Bændablaðið - 08.04.2009, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 08.04.2009, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | miðvikudagur 8. apríl 2009 Forvitni og heimska! Þannig svarar Guðmundur Jón Guðmundsson bóndi í Holtseli, aðspurður hvernig á því stóð að hann og eiginkonan Guðrún Egilsdóttir hófu ísgerð á bænum fyrir um þremur árum. Þau hafa einnig opnað kaffihús og ísbar á millilofti ofan við fjósið, sem hefur verið vel sótt og notið vinsælda. Það var sem sagt í apríl árið 2006 sem Guðmundur Jón fletti bresku bændablaði og rakst á auglýsingu um tæki til ísgerðar. Forvitnin rak hann til að senda fyrirspurn til fyr- irtækisins, sem er í Hollandi. Þá var ekki aftur snúið. „Við vorum komin út að skoða viku síðar og gengum frá kaupunum,“ segir hann. Ísgerðin átti að vera eins konar tómstundagaman til hlið- ar við önnur störf á búinu en tekur nú æ meiri tíma. Holtsel er í Eyjafjarðarsveit, um 19 kíló- metra sunnan Akureyrar. „Ætli maður hafi ekki álpast út í þetta eins og kálfur út í fjóshaug,“ bætir Guðrún við. Hvernig svo sem upphafið var, segja þau að nú sé engin leið til baka; ekki verði aftur snúið eftir að þau hafi lagt út í yfir 10 milljóna króna fjárfest- ingu. „Nú er bara að halda ótrauð áfram,“ segja þau, hvergi bangin. Á nýliðnu Búnaðarþingi fengu þau Guðmundur og Guðrún landbún- aðarverðlaun 2009 fyrir dugnað, framtakssemi og nýsköpun í land- búnaði. „Í Holtseli hefur verið sýnt fram á að hægt er að reka hefð- bundinn landbúnað á snyrtilegan og jákvæðan hátt, bæði gagnvart neyt- andanum, náttúrunni og dýrunum og að hægt er að vinna eftirsótta hágæða vöru úr íslensku hráefni og skapa ný störf á atvinnusvæði sem, eins og önnur, hefur þörf fyrir nýsköpun,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra þegar hann afhenti þeim hjónum viðurkenninguna. Nær 100 ára samfelld búseta Afi og amma Guðrúnar, þau Guðrún Leósdóttir og Eggert Jónsson, hófu búskap á Holtseli vorið 1911. Foreldrar hennar, Svanhildur Eggertsdóttir og Egill Halldórsson, tóku við jörðinni og bjuggu þar til ársins 1980, þannig að brátt verður liðin öld frá því búseta ættarinn- ar á jörðinni hófst. Þau Guðrún og Guðmundur búa nú á Holtseli með um 50 kýr sem gefa af sér um 300 þúsund lítra af mjólk á ári. Þá stunda þau kornrækt og stefna að því að auka hana enn frekar, auk þess að rækta skjólbelti af miklum móð með það að markmiði að auka skjól fyrir gripi sína. Nýlega er lokið umfangsmiklum breytingum á fjósi og hlöðu heima á bænum, settir voru upp legubásar fyrir kýrnar, hlöðunni breytt í gjafaaðstöðu og settir upp legubásar fyrir geldneyti. Dýnur eru í legubásunum og þær eru með kodda fyrir kýrnar, gúmmí- dúkur er á gólfi og heilfóðurvagn er til staðar sem blandar fóðrið og matar færiband sem skammt- ar hverri hjörð fyrir sig. Blandað er saman hálmi, rýgresi, byggi og ertublöndu, melassa, kjarnfóðri og öðru sem til þarf í gott heilfóður og er Holtselsbúið trúlega eitt af þeim fyrstu til að blanda og gefa heilfóð- ur. Heilmikið umstang kringum ísgerðina Nú á síðari árum er búið að líkind- um þekktast fyrir framleiðslu og sölu á rjómaís sem gengur undir nafninu Holtsels-Hnoss. „Það er heilmikið umstang í kringum ísgerðina, mörg handtökin, en við gerum allt sjálf. Ísinn er auðvit- að búinn til í vélinni, en það sem á eftir kemur er allt handavinna. Svo þarf að panta vörur, umbúð- ir og fleira, sinna bókhaldinu og halda utan um þetta allt saman, ísgerðin sjálf er minnsta málið,“ segir Guðrún. Hún nefnir að við uppbygginguna hafi verið haft náið samráð við framkvæmda- stjóra Heilbrigðiseftirlitsins á Norðurlandi eystra, sem gefið hafi mörg góð ráð um hvernig best væri að standa að málum. „Það var ómetanlegt,“ segir Guðrún. Í fyrstu stóð bara til að búa til ísinn og selja hann í verslunum, en ekki leið á löngu þar til fólk var farið að vappa á hlaðinu og falast eftir ís til kaups. Nýsköpun Holtselshjónanna spurðist hratt út og æ fleiri gerðu sér ferð heim á bæ, „þannig að við sáum ekki annan kost í stöðunni en að útbúa einhverja aðstöðu til að taka á móti fólki, þannig hefur þetta undið upp á sig og ómögulegt að segja fyrir um hvar þetta endar,“ segir