Bændablaðið - 08.04.2009, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 08.04.2009, Blaðsíða 7
7 Bændablaðið | miðvikudagur 8. apríl 2009 Þórunn Stefánsdóttir á Ljósa- landi í Fáskrúðsfirði sendi mér vísu, sem hún fékk áletraða á penna frá Aðalgeiri á Mán- árbakka. Í sameiningu spyrjum við Þórunn um höfund vísunnar. Er það e.t.v. Aðalgeir sjálfur? Þeir sem hafa létta lund lifa daga bjarta. Vísnagerð á góðri stund gleður mannsins hjarta. Reinhold Richter er vormaður. Frá honum koma þessar fallegu vorvísur: Fölrauð sé í fjarska ský, finn ég vorið anga Flýgur norður fugl á ný, fannir hlána á tanga. Úti á túni ærin ber, álftir kvaka í móa. Gjóta brátt í greni fer gráleit, lúin tófa. Aftur lifnar yfir mér, í mér gleðin syngur. Vil ég ætíð vera hér vorsins Íslendingur. Haustvísa fæddist í leitum á Arnarvatnsheiði fyrir nokkrum árum þegar Reinhold reið heim í Álftakrók í lok dags. Þar koma fuglar við sögu og auk þess möndulhalli jarðar: Flýgur suður fugl á ný fölna jurtir allar. Dagur styttist stöðugt því stjarnan okkar hallar. Jón Eiríksson, Drangeyjarjarl, varð agndofa við fréttir af ung- um manni á Ísafirði, sem ætti von á sektum ellegar varð- haldi fyrir að pissa í sjóinn við Ísafjörð. Jarlinum þótti sem mjög væri kreppt að frelsi Vestfjarðavíkinganna. Ekki einasta væri búið að hreinsa af þeim mestallan aflakvóta heldur mættu þeir varla líta í átt til sjávar átölulaust. Miðað við alvarleika þessa máls taldi Jón eðlilegt að deila viðhorfi sínu til þess með lesendum Bændablaðsins: Nú gefst tæpast nokkur ró næsta fátt má veiða og mígir þú í saltan sjó sektir þarft að greiða. Svo hugstæður varð Jóni þessi atburður á Vestfjörðum að hann orti dýrari útgáfu af vísunni: Nú er fátt um nokkra ró næsta smátt má veiða. Verði brátt við saltan sjó sektir máttu greiða. Annars telja kunnugir ekki vafa leika á því að Jón Eiríksson eigi sjálfur uppsafnaðar og ógreiddar háar fjársektir eftir töluverðan tíma á sjó. Jón viðurkenndi líka í samtali að það kynni að vera myndarlegur sjóður ef allt yrði talið. Fyrr á árinu birti ég nokkrar vísur eftir Helga Hálfdanarson lyfja- fræðing eða „byrlara“ eins og hann gjarnan kallaði sig. Annar byrlari var Teitur J. Hartmann. Hann átti heima á Ísafirði og síðar á Norðfirði. Teitur orti: Berjast andstæð öfl í mér illu og góðu knúin. Holdið veikt en andinn er alltaf reiðubúinn. Að svo mæltu óska ég ykkur gleðilegra páska. Umsjón: Hjálmar Jónsson hjalmar@domkirkjan.is Í umræðunni MÆLT AF MUNNI FRAMFélagsstarf bænda með líflegasta móti Nú er vertíð aðalfunda og árshá- tíða að ganga yfir og við ýmis slík tilefni eru myndirnar hér á síðunni teknar. Hér til hliðar er Guðmundur J. Guðmundsson í Holtseli gjaldkeri Beint frá býli að fara yfir reikninga og íbyggnir félagsmenn hlýða á. Stóru myndirnar þar undir eru teknar að loknu formannskjöri hjá Landssambandi kúabænda og má þarna sjá Sigrúnu Hildi Ragnarsdóttur í Stóru-Hildisey II hnýta formannsslaufuna á Sigurð Loftsson. Á hægri myndinni er allt orðið klárt fyrir myndatöku með fram- kvæmdastjóranum Baldri Helga Benjamínssyni. Koss í beinni Sauðfjárbændur kusu á aðalfundi sínum Sigurgeir Sindra í Bakkakoti nýjan formann en spennan í salnum var nær óbærileg þegar atkvæði voru talin. Eftir spennufallið var haldin árshátíð um kvöldið í Súlnasal þar sem bekkurinn var þétt setinn. Fanney Ólöf Lárusdóttir afhenti Jóhannesi Sigfússyni fráfarandi formanni LS góðar gjafir og þakkir fyrir vel unnin störf. Fundarstjórinn Aðalsteinn Jónsson í Klausturseli fékk þau upp á svið til þess að „þakkarkossinn“ yrði sendur út í beinni útsendingu á Netinu. Neðst eru myndir frá samkomu ferðaþjónustubænda þar sem nýtt vef- bókunarkerfi var vígt og sagt er frá hér framar í blaðinu. myndir | TB

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.