Fréttatíminn - 15.11.2013, Blaðsíða 14
Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins
og Sjálfstæðisflokksins er kveðið á um
stofnun sérstaks ríkisolíufélags. Þó er
skýrt kveðið á um að olíufélag ríkisins eigi
ekki að koma að neinu leyti að neinni olíu-
vinnslu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
lét svo um mælt á atvinnumálaráðstefnu á
Hallormsstað á dögunum að olíuævintýri
á Drekasvæðinu og norðurslóðarmál væru
efst á lista í forgangsröðun ríkisstjórnar-
innar. En að mati forsætisráðherra mun
lánstraust Íslands á alþjóðavettvangi batna
við það eitt að tilburðir séu hafðir í frammi
til að undirbúa leit. Með öðrum orðum:
Undirbúningur fyrir olíuvinnslu, einn
og sér, skapar þá ímynd að fjárhagslegar
framtíðarhorfur landsins séu bjartari og
þar af leiðir að lánstraust er betra á alþjóða-
vettvangi.
Allt þetta hljómar kunnuglega í eyrum
meðal Íslendings sem á fáum árum er orð-
inn sérfræðingur í óáþreifanlegum hliðum
nútíma efnahagskerfis. Loftpeningum skal
dælt í efnahagskerfið svo að heimurinn
halli og fé streymi til Íslands. Til þess arna
á að setja á fót ríkisstofnun sem hefur yfir-
umsjón með framleiðslu lofts sem notað er
í loftpeningana. Eins konar loftstofnun.
Þeim sem kynntu sér áform forsætisráð-
herra um að ganga hart fram í samningum
við erlenda vogunarsjóði og nota féð sem
þannig fengist til að leiðrétta skuldastöðu
heimilanna kemur þetta líklega spánskt
fyrir sjónir. Er ekki ríkisolíufélag frekar
vinstrisinnuð hugmynd?, spyr sennilega
einhver. Kannski rétt er að rifja upp að
Framsóknarflokkurinn á sér rætur í sósíal-
isma, harka í samskiptum við auðvaldsöfl
er frekar vinstrisinnað kosningaloforð og
ríkisstofnun sem ekki er ætlað að gera
neitt, hljómar það ekki svolítið eins og
sovésk pótemkíntjöld?
Hvað sem því líður er rétt að minna á
að olíuvinnsla og loft eiga ekki samleið.
Nánar tiltekið er mannkyninu nauðsyn að
kúvenda í orkumálum sínum ef það ætlar
að lifa af. Um það deila vísindamenn ekki
lengur, hið raunverulega loft hins raun-
verulega loftslags lýgur ekki. Í því sam-
hengi eru „tækifæri“ tvíbent, svo ekki sé
meira sagt. Ofurfellibylurinn sem fór yfir
Filippseyjar á dögunum er að mati fremstu
loftslagsvísindamanna heimsins afleiðing
af loftslagsbreytingum af mannavöldum
og má vænta margra slíkra í framtíðinni.
Þess má vænta að þegar olíufélag ríkis-
ins hefur laðað lánsfé til Íslands verði féð
notað til að leita að olíu í raun og veru því
tæplega verður látið duga að tala upp vænt-
ingar erlendra fjárfesta með loftkenndum
fyrirheitum. Sú leit ein og sér hefur áhrif
á loftslag í heiminum til hins verra. Verði
borað hefur það ekki aðeins eyðileggjandi
áhrif á lífríki sjávar, sem er ein af grunn-
stoðunum að íslensku atvinnulífi, heldur
leggur Ísland lóð á vogarskálar þeirra
skemmdarverka sem gera jörðina mann-
inum óbyggilega.
Mikið væri óskandi að allt velmeinandi
fólk gæti sest niður eitt augnablik, dregið
djúpt andann og hugsað í stað þess að
smíða loftkastala.
Hermann Stefánsson,
rithöfundur
Sætúni 8, 105 Reykjavík. Sími: 531 3300. ritstjórn@frettatiminn.is Ritstjórar: Jónas Haraldsson jonas@frettatiminn.is og Sigríður Dögg
Auðuns dóttir sigridur@frettatiminn.is. Fréttastjóri: Höskuldur Daði Magnússon hdm@frettatiminn.is. Framkvæmda- og auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson valdimar@
frettatiminn.is. Útgáfustjóri: Teitur Jónasson teitur@frettatiminn.is . Fréttatíminn er gefinn út af Morgundegi ehf. og er prentaður í 82.000 eintökum í Landsprenti.
H
Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar sem
tekið hefur til skoðunar ríkisútgjöld með
það að markmiði að hagræða, forgangsraða
og auka skilvirkni stofnana ríkisins hefur
skilað tillögum sínum. Þeirra hafði verið
beðið enda aðkallandi að forgangsraða svo
þau verkefni sem almenn samstaða er um
njóti forgangs, fái hann. Þar ber heilbrigðis-
kerfið hæst. Ágreiningslaust er að þar er
átaks þörf. Samstaða er einnig
um viðhald öflugs mennta-
kerfis. Það eru einkum hag-
ræðingartillögur hópsins sem
horft er til. Þær taka til helstu
þátta rekstrar og allra stærri
þjónustu- og stjórnsýslukerfa
ríkisins. Þar er af nógu að taka
og mörg matarholan enda
áætlað að útgjöld ríkisins nemi
587,1 milljarði króna á næsta
ári. Það er gríðarleg yfirbygg-
ing hjá fámennri þjóð. Víða má
hagræða og verður ekki hjá komist enda er
ríkissjóður svo skuldsettur að vaxtabyrði er
verulega íþyngjandi. Hún er áætluð 85 millj-
arðar króna á yfirstandandi ári.
Lögð er áhersla á kerfisbreytingar fremur
en beinar niðurskurðartillögur. Það er gagn-
legt og stuðlar að varanlegri hagræðingu.
Þegar er unnið að ýmsum hagræðingartil-
lögum í ráðuneytunum en það er á ábyrgð
einstakra ráðherra og ráðuneyta að taka við-
bótartillögur hagræðingarhópsins til skoðun-
ar – og eftir atvikum framkvæma þær. Sama
gildir um Alþingi og stofnanir þess. Umræða
um tillögurnar þarf að fara fram og ekki
munu þær allar ná fram að ganga – enda ekki
hafnar yfir gagnrýni. Réttilega er hins vegar
nefnt að það er ekki nóg að leggja fram góðar
tillögur. Þær þarf að framkvæma.
Meðal helstu áhersluatriða hópsins er
sameining stofnana sem vinna á svipuðu
sviði, svo draga megi úr kostnaði – og að
aðrar sem hægt er að komast af án verði
lagðar niður en lögbundin verkefni þeirra
færð annað. Meginreglan verði að ákvarð-
anir um ný útgjöld takmarkist við það sem
óhjákvæmilegt er – og að ríkið leggi ekki
í framkvæmdir án þess að sýnt sé fram á
rekstrarsparnað eða augljósa samfélagslega
arðsemi. Þá verði unnið skipulega að því að
draga úr ríkisábyrgð, sem varðar Lands-
virkjun