Fréttablaðið - 20.09.2012, Síða 25
FIMMTUDAGUR 20. september 2012 25
Til er svolítil saga um gamla vörubílsökumanninn sem var
blindur á hægra auga en taldi
sig með öruggustu ökumönn-
um (kannski var hann það, þrátt
fyrir allt). Aðspurður um ástæð-
una sagði hann að það væri hægri
umferð og hann sæi vel til allra
sem óku á móti bílnum hans.
Þegar kemur að umhverfismál-
um norðan við heimskautsbaug er
líkt og margir hagi sér eða hugsi
eins og sá gamli. Horfa með öðru
auganu á hluta sjónsviðsins.
Í ár er ástand stóru íshellunn-
ar á kolli jarðar verra en nokkru
sinni fyrr á undanförnum öldum.
Hraðari bráðnun en flesta sér-
fræðinga óraði fyrir veldur því
að endurkast hitageislunar á
risastóru svæði minnkar ótæpi-
lega á ársgrunni. Vöxtur og við-
gangur hafíss á norðurslóðum
er ein helsta undirstaðan undir
sæmilega stöðugu og fremur
svölu loftslagi í tempraða belt-
inu og kuldabeltinu. Hörfi hafís
að mestu, nema yfir bláveturinn,
hefur það miklar en ófyrirsjáan-
legar afleiðingar á veðurfar jarð-
ar. Ásamt hraðri bráðnun jökla og
breyttu flæði ferskvatns til haf-
anna er sennilegt að of lítil haf-
íshella valdi því að hafstraumar
breytast með álíka ófyrirsjáan-
legum afleiðingum.
Hvað er gert? Losun gróður-
húsalofttegunda er aukin, áfram
vegið grimmt að gróðri jarðar,
einkum trjágróðri sem bindur vel
koltvísýring, og stefnt að aukinni
leit að kolefniseldsneyti í jarð-
skorpunni, einmitt á norðurslóð-
um. Þjóðunum er um leið sagt að
aðlaga sig að nýjum aðstæðum og
takast á við vanda sem mun vaxa,
t.d. vegna hækkandi sjávarborðs.
Hvað drífur þessa stefnu og til-
heyrandi aðgerðir áfram? Skyn-
semi? Neyð? Nýsköpun? Hagvöxt-
ur? Býður einhver fram réttari
hugtök?
Auðvelt er að horfa með aðdáun
á allt sem vinnst með norðlægri
málm-, olíu- og gasvinnslu en
horfa ekki á neikvæðu afleið-
ingarnar; treysta blinda auganu.
Það geta komið margar krónur í
íslenska kassa þegar nýjar sigl-
ingaleiðir opnast, rándýr olía
tekur ef til vill að flæða við erf-
iðustu aðstæður og námagröftur
eykst í hæsta norðri. Ætli þær
dugi til að greiða fyrir mótvæg-
isaðgerðir vegna áflæðis sjávar,
vegna óvissra breytinga á lífrík-
inu og tjóns af veðuröfgum? Þátt-
taka okkar í kapphlaupinu um
Nýja Norðrið er næstum ósjálf-
ráð. Ég tel, á Degi íslenskrar nátt-
úru, að löngu sé kominn tími til að
skoða þessa framtíð með báðum
augum og leita öfgalaust ábyrgra
svara við nokkrum áleitnustu
spurningum næstu ára.
Með báðum
augum – eða
bara öðru?
Norðurslóðir
Ari Trausti
Guðmundsson
áhugamaður um
norðurslóðir
Mannfólkið sem jörðina byggir er farið að umbylta henni með
þvílíkum hætti að tekið er að ræða
um tímabilið frá 1750 sem upp-
haf nýs jarðsöguskeiðs: Manntíma
(e. anthropocene). Þetta var uppi-
staða aðalerinda á alþjóðaráðstefnu
landfræðinga, sem haldin var í lok
ágúst í Köln í Þýskalandi.
Sögu jarðarinnar er skipt í til-
tekin skeið eða aldir, sem flestar
spanna milljónir ára. Á skeiði sem
nefnt er miðlífsöld gengu risaeðlur
til að mynda um jörðina. Endalok
þeirra urðu fyrir um 65 milljónum
ára, með hamförum sem þurrkuðu
um 90% allra þálifandi dýrateg-
unda af yfirborði jarðar. Við tók
nýlífsöld, sem enn stendur. Innan
hennar eru allmörg skemmri tíma-
bil. Siðmenningin hefur að mestu
mótast á tímabili sem kallað er
nútími (e. holocene) og tók við af
ístíma (e. pleistocene) fyrir rúm-
lega 10.000 árum.
Nú er hins vegar svo komið
að rætt er í fullri alvöru og með
veigamiklum vísindarökum að
upp sé runnið nýtt skeið, þar sem
umsvif mannkynsins séu tekin að
valda varanlegum breytingum á líf-
og vistkerfum jarðarinnar allrar.
Þetta eru í raun stórmerkar frétt-
ir. Burtséð frá umræðu um eðli og
umfang þessara breytinga, svo sem
hnattræna hlýnun, þá felst í þessari
hugsun viðurkenning á því að sam-
félög okkar eru ekki aðeins á jörð-
inni heldur með jörðinni. Samfélög
fólks og jörðin eru eitt. Mannlíf og
náttúra verða ekki skilin sundur.
Þetta þýðir að ekki er lengur hægt
að ímynda sér að aðgerðir okkar og
athafnir hafi bara með okkur sjálf
að gera eða mögulega bara nán-
asta umhverfi. Það sem við gerum
mótar jörðina okkar allra.
Þetta má skýra með dæmi.
Ákvörðun íslensks fyrirtækis um
aukin umsvif, tekin á stjórnar-
fundi í ljósi ársfjórðungslegs yfir-
lits yfir rekstur þess, valda því að
einhvers staðar – kannski í Kongó
eða Kostaríku – er meira tekið af
efni úr jörð. Þetta efni er flutt úr
stað og unnið og áhrifanna gætir
um alla jörð. Áhrifin kunna að virð-
ast smávægileg, en þau eru hluti af
flóknu neti tengsla, sem eru hins
vegar oft langt í frá augljós. Þegar
horft er heildstætt á vistkerfi jarð-
ar má sjá að fjöldi fólks á jörðinni,
umsvif þess og þarfir eru farin að
hafa víðtæk og varanleg áhrif á
jörðina sjálfa.
Að við séum eitt með náttúru
og umhverfi eru svo sem ekki
nýjar fréttir. Tengsl fólks og nátt-
úru hafa um langan aldur verið
eitt meginviðfangsefni landfræð-
inga og síðustu áratugi hefur nán-
ast öll umræða í umhverfismálum
hverfst um þetta. Fréttirnar eru
þær að vísindaheimurinn hefur
nú gefið þessu nafn sem setur
athafnir manna í skýrt jarðsögu-
legt samhengi. Maðurinn er orðinn
jarðsögulegt afl. Við lifum í mann-
tímanum.
Manntíminn: Maðurinn sem jarðsögulegt afl
Umhverfismál
Dr. Edward H. Huijbens
landfræðingur og forstöðumaður
Rannsóknamiðstöðvar ferðamála
Dr. Karl Benediktsson
prófessor í landfræði við
Háskóla Íslands