Bændablaðið - 28.01.2009, Blaðsíða 27

Bændablaðið - 28.01.2009, Blaðsíða 27
23 Bændablaðið | miðvikudagur 28. janúar 2009 „Mig langaði að skapa mér eitthvað að gera hérna heima við,“ segir Garðar Jónsson á Stóruvöllum í Bárðardal. Þar hefur hann hefur rekið fyr- irtæki sitt, Stóruvelli ehf., um árabil en upphaf þess má rekja til ársins 1992. Áður fyrr var rekinn hefðbundinn búskap- ur á Stóruvöllum, auk þess sem bændur reyndu fyrir sér í loð- dýrarækt með litlum árangri, en nú felst starfsemin í því að bræða mör og lambafitu. Á Stóruvöllum hefur um árabil verið framleidd afar vinsæl hamsatólg, hangiflot og útikerti að auki. Garðar er fæddur og uppalinn á Stóruvöllum og tók við blönduðu búi foreldra sinna á sínum tíma, en sjálfur bjó hann einkum með kýr og var með um 30 kýr á meðan hann stundaði kúabúskap. „Nú, svo kom að því að endurnýja þurfti ýmis- legt hér í útihúsum, m.a. hlöðu og fleira og ég hugði á framkvæmdir, en þegar ég fór að bera mig upp við ráðunauta og fleiri um þau mál var mér bent á nýjar búgreinar sem mjög væru að ryðja sér til rúms og þótti afar fýsilegt fyrir mig að skipta yfir í, sem sé að hefja loð- dýrabúskap og hætta með kýrnar. Menn voru með alls konar útreikn- inga og allt bar að sama brunni, nið- urstaðan gæti ekki orðið önnur en bullandi hagnaður af starfseminni. Ég lét freistast eftir að hafa legið yfir þessum útreikningum lengi vel, enda ráðleggingar á einn veg; þetta gat ekki klikkað og ég man eftir því að í öllum útreikningum var skinnaverð alltaf gefið upp 2.100 krónur. Nú, svo var mikið talað um að í þessari nýju búgrein væri fram- tíðin,“ segir Garðar. Kappið meira en forsjáin Hafin var uppbygging loðdýrabús á jörðinni, minkaskáli var tekinn í notkun um áramótin 1987/1988 og var búið rekið í fimm ár. „Við vorum í þessu alltof lengi, við unnum úti bæði hjónin allan tímann til að eiga fyrir fóðrinu og urðum að lokum sammála um að betra væri að fá sér einn kött! Það væri möguleiki á að fóðra hann,“ segir Garðar en leik- ar fóru svo að loðdýrarækt var hætt á Stóruvöllum. Garðar telur þó að loðdýrarækt sé ágæt búgrein nú, en á sínum tíma þegar bændur voru í stórum stíl hvattir til að skipta yfir og hefja loðdýrabúskap hafi und- irbúningur ekki verið nægur, of geyst hafi verið farið í upphafi og ekki næg þekking fyrir hendi. Kappið hafi verið meira en forsjáin og eiginlega var þetta á sínum tíma tóm þvæla, segir Garðar og bætir við: „En það er hið besta mál að rækta loðdýr, þessi dýr éta úrgang og við seljum svo afurðirnar, skinnið, til útlanda og sköpum með því gjaldeyristekjur.“ Þekkingin sé meiri núna og reynsla komin á búgreinina. Tilraunaframleiðslan hófst í eldhúsinu Eftir að hafa brugðið loðdýrabúi var Garðar við ýmis störf, sótti sjóinn yfir veturinn og vann við jarðboranir að sumrinu. Á yngri árum var hann iðulega á vertíð í Þorlákshöfn og telur að hugmyndin að fyrirtæki sínu hafi kviknað þar. „Það var mikið um að boðið væri upp á saltfisk og skötu í matinn, en menn voru sammála um að vant- aði almennilega hamsatólg með. Ég hugsa að hugmyndin að þess- ari framleiðslu hafi orðið til í koll- inum á mér þarna, mér fannst að gera þyrfti bragarbót á þessu,“ segir hann. Tilraunir hófust með framleiðslu og sölu á hamsatólg og tólg árið 1992, byrjað var í eldhúsinu heima á Stóruvöllum og í upphafi var tólg- in seld í eina fiskbúð í Reykjavík. „Svo vatt þetta upp á sig, fleiri aðil- ar föluðust eftir tólginni og þá fóru hjólin að snúast,“ segir Garðar, en í framhaldinu var farið að huga að aðstöðu undir starfsemina. Í fyrstu var starfseminni fundinn staður í gamla mjólkurhúsinu og fékkst leyfi til að breyta því í iðnaðar- húsnæði sem uppfyllti skilyrði til matvælaframleiðslu. Framleiðslan hófst svo af fullum krafti ári síðar og félag um reksturinn var stofn- að árið 1995. Smám saman hefur framleiðslan aukist, jafnframt því sem tækjabúnaður hefur verið auk- inn og bættur, svo og aðstaðan. Byggði nýtt hús undir starfsemina eftir eldsvoða Það var svo í byrjun árs 2004 sem áfall dundi yfir. Bárðdælingar voru saman komnir á þorrablóti í félagsheimilinu Kiðagili, skammt frá bænum, þegar eldur braust út. Þegar að var komið stóðu húsa- kynni verksmiðjunnar í björtu báli. Allt brann til kaldra kola og Garðar stóð að morgni í rústunum. „Þá fannst mér langeinfaldast að gefast bara upp,“ segir hann, en það var þrjóskan sem bjargaði málum. Í stað þess að hætta bretti hann upp ermar og hóf uppbyggingu á nýjan leik. Í fyrstu kom hann sér upp bráðabirgðaaðstöðu í gámum á meðan hugað var að framhaldinu. En sjaldan er ein báran stök, um vorið eða í maí kom aftur upp eldur í verksmiðjunni og allt brann sem brunnið gat. „Ég fór þá að grufla í þessu, hélt að þetta væri eitthvað í framleiðsluferlinu og málið var rannsakað gaumgæfilega. Í ljós kom að svo var ekki, kapall hafði brunnið yfir og valdið eldsvoð- anum. Ég hugsaði mig töluvert um, en niðurstaðan varð svo sú að ég ákvað að byggja upp á nýtt,“ segir Garðar en að þessu sinni var byggt nýtt 160 fermetra hús á jörð- inni undir starfsemina. Það var mikil stækkun frá því sem áður hafði verið, en í mjólkurhúsinu hafði hann haft til umráða um 24 fermetra. „Húsnæðið er fullnýtt nú, það má ekki vera minna, umfang starfseminnar er orðið það mikið,“ segir Garðar sem þó hyggur ekki á þessari stundu á stækkun húsnæðis: „Það sem fyrir er verður að duga.“ Garðar fær hráefni frá sláturhúsi Norðlenska á Húsavík, um 50 til 60 tonn af mör á ári sem brædd eru á Stóruvöllum. „Þetta er náttúrulegt hráefni sem við nýtum og búum til verðmæti úr, ella væri því hent,“ segir hann. Uppistaðan í framleiðsl- unni er hamsatólg, sú framleiðsla dregur vagninn, eins og hann orðar það. En einnig er á staðnum fram- leidd hrein tólg sem m.a. er notuð til að steikja kleinur, laufabrauð „með laufabrauðsbragði!“ eins og Garðar orðar það og fleira eins og lummur og skonsur, auk þess sem hana má nota til að djúpsteikja kartöflur. Hangiflot er og fram- leitt á Stóruvöllum, sem líkt og hamsatólgin er notað sem útálát á fisk. Tólg er líka seld til sápu- og kremgerðar, en afgangstólg fer í svína- og loðdýrafóður. Salan hefur að sögn Garðars verið jöfn og þétt og hann segir það í raun undrum sæta að sala á tólg hafi langt í frá minnkað og vísar þá til tíðarandans, þar sem fita af öllu tagi er litin hornauga. „Svo hef ég alltaf verið með framleiðslu á útikertum svona til hliðar og þau hafa selst ágætlega. Við finnum að nú vill fólk kaupa íslenskt, enda er að mínu viti algjör- lega óþarfi að flytja inn útlend kerti í gámavís þegar sambærileg eða betri vara, framleidd hér heima, er í boði,“ segir hann. Starfsemi Stóruvalla ehf. skapar atvinnu í Bárðardal, en að jafnaði eru fjórir til sex starfsmenn þar í hlutastarfi og er vinnutími sveigj- anlegur, flestar konurnar sinna jafn- framt hefðbundnum búskap heima við, en hann er aðalatvinnuvegur Bárðdælinga. „Við keyrum fram- leiðsluna mest yfir veturinn, það er rólegra yfir starfseminni yfir sumarmánuðina. Konurnar þurfa að komast frá á vorin til að sinna sauðburði og á haustin tekur við smalamennska, réttir og fleira, en þetta fyrirkomulag hentar vel því salan er langmest yfir veturinn,“ segir Garðar. Þarfir landsbyggðarinnar hundsaðar Hann nefnir að vissulega séu ýmis vandkvæði samfara því að reka fyrirtæki af þessu tagi í Bárðardal, en Stóruvellir eru vestan við Skjálfandafljót um 20 kílómetra frá þjóðvegi 1, sunnan við Goðafoss. „Það gefur auga leið að allir aðdrættir kosta sitt, verðið hefur rokið upp að undanförnu og flutn- ingskostnaður er mikill en aðal- markaðurinn er á höfuðborg- arsvæðinu, um 80% af sölunni eru þar,“ segir Garðar og hugsar stjórnvöldum þegjandi þörfina. Þau hafi um árabil gjörsamlega hunds- að þarfir landsbyggðarinnar. „Það er einhvern veginn eins og þau finni alltaf upp á gjöldum sem mest bitna á landsbyggðarfólki,“ bætir hann við og nefnir álögur á flutn- inga sem dæmi. Eldsneytisverð sé líka óheyrilegt og dreifbýlisbúar hafi ekki neitt val, þeir geti ekki ákveðið að spara með því að leggja einkabílnum og taka strætó. Þá bendir hann á að vegir í Bárðardal séu afar slæmir og komi það niður á uppbyggingu ferðaþjón- ustu, fólk sem vant er malbikuðum vegum veigri sér við að leggja í langferðir um dalinn þó hann hafi upp á margt að bjóða. „Vegirnir eru alveg hrikalegir hérna og þeir fæla frá,“ segir hann og þekkir gjörla til, hefur séð um skólaakst- ur í sveitinni um árabil og ekur daglega um Bárðardal með skóla- börn í Stjórutjarnaskóla, um 110 kílómetra hvern virkan dag. Það gerir um 5000 kílómetra á mánuði. Engar lagfæringar hafa verið gerðar á veginum um Bárðardal frá árinu 1965, utan þess að borinn er í hann leir og hann ausinn vatni af og til. Langþráðar úrbætur í vegamál- um hafa látið standa á sér, langt er síðan fé var eyrnamerkt til endur- bóta á vegum í Bárðardal en verk- efninu ævinlega ýtt til hliðar og gerir Garðar sér ekki nokkrar vonir um að við núverandi ástand í efna- hagsmálum þjóðarinnar verði þráð- urinn tekinn upp. „Það var búið að taka ákveðna upphæð frá fyrir nokkrum árum. Hún hefur ekki hækkað neitt en það sama gildir ekki um annað, allt hefur hækkað upp úr öllu valdi, svo að ég geri ráð fyrir að lítið fáist fyrir þetta fé á þessum tímum,“ segir Garðar. Hann hefur þó ekki annað í hyggju en halda starfsemi sinni áfram, enda gengur hún vel. „Ég er ánægður með þetta starf og starfsemin er mikilvæg fyrir okkur hér í sveitinni,“ segir hann. MÞÞ Á Stóruvöllum í Bárðardal eru búin til verðmæti úr náttúrulegu hráefni sem ella væri hent Starfsmenn Stóruvalla, frá vinstri: Friðrika Bjarnadóttir Bjarnastöðum, Garðar Jónsson Stóruvöllum, Kristín Ketilsdóttir Lækjavöllum, Þuríður Sveinsdóttir Arndísarstöðum og Sigríður Baldursdóttir Víðikeri. Greinilega gaman í vinnunni. Hér eru þær Kristín Ketilsdóttir, í forgrunni, og Þuríður Sveinsdóttir önnum kafnar við störf sín. Vöruúrvalið á Stóruvöllum, kerti og hamsatólg í ýmsum útgáfum. ÞÓR HF | S ími 568-1500 | www.thor. is Bændur athugið: Þjónstubifreið okkar verður á ferð um landið nú í febrúar. Þeir bændur sem hafa áhuga á að nýta sér þessa þjónustu hafi samband við okkur sem fyrst. Uppstoppun! Tek að mér uppstoppun á fuglum og dýrum, Kristján frá Gilhaga, (ath. breytt heimilisfang) Lækjartúni 4, 304 600 Akureyri Sími 892 8154, netfang kr.st@simnet.is vefur: http://www.krokur.is/kristjan/ Til leigu steypumót, byggingakrani og allir fylgihlutir. Tilbúið til flutnings. Hagstætt verð. Upplýsingar í síma 899-6985 Þjónustuauglýsingar ● Þjónustuauglýsingar ● Þjónustuauglýsingar ● Þjónustuauglýsingar ● Þjónustuauglýsingar

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.