökin
telja að ekki eigi að nota erfða-
breytt hráefni við matvælafram-
leiðslu í Noregi.
Norsku bændasamtökin eiga
aðild að margvíslegu samstarfi
þar sem fjallað er um erfða-
breyttar lífverur. Þar má nefna
„Nettverk for Mat og Miljö,
(NMM)“ sem eru samtök 17
stofnana. Á dagskrá þeirrar
stofnunar fyrir árið 2005 er
fræðsluátak fyrir almenning um
erfðabreyttar lífverur (GMO).
Það átak fer fram í samvinnu við
Matvælaeftirlitið í Noregi.
Varðandi það sem fram fer á
alþjóðlegum vettvangi í þessum
efnum fer þátttaka Norsku
bændasamtakanna einkum fram í
COPA-COGEGA, sem er sam-
eiginlegur vettvangur bænda-
samtaka og samvinnufélaga í
landbúnaði í Evrópu.
Þjónustusími fyrir danska
bændur vegna styrkumsókna
Í Danmörku, eins og í öðrum
löndum ESB, er við lýði flókið
styrkjakerfi í landbúnaði og
þurfa bændur oft á aðstoð að
halda við að fylla út styrkum-
sóknir.
Til að auðvelda þeim það
verk hefur skrifstofa á vegum
Dönsku bændasamtakanna, sem
heldur utan um þessar umsóknir,
komið á fót þjónustusíma fyrir
bændur og fær hún um eitt til
tvö þúsund símtöl á dag þar sem
leitað er upplýsinga. Til að létta
álagið hefur skrifstofan komið
upp vefsíðu á Netinu með upp-
lýsingum um styrkjakerfið og
biður bændur að byrja á að leita
sér úrlausna þar.
Skrifstofan sendi út 75 þús-
und eyðublöð til bænda í ár en
nefna má að á sl. ári bárust
henni um 47.500 umsóknir um
styrki út á ræktunarland, svo-
kallaða hektarastyrki.
Minni fita í þeytirjóma
í Danmörku
Samtök mjólkuriðnaðarins í
Danmörku hafa fengið leyfi til
að lækka fituhlutfall í þeyti-
rjóma úr 38% í 34%. Danska
Matvælastofnunin hefur sam-
þykkt þessa breytingu enda er
fita í fæði Dana talin of mikil.
Hin nýja afurð hefur ekki
áhrif á notkunarmöguleika þeyti-
rjómans en hér er verið að feta í
fótspor margra annarra landa í
ESB um að draga úr hlut fitu í
mataræði fólks. Áfram verður
frjálst að framleiða eldri gerð
rjómans en fituhlutfallið skal
koma fram á umbúðum.
50 milljón svínum hefur verið
slátrað í Horsens í Danmörku
Danska sláturfélagið Danish
Crown hefur látið loka slátur-
húsi sínu í Horsens. Síðustu
svínunum var slátrað þar 7. apríl
sl. Frá upphafi hefur þar verið
slátrað 50 milljón svínum.
Við lokun hússins störfuðu
þar 250 manns. Þeir fá nú starf í
nýju sláturhúsi fyrirtækisins í
Esbjerg. Þar með munu starfa
þar alls 1.360 manns. Með fjölg-
un starfsmanna þar verða afköst
á kvöldvakt aukin. Nú þegar eru
í gangi tvær slátrunarlínur og
stefnt er að því að fjölga þeim í
þrjár, eins og á dagvaktinni.
Reiknað er með að á næsta
ári verði náð fullum afköstum
við slátrun í húsinu eða 75 þús-
und svínum á viku.
Vonir um meiri stuðning fyrir
sauðfjár- og geitabúskap
Í Landsbyggdens folk,
fréttablaði sænskumælandi
bænda í Finnlandi greinir
nýverið frá því að, að óbreyttu
hefði endurskoðun
landbúnaðarstefnu ESB (MTR)
leitt til mikils tekjutaps fyrir
sauðfjár- og geitabúskap í
Suður-Finnlandi. Þessi breyting
hefði leitt til tekjutaps upp á
fleiri þúsund evrur á einstökum
búum (1000 evrur nema u.þ.b.
84.000 kr.). Heildar framlög áttu
að verða 430.000 evrur 2005 og
lækka í 410.000 evrur 2007. Þar
sem þessi bú eru að jafnaði
minni en meðalbú á þessu svæði
sem og arðsemi þeirra lítil hefði
þessi breyting verið alvarleg
ógnun fyrir þessar búgreinar. Nú
stendur til að hækka framlög til
þessara búgreina í samtals
910.000 evrur. Auknir fjármunir
er fengnir með því að lækka
stuðning til annarra búgreina
samkvæmt samningsgrein 141
sem felur í sér sérstakt
samkomulag um aukastuðning
umfram ESB stuðning til
landbúnaðar í Suður-Finnlandi.
Bú í öðrum búgreinum á þessu
svæði eru að jafnaði umtalsvert
stærri en önnur bú og nemur
heildarstuðningur samkvæmt
samningsgrein 141 um 100
milljón evrum. Áhrif á aðrar
búgreinar eru því lítil. /lausl.þýtt
og endursagt EB
Hveiti- og byggmarkaðir í jafn-
vægi á yfirstandandi ári
Alþjóða kornráðið, Interna-
tional Grains Council, spáir því
að hveitiuppskera í heiminum í
ár verði 602 milljón tonn, sam-
anborið við 624 milljón tonn á
sl. ári. Jafnframt gerir ráðið ráð
fyrir að sala hveitis dragist sam-
an, m.a. af fóðurhveiti bæði í
ESB og Norður-Ameríku.
