Bændablaðið - 08.04.2009, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 08.04.2009, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | miðvikudagur 8. apríl 2009 Líf og starf Af umræðunni að dæma mætti ætla að salmonella væri ekki útbreitt vandamál hér á landi. Það er rétt að flestu leyti, hér hefur ekki komið upp alvar- legur faraldur í fólki frá árinu 2000. Hins vegar komu upp þrjú nokkuð alvarleg tilvik á árinu 2008 þar sem dýr áttu í hlut, tvö þeirra í Hvalfirði þar sem folöld og alifuglar urðu fyrir barðinu á smiti og það þriðja í Mosfellsbæ sem fjallað var um í næstsíðasta tölublaði Bændablaðsins en þar féllu 25 hross sem höfðu komist í vatn sem salmonellusmit greind- ist í. Þessi tilvik ættu að verða okkur áminning um að vaka á verðin- um því eins og nýleg dæmi frá Bandaríkjunum, Kanada og Dan- mörku sýna getur salmonellan birst þar sem hún ætti alls ekki að þrífast. Í Bandaríkjunum og Kan- ada kom upp faraldur sem rakinn var til hnetusmjörsframleiðand- ans PCA en þar sýktist á sjötta hundrað manns og af þeim dóu níu. Framleiðsla þessa fyrirtæk- is er ekki á markaði hér á landi. Í Danmörku hafa sóttvarnaryfirvöld barist mánuðum saman við að finna uppruna salmonellusmits sem hefur lagt fleiri hundruð manns í rúmið og fellt níu. Sú leit hefur enn ekki borið árangur, en grunurinn hefur einkum beinst að svínakjöti, ekki síst vegna þess að smitið nær til allra aldurs- og þjóðfélagshópa nema múslima. Fóðrið liggur undir grun Á fræðslufundi sem haldinn var hjá Matvælastofnun ekki alls fyrir löngu var greint frá stöðu þess- ara mála hér á landi. Þar kom fram að þótt smit í fólki af innlend- um ástæðum hafi verið í algeru lágmarki (5 af hverjum 100.000 íbúum árið 2007) frá aldamótum varð salmonellu vart í nokkrum alifugla- og svínabúum á árinu sem leið. Ekki varð vart við neitt smit í sýnum sem tekin voru fram- an af ári, en í ágúst fóru svínabú að falla í flokki vegna smits sem komst hæst í tæplega 5% af teknum sýnum. Gripið var til ráðstafana og er þetta smit nú að fjara út. Þá varð að innkalla einn sláturhóp frá kjúk- lingabúi í byrjun mars, alls tæplega 10.000 kjúklinga, vegna gruns um salmonellu. Sigurborg Daðadóttir dýralæknir og gæðastjóri hjá Matvælastofnun sagði í viðtali við Bændablaðið að uppruni salmonellunnar í þess- um síðastnefndu dæmum væri enn óviss, en þó beindist grunurinn helst að því að smitið hafi borist með fóðri. „Eftirlit með fóðri er að mestu leyti í höndum fóðurinnflytjenda. Þeir taka sýni við löndun á lausu fóðri. Sýnin eru tekin úr ryksíum á dælunum og er skipt um síur þegar skipt er um fóðurtegund. Matvælastofnun tekur svo sýni ef tilefni þykir til þess og það var gert sl. sumar,“ sagði Sigurborg. Smitleiðirnar eru margar Hún bætti því við að varnir í fóður- fyrirtækjunum sjálfum væru mis- munandi eftir því hvers konar fóður ætti í hlut. „Fóður sem ætlað er nautgripum og alifuglum er hitað upp í 82°C þegar það er kögglað en það á að nægja til að drepa salmon- ellu. Svínafóður er hins vegar hrá- fóður og því er hætta á að salmon- ella berist með því. Bændum er ráðlagt að blanda sýru í fóðrið en hún veldur því að salmonellan á erfiðara með að fjölga sér í melt- ingarvegi svínanna.“ Smitleiðir geta verið margar. Sigurborg benti á að aðstæður eins og verið hafa á heimsmarkaði með fóður þar sem verð hefur hækkað mikið og framboð dregist saman gætu komið niður á gæðum fóð- ursins. Sýnataka við löndun er alls ekki óbrigðul svo þar getur mengað korn sloppið í gegn. Í flutningum getur smit fundið sér leið, svo sem ef ekki er gætt fyllsta hreinlætis þegar skipt er um farma á bílum eða við sótthreinsun dælubúnaðar. Svo gæti orðið krosssmit ef hita- meðhöndlað fóður lendir óvart í sílói sem áður geymdi hráfóður. Loks getur skapast smithætta ef bændur spara við sig sýruna í fóðr- ið, en slíkt gæti verið freistandi vegna kostnaðar og vegna þess að þeim er ekki skylt að nota sýru. Eftirlitið hert En þrátt fyrir þessi dæmi um salm- onellusmit sem upp hafa komið að undanförnu er ástand sóttvarna hér á landi mjög gott og stenst fyllilega samanburð við þau lönd Evrópu þar sem ástandið er best, það er að segja Noreg, Svíþjóð og Finnland. Það má þakka því eftirliti sem haft er með öllu framleiðsluferlinu. Að sögn Sigurborgar er verið að herða það, breyta eftirlitinu á þann hátt að meiri sýnataka verður framar í fæðukeðjunni en verið hefur og tengist það innleiðingu nýrrar mat- vælalöggjafar. Samkvæmt henni er hægt að sækja um viðbótartrygg- ingu gagnvart innflutningi á hráu kjöti frá Evrópulöndum. „Til þess að fá slíka tryggingu þurfum við að geta sýnt fram á það með vísindalegum hætti að smit hafi verið undir 1% á öllum stigum framleiðslunnar samfleytt í tvö ár. Hvað svínin varðar hefur ástandið verið mjög gott en þau fóru þó í einu prófi upp fyrir 1% í fyrrasum- ar. Í svínaræktinni var tekið upp nýtt kerfi árið 2006. Samkvæmt því var tekið upp kjötsafapróf eftir slátrun þar sem leitað var að mót- efnum sem dýrið kann að hafa myndað gegn salmonellu. Í öðru lagi eru tekin stroksýni af skrokk- unum áður en þeir fara í vinnslu og á markað. Í þriðja lagi eru tekin saursýni í hverju búi einu sinni á ári. Þar er verið að leita svara við því hvaða afbrigði bakteríunnar er á viðkomandi búi. Salmonella er nefnilega alls staðar í náttúrunni, hættan af henni skapast hins vegar ef henni fer að fjölga úr hófi. Það eru til þúsundir afbrigða af salmonellu, en af þeim eru nokkur skæðari en önnur. Þess vegna er mikilvægt að gera rann- sóknir á erfðaefni salmonellunnar til þess að greina hvaða afbrigði eru á ferðinni. Evrópusambandið tekur mið af því að tvö afbrigði, Salmonella enteritidis og Salmon- ella typhimurium, valdi 80% sýk- inga í fólki og þess vegna skuli eingöngu leita að þeim í afurðum. Á Norðurlöndunum er viðhorfið hins vegar það að öll salmonella sé hættuleg fólki og því þurfi að leita að öllum afbrigðum hennar og það er reyndar forsenda fyrir því að fá fyrrnefnda viðbótartryggingu gagn- vart innflutningi á hráu kjöti,“ segir Sigurborg. Nýtt kerfi í alifuglaræktinni Ástandið í alifuglaræktinni er einn- ig mjög gott og hefur verið það frá því átak hófst árið 1992 til að útrýma salmonellu úr greininni. „Fyrir þann tíma var algengt að 20-25% kjúklinga væru innkallaðir mengaðir en nú hefur þetta hlutfall verið undir 1% í tólf ár samfleytt. Þar var nýtt eftirlitskerfi tekið í notkun 1. nóvember 2008 til þess að undirbúa okkur fyrir matvæla- lögin. Við höfum lengi haft gott eft- irlit með sláturfuglunum en erum að auka eftirlitið með stofnfuglum og varphænum. Nú er fylgst með stofnfuglunum frá fæðingu og í uppeldinu og auk þess tekin sýni á tveggja vikna fresti meðan þeir eru að framleiða frjóvguð egg. Hjá varphænunum eru nú tekin sýni á fimmtán vikna fresti meðan á varpi stendur. Sýnataka hefur verið gerð mark- vissari en áður en hún er eftir sem áður í höndum bænda og hins opin- bera. Það vildi vera misbrestur á sýnatökumnni í varphænum en nú getum við gert kröfu um að sýna- taka úr sláturfuglum fyrir slátrun sé mjög skilvirk, að öðrum kosti fá bændur ekki slátrað. Við tökum sýni af hálsaskinni eldisfuglanna við slátrun áður en þeir fara á markað. Það tekur fimm daga að rækta sýnin, en ef eitthvað finnst eru afurðir viðkomandi sláturhóps innkallaðar, þær hitameðhöndlaðar eða þeim fargað. Nú bera allir slát- urfuglar rekjanleikanúmer svo það er auðvelt að kalla inn tiltekinn hóp úr tilteknu húsi,“ sagði Sigurborg og bætti því við að hún væri von- góð um að þetta nýja eftirlitskerfi nægði til þess að Ísland fengi við- bótartryggingu. Hún lauk máli sínu á því að ítreka að salmonella væri víða í umhverfi okkar og þess vegna þyrfti sífellt að brýna fyrir fólki að vera á varðbergi gagnvart henni. „Þar skiptir mestu að gæta að smitvörnum, svo sem að nota ekki sömu áhöld í hrátt kjöt og soðið eða steikt. Sé kjöt vel matreitt á hættan að vera hverfandi, en ef við notum sama hnífinn til að skera hrátt kjöt og salat bjóðum við hættunni heim,“ segir Sigurborg Daðadóttir gæðastjóri Matvælastofnunar. –ÞH Salmonella greindist í nokkrum tilvikum á síðasta ári „Eftirlitið hefur komið í veg fyrir faraldra“ segir Sigurborg Daðadóttir gæðastjóri hjá Matvælastofnun Dularfull sótt hefur stungið sér niður á þýskum og belgískum kúabúum og lagt yfir 100 kálfa að velli. Um það bil tvö ár eru síðan fyrstu kálfarnir féllu úr þessari sótt en dýralæknar standa enn ráðþrota gagnvart henni. Ýmsar kenningar eru á lofti um orsakir sjúkdómsins en engin þeirra hefur enn reynst standast nánari skoðun. Sóttin herjar á kálfana rétt eftir burð og lýsir sér heldur óhugn- anlega. Tveggja til þriggja vikna gamlir kálfar byrja skyndilega að „svitna blóði“, þeim blæðir út um heila húð, svo fá þeir hita og drep- ast yfirleitt eftir örfáar klukku- stundir, oft eftir að hafa liðið miklar kvalir. Þegar hafa verið skráð yfir 100 tilfelli í Þýskalandi, flest þeirra í Bæjaralandi, en einn- ig hafa einhver tilvik verið skráð í Belgíu. Óttast er að um mun fleiri tilvik sé að ræða þar sem bændur hafa ekki hirt að tilkynna um sjúk- dóminn. Skýringum vísað á bug Dýralæknar eru slegnir óhug yfir þessum sjúkdómi sem þeir hafa enga skýringu á. Við krufningu hafa komið í ljós miklar innri blæðingar. Auk þess er beinmerg- ur kálfanna skaddaður og hafa dýralæknar lýst honum þannig að hann sé hlaupkenndur. Þá virðist vanta storknunarefni í blóðið og hvítu blóðkornin eru talsvert færri en eðlilegt getur talist. En þótt birtingarform sjúk- dómsins sé ljóst eru orsakir hans enn á huldu. Bændur hafa að sjálf- sögðu velt vöngum yfir þessu og sett fram ýmsar kenningar. Þær útbreiddustu eru að kenna um erfðabreyttu fóðri og bólusetning- um, svo sem gegn sjúkdómnum blátungu, en þær hófust um svip- að leyti og sjúkdómsins varð fyrst vart. Rannsóknir hafa þó sýnt að mæður sumra kálfanna sem dráp- ust höfðu ekki verið bólusettar gegn blátungu. Dýralæknar hafa líka útilokað erfðabreytt fóður því kálfar hafa drepist á lífrænum býlum þar sem ekkert erfðabreytt fóður er notað. Sama máli gegnir um erfðabreyt- ingar af völdum kynbóta því kálf- arnir sem vitað er um tilheyra ekki færri en þremur kúakynjum. Þá hafa þeir útilokað bakteríur eða veirur því sjúkdómurinn virðist ekki smitast milli dýra. Hvað er í broddinum? Það er einkum tvennt sem vís- indamenn beina sjónum sínum að um þessar mundir. Annars vegar er það bólusetning gegn magaveiki í nautgripum sem kall- ast BVD – Bovine Viral Diarrhea. Sú veiki getur birst með svipuðum hætti og þessi óþekkta kálfasótt en málið er að ekki er vaninn að sprauta kálfa gegn henni. Hún gæti þó hugsanlega borist frá for- eldrum kálfsins. Hins vegar er það broddurinn sem dýralæknar skoða. Kálfarnir sýna engin einkenni um sóttina þegar þeir koma í heiminn en svo er þeim gefinn broddur á fyrstu klukkutímunum. Hugsanlega gætu leynst í broddinum einhverj- ar leifar af mótefnum sem ráðast á beinmerginn og eyðileggja hann. Um þetta eru þó engar sannan- ir, en nú ætla þýsk dýralæknayfir- völd að hefja markvissar prófanir og rannsóknir á mjólk og blóði úr kúm og kálfum í því skyni að varpa ljósi á sjúkdóminn. –ÞH/Der Spiegel Dularfull kálfasótt í Þýskalandi Stjórn Ístex hf. Greiðslu fyrir vetrarull og snoð flýtt Á stjórnarfundi Ístex hf. sem haldinn var 3. apríl sl. var ákveðið að fyrri greiðsla eða 70% af upphæð afreiknings verði sem hér segir: Ull sem skráð var í mars verður greidd 1. maí og ull sem skráð er í apríl verður greidd 1. júní. F.h. stjórnar Ístex hf. Guðjón Kristinsson Sigurborg Daðadóttir gæðastjóri fyrir utan höfuðstöðvar Matvæla- stofnunar á Selfossi. „Við höfum verið að herða eftirlitið til þess að mæta kröfum nýrrar matvælalög- gjafar, en þar verður heimild til þess að sækja um viðbótartrygg- ingu vegna salmonellu við innflutn- ing á hráu kjöti.“

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.