Bændablaðið - 28.01.2009, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 28.01.2009, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | miðvikudagur 28. janúar 2009 Málgagn bænda og landsbyggðar LEIÐARINN LOKAORÐIN Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjölmargra annarra er tengjast landbúnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 5.400 en sjötugir og eldri greiða kr. 2.400. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 – Ritstjóri: Þröstur Haraldsson, ábm. th@bondi.is – Sími: 563 0375 Blaðamenn: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Matthías Eggertsson me@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is Auglýsingastjóri: Eiríkur Helgason eh@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið ehf. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins að mestu leyti. ISSN 1025-5621 Frjálshyggjan hverfur í skýin Þegar þetta er ritað eru forystu- menn Samfylkingar og Vinstri- grænna rétt sestir inn á fund þar sem væntanlega er verið að ákveða hver verða helstu áhersluatriði nýrrar ríkisstjórnar sem sitja á fram að kosningum, hvenær sem þær verða. Um allan bæ er svo spáð og spekúlerað í því hverjir muni verma einstaka ráðherrastóla í þessari óvenju- legu minnihlutastjórn. Fyrir áhugamenn um pólitík hafa undanfarnir mánuðir verið mikil gósentíð. Nú er ekki látið nægja að velta sér upp úr safarík- um samsæriskenningum um völd og vegtyllur heldur er allt undir, alveg ofan í rót. Það er talað um algjöra umsköpun samfélags- ins, hvorki meira né minna. Nýtt lýðveldi vilja margir nefna þetta með tilvísun til Frakklands þar sem þeir eru á fimmta lýðveldinu þessi misserin, að mig minnir. Upp eru risnar hreyfingar úti um allt sem vilja hreinsa til í stjórnsýslunni. Það nægir engan veginn að skipta út ráðherrum heldur þarf að grisja allan þann fjölmenna frændgarð sem búið er að koma fyrir á öllum stigum stjórnsýslunnar og þó einkum og sér í lagi efstu lögum hennar. Svo ekki sé minnst á tiltektina sem gera þarf í fjármála- og bankakerfinu. Nú er lag, heyrist oft þessar vikurnar og það er vissulega rétt. Hrun bankakerfisins setti eig- inlega spurningamerki aftan við allt það sem við höfum vanist að horfa á sem viðtekna hluti. Við erum fyrir löngu orðin sljó fyrir því að valdamenn misbeiti valdi sínu, hvort sem er til að raða í kringum sig vildarmönn- um sínum eða beygja ritstjórnir fjölmiðla til að birta hina einu réttu mynd af veruleikanum. En nú er allt með öðrum blæ. Nú fyllast öll skúmaskot þegar boðið er upp á umræður um mál á borð við íslensku stjórn- arskrána, aðild að peningamála- kerfi Evrópusambandsins eða orsakir bankakreppunnar. Fyrir hrunið hefðu langflestir tekið á sig stóran sveig til að losna undan því að takast á við svona „erfið mál“. Krafan um stjórn- lagaþing til þess að skera upp stjórnarskrána og kosningalögin verður háværari með hverjum deginum svo jafnvel forsetinn tekur undir hana. Á sama tíma gerist það vestur í Bandaríkjunum að þar linnir átta ára gjörningaveðri ysta hægrisins sem búið er að ýta heimsbyggð- inni út í heimskreppu og stríð. Ég fylgdist með forsetaskiptunum í sjónvarpinu og verð að við- urkenna að í mínum augum var það hápunktur þessarar miklu skrautsýningar þegar þyrlan með þrjár kynslóðir af Bush-um lyfti sér þunglamalega upp af stéttinni utan við þinghúsið, jók hraðann smátt og smátt og hvarf loks út við sjónarrönd. Þá loksins varð fall frjálshyggjunnar áþreifanlegt. –ÞH Í MIÐJUOPNU blaðsins er