Bygguppskera í ár er áætluð
145 milljón tonn en hún var 152
milljón tonn á sl. ári. Þess er
vænst að eftirspurn eftir fóður-
byggi minnki, einkum í Sádi-Ar-
abíu en eftirspurn eftir byggi til
etanólframleiðslu aukist. Þess er
því vænst að verð á byggi muni
hækka á árinu.
Þá er tekið fram að nýr sókn-
armöguleiki fyrir bygg felist í
vaxandi eftirspurn eftir öli í
Kína.
AÐ UTAN
Út er kominn sumarbækling-
urinn „Upp í sveit“ frá Ferða-
þjónustu bænda en í honum er
að finna upplýsingar um fjöl-
breytta gistingu og afþreyingu
um allt land.
Helstu breytingar frá síðustu
útgáfu er flokkun gististaða í
heimagistingu, gistihús bænda
og sveitahótel. Í heimagistingu
er boðið upp á einfalda en þægi-
lega gistingu, í gistihúsum
bænda er að finna fjölbreytt úr-
val af gistingu í herbergjum með
og án baðs, en nýja skrautfjöðrin
eru sveitahótelin þrettán þar sem
meira er lagt upp úr aðbúnaði og
þjónustu við gesti. Þá eru marg-
ir ferðaþjónustubændur með
sumarhús.
Það er margt hægt að gera í
sveitinni og þess virði að kynna
sér hvaða afþreyingu ferðaþjón-
ustubændur hafa upp á að bjóða.
Sem dæmi má nefna, hestaferð-
ir, veiði, gönguferðir, fuglaskoð-
un, golf, fjórhjólaferðir, sigling-
ar og afslöppun í heitum pottum.
Nú eru um 150 ferðaþjón-
ustuaðilar innan Ferðaþjónustu
bænda, þar af eru yfir 30 meðlim-
ir í félaga- og umhverfisvottunar-
samtökunum Green Globe 21.
Nánari upplýsingar um
Ferðaþjónustu bænda og ein-
staka bæi er að finna á heimasíð-
unni www.sveit.is. Þá er sumar-
bæklingnum dreift á Essó bens-
ínstöðvar um allt land og á upp-
lýsingamiðstöðvar.
Upp í sveit - Gisting og afþreying um allt land
Stay on a farm in Iceland
Gisting og afþreying um allt land
2
00
5
- 2
00
6upp ísveit
Kvennareiðtúr Sleipnis
Fimmtíu og fjórar konur tóku þátt í árlegum kvennareiðtúr Hesta-
mannafélagsins Sleipnis á laugardag fyrir hvítasunnu. Hópurinn
lagði upp frá hesthúsahverfinu á Selfossi og reið að Laugabökum í
Ölfusi þar sem sungið var og spjallað í góðu yfirlæti og boði
hjónanna Kristins Valdimarssonar og Erlu Gerðar Matthíasdóttur.
Að útreiðatúrnum loknum var borðað saman í Hliðskjálf, félags-
heimili Sleipnismanna. Meðfylgjandi mynd var tekin þar sem hópur-
inn áði fyrir utan heimili Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
og Margrétar Hauksdóttur, konu hans, sem kom út og spjallaði við
konurnar. - fía.
Embætti yfirdýralæknis
Orðsending
til bænda, búnaðarsambanda og dýralækna vegna
flutnings á líffé milli varnarhólfa haustið 2005
(geymið þessa auglýsingu)
Bændur, sem vilja kaupa líflömb vegna fjárskipta á komandi hausti þurfa að
senda skriflega pöntun með milligöngu viðkomandi búnaðarsambands í síðasta
lagi 31. júlí 2005. Þeir einir koma til greina, sem lokið hafa fullnaðarsótthreinsun
og frágangi húsa, umhverfis og annars, sem sótthreinsa átti. Æskilegt er að taka
fram í umsókninni hver vottaði sótthreinsun og hvenær.
Sami frestur gildir fyrir þá sem búa á riðusvæðum og áhættusvæðum þar sem
fjárverslun er bönnuð, og óska þess að fá keypt lömb til kynbóta, vegna
búháttabreytinga eða vegna vandkvæða á að nota sæðingar.
Þeir skulu fá umsögn héraðsdýralæknis um þær ástæður og senda pöntun sína
til viðkomandi búnaðarsambands sem gefur allar nánari upplýsingar og
leiðbeiningar um líflambasvæði.
Að gefnu tilefni er áréttað, að flutningur á sauðfé og geitum milli varnarhólfa (yfir
varnar-línur) er stranglega bannaður án leyfis yfirdýralæknis. Ennfremur er með
öllu óheimilt að versla með kindur (unglömb sem eldra fé) eða flytja fé til lífs á
milli bæja með öðru móti innan svæða, þar sem riðuveiki hefur orðið vart s.l. 20
ár. Ætlast er til þess að menn leiti álits viðkomandi héraðsdýralæknis á hvers
konar flutningi sauðfjár, geita og nautgripa milli bæja.
Héraðsdýralæknar gefa nánari upplýsingar um
heilbrigðisástand í umdæmum sínum.
Allt fé hjá kaupanda og seljanda skal vera merkt með löggiltum merkjum
og skal tekið fram í umsókninni að svo sé.
Umsóknum verður svarað fyrir ágústlok.
Leyfi ræðst af heilsufari fjár á sölusvæðinu, þegar kemur að flutningi hverju sinni.
Embætti yfirdýralæknis
Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík
Sími: 545 9750, 545 9775