Guðmundur. Endalaust hægt að prófa sig áfram með bragðtegundir Fjölbreytnin er mikil; hægt er að velja á milli um 400 mismunandi uppskrifta, en raunar er það hug- myndaflugið sem ræður för eins og best sést á því að í fyrrasumar bjuggu þau til ís með hundasúru- bragði. „Tengdamamma var send út að tína hundasúrur, við próf- uðum þetta og sumum þótti ís með slíku bragði bara góður,“ segir Guðmundur. Þá hafa margs konar séróskir borist, m.a. í tengslum við brúðkaup, þegar fólk biður um ákveðna liti og bragð af ísnum. „Við reynum hvað við getum að koma til móts við óskir fólks,“ segir Guðrún. Þá má nefna að ís úr bjórnum Kalda, sem fram- leiddur er hjá Bruggsmiðjunni á Árskógsströnd, er vinsæll og hið sama má segja um ís fyrir sykur- sjúka. Nýlega prófuðu þau að búa til ís með kókos og rabarbara og seldist hann sömuleiðis vel. „Það er endalaust hægt að prófa sig áfram og möguleikarnir eru fjölmargir. Þeim eru engin takmörk sett, það er bara hugmyndaflugið sem ræður,“ segja þau Guðmundur og Guðrún. Ánægð með viðtökurnar Þau eru ánægð með viðtökurnar, en segja að vissulega hafi efnahags- ástandið sett sitt strik í reikninginn, ísinn sé munaðarvara og kosti pen- inga. „Þetta er auðvitað vara sem fólk getur verið án,“ segir Guðrún, en samdráttur hefur þó ekki verið jafn mikill og þau kannski bjugg- ust við. Þannig hefur sala í lands- byggðarverslunum Samkaupa, sem selja ísinn, ekki dregist saman, slíkt hefur frekar gerst á höfuðborg- arsvæðinu. „Það er alltaf góð sala í Melabúðinni og við eigum mikil og góð viðskipti við hana. Hingað koma líka á sumrin margir úr hópi viðskiptavina búðarinnar til að for- vitnast um uppruna íssins og það er mjög gaman,“ segir Guðrún. Holtselsbúið er aðili að sam- tökunum Beint frá býli og má segja að þau hafi að nokkru leyti rutt brautina. „Guðmundur hefur mjög gaman af því að stimpast við kerfið og greiða úr alls konar flækjum og reglugerðum,“ segir Guðrún, en Holtsel er líklega fyrsta býlið á landinu til að selja afurðir úr mjólk beint úr fjósi allar götur frá því Korpúlfsstaðabúið var lagt niður fyrir margt löngu. Undanfarin misseri hafa svo fjölmargir fylgt í fótsporin og selja afurðir af ýmsu tagi sem búnar eru til heima á býli. MÞÞ Guðrún og Guðmundur Jón í Holtseli í Eyjafjarðarsveit hlutu landbúnaðarverðlaunin 2009 „Ætli maður hafi ekki álpast út í þetta eins og kálfur út í fjóshaug!“ Guðrún Egilsdóttir og Guðmundur Jón Guðmundsson, bændur í Holtseli, í kaffistofu og ísbar sínum á millilofti ofan við fjósið á bænum. Á milli áranna 2007 og 2008 jukust gestakomur um helming og þau eiga von á fjölda gesta á komandi sumri. Hægt er að velja um yfir 400 tegundir af bragðefnum í ísinn Holtsels-Hnoss, en raunar er það bara hugmyndaflugið sem ræður. Hér hugar Guðmundur Jón að bragðefnunum uppi í hillu. Guðrún blaðar í uppskriftum. Í fjósinu eru um 50 kýr, sem gefa rjómann í hinn ljúffenga ís. Enn sigrar Eyjólfur Keppt var í fimmgangi í Meist- aradeild VÍS í hestaíþróttum sl. fimmtudag. Fjöldi góðra hesta var skráður til leiks og ljóst að um spennandi keppni yrði að ræða. Sýningar tókust þó misvel og einhverjir náðu ekki að klára keppnina eins og þeir höfðu vonast til. Eftir forkeppni var Daníel Jóns- son með Tón frá Ólafsbergi efstur og töldu margir hann mjög sigur- stranglegan en Eyjólfur Þorsteins- son sem hefur leitt stigakeppni deildarinnar var ekki á þeim bux- unum og gerði hann sér lítið fyrir og sigraði í B-úrslitum og vann sér þátttökurétt í A-úrslitum þar sem hann vann svo heildarkeppn- ina. Eyjólfur reið hestinum Ögra frá Baldurshaga og voru þeir vel að sigrinum komnir enda sóttu þeir stanslaust á allt til enda. Staða Eyjólfs í stigakeppninni er sterk, en hann trónir á toppnum með 41 stig og næstur honum kemur svo Sigurbjörn Bárðarson með 30 stig. Í liðakeppninni stendur lið Málningar efst með 198 stig, en næst kemur lið Líflands með 182 stig. Næsta keppni í mótaröðinni mun fara fram að Ármóti á sumar- daginn fyrsta og þá verður keppt í skeiðgreinum auk þess sem boðið verður upp á stóðhestakynningu. HGG Eyjólfur Þorsteinsson og Ögri frá Baldurshaga. Ljósm.: ÖK

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.