fjögurra síðna saman- dregin umfjöllun um íslenskan landbúnað og Evrópusambandið. Hér í Bændablaðinu hefur mikið verið fjallað um áhrif ESB-aðildar á íslenskan landbúnað í gegnum tíðina og ætti afstaða Bændasamtakanna að vera öllum kunn. Í umfjölluninni er íslenska landbúnaðarstefn- an tekin fyrir auk þess sem fjallað er um þær búgreinar sem stundaðar eru í landinu og áhrif ESB-aðildar á nokkrar þeirra. Með þessum hætti er tilgangurinn að draga saman á einn stað lykilupplýsingar í umræðunni um ESB og íslenska bændur. Einörð afstaða bænda hefur komið hags- munum landbúnaðar á kort þeirra sem vilja aðildarviðræður. Er það vel. Afdráttarlaus fyrirvari flokksþings Framsóknarflokksins um hagsmuni landbúnaðar og sjávarútvegs er skýr. Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskipta- ráðherra, sagði á opnum fundi að hagsmunir landbúnaðar og búvöruframleiðslu mættu ekki verða fórnarlamb aðildar. En þrátt fyrir skýran vilja er efinn mikill. Aðildarviðræður með svo skýra fyrirvara þarf varla að tefja sig á að mæta með til Brussel. Eða er einhver sem trúir því að varanleg undanþága frá sameiginlegri sjávarútvegs- og landbún- aðarstefnu fáist? Olli Rhen, „stækkunarstjóri“ ESB, sagði í sjónvarpsviðtali í nóvember að ræða mætti aðlögunartíma og -ferli. Ekkert um varanlegar undanþágur. Eða verður kannski farið í aðildarviðræður og komið heim með samning? Samning sem enginn samningarnefndarmaður vill kannast við að sé á nokkurn hátt slæmur. Kannski með lítils- háttar tilslökun í landbúnaðar- eða sjávarútvegs- málum? Sem væru svo litlir að ekki tæki því að tala um. Slík var einmitt reynsla Norðmanna. Enginn kannaðist við að samningurinn væri hættulegur, fyrr en búið var að fella hann. Hvað með sameiginlega orkustefnu ESB, sem verið er að leggja grundvöll að? Eða er það eins og með fæðuöryggið að enginn skilur meiningu þess orðs fyrr en maturinn er búinn? ESB-búar í Búlgaríu þurftu að hírast í ísköld- um húsum sínum fyrir nokkrum dögum. Þeir skilja afar vel í dag hvað sjálfstæði í orkumál- um, orkuöryggi þýðir. Til að verða ekki öðrum háðir um til dæmis húshitun hafa þeir nú óskað eftir því við ESB að fá að gangsetja kjarnorku- ver til raforkuframleiðslu. Hér í Bændablaðinu er farið yfir hvernig undanþágur og breytt stefna ESB eftir inngöngu geti kollvarpað forsendum aðildar á einni nóttu. Sjá viðtal við Jón Baldur Lorange hér til hliðar. Íslenskur landbúnaður er atvinnugrein þekk- ingar. Tæknivæddur. Stundaður við aðstæður sem reynslan hefur kennt. Norðlæg framleiðsla keppir aldrei án tollverndar við suðrænni land- búnað. Tollverndin er lífsnauðsynlegur „örygg- isbúnaður“ til að verða ekki undir í undirboð- um og umframframleiðslu. Tímabundinni. Íslenskur landbúnaður hefur á undanförnum árum þróast hratt. Þrátt fyrir að mörgum þyki stórmannlegt að sparka í landbúnaðarkerfið, hefur það samt sem áður skilað neytendum fjölbreyttari, betri og ódýrari vörum á sl. árum. Engin ástæða er til að ætla að komið sé á enda- stöð í því. Nú er svo komið að veruleg andstaða við aðild að ESB mælist í skoðannakönnun. Því kemur ekki á óvart að helstu stuðningsmenn aðildar séu farnir að örvænta. Beinlínis jafnvel stilla því upp að án hennar eigi þjóðfélag okkar ekki viðreisnar von. EN UMRÆÐAN um ESB hefur væntanlega vikið fyrir öðrum og þarfari málefnum. Eins og und- irritaður benti á í þjóðfélagsumræðunni fyrir hátíðar gat ESB-rótið ekki verið forgangsmál í umræðu þegar stórkostleg vandamál í afkomu fólks blöstu við. Bændasamtökin hafa ekki og munu ekki taka afstöðu með eða móti einstaka ríkisstjórn- um. Skylda þeirra er að vinna með stjórnvöld- um á hverjum tíma að hagsmunum landbún- aðar. Mikilvægast af öllu er að hér komist sem fyrst á stöðugleiki. Bændasamtökin, ásamt viðkomandi búgreinafélögum, hafa rætt hvern- ig greiða má úr þeirri stöðu sem upp kom við setningu fjárlaga fyrir áramót í framkvæmd búvörusamninga. Því miður hefur ekki unn- ist tími til að ræða við stjórnvöld um framhald málsins, vegna stjórnmálaástandsins. Hins vegar líta samtökin svo á að um samningsrof hafi verið að ræða. Að ekki sé forsvaranlegt að láta rekstarumhverfi bænda vera í slíkri óvissu til lengri tíma. Allt virðist stefna í kosningar í vor. Ljóst er að framtíðarhagsmunir okkar liggja í því sem kallað hefur verið „framleiðsludrifið hagkerfi“. Landbúnaður og framleiðsla bænda gegnir þar stóru hlutverki. Bændur eiga að sjálfsögðu að láta til sín taka í komandi kosningabaráttu. Með því að bjóða fram krafta sína. Nauðsynlegt er að styrkja rödd bænda á vettvangi stjórn- málanna. Ekki síður að halda á lofti í kosn- ingabáttunni hagsmunum atvinnugreinarinnar. Bændasamtökin hafa þegar hafið undirbúning að fræðslu- og kynningarefni fyrir flokka og frambjóðendur. HB ESB-umræðan og gjörningaveður í pólitík Undanfarin ár hefur innlend framleiðsla staðið höllum fæti gagnvart innflutningi vegna sterkrar krónu, að margra mati of sterkrar. Ein birtingarmynd- in hefur verið óhagstæður sam- anburður á verðlagi matvöru við nágrannlönd á Evrópska efna hagssvæðinu. Hallgrímur Snorrason, formaður nefndar um helstu orsakaþætti hás mat- vælaverðs á Íslandi, áætlaði t.d. í skýrslu sinni 2006 að fullt afnám tollverndar myndi leiða til lækk- unar á matvælaverði sem nemur 15,6%. Miðað við árlegan sam- anburð verðlags sem gerður er af Evrópsku hagstofunni Eurostat lætur nærri að verðlag matvöru hér á landi hafi þá verið um 20% hærra en í Danmörku. En með falli krónunnar hefur þessi samanburður gerbreyst. Ef borið er saman verðlag í Danmörku og hér á landi á grundvelli útreikn- inga Eurostat á hlutfallslegu verð- lagi, og þróun þess metin í ljósi gengisbreytinga síðastliðin tvö ár kemur ný mynd í ljós. Skoðaðar voru nokkrar vörur og vöruflokk- ar, kjöt, mjólk og egg, grænmeti og kaffi. Verðlag í Danmörku er á hverjum tíma jafnt og 100 en lín- urnar sýna frávikin hér á landi gagnvart dönsku verðilagi. Á árinu 2007 er verðlag hér á landi að jafnaði hærra en í Danmörku. Minnstu munar á grænmeti (sem samanstendur af innfluttum vörum og innlendri framleiðslu), hinir þrír vöruflokkarnir eru nokkuð svip- aðir í upphafi tímabilsins, um 30% hærra verðlag hér á landi. Með fall- andi gengi krónunnar dregur hins vegar saman með löndunum tveim- ur. Verð á grænmeti, mjólk og eggj- um er orðið lægra en í Danmörku í mars 2008 og kjöt og kaffi fylgja í kjölfarið. Hlutfallslega er lækkunin mest á kjöti, mjólk og eggjum. Við þessar aðstæður er augljóslega hag- stæðara fyrir þjóðarbúið að fram- leiða þessar afurðir sjálft heldur en vera háð innflutningi á þeim. EB Gerbreytt samkeppnishæfi innlendrar búvöruframleiðslu Á þessari mynd má sjá hvernig verðlag á fimm vöruflokkum hefur þróast hér á landi í samanburði við Danmörku frá því í ársbyrjun 2007. Rauða línan (100) er verðlag í Danmörku en og eins og sjá má er verð á íslenskum búvör- um (mjólk, kjöti og grænmeti) nú um það bil 70% af verði sömu vöruflokka í Danmörku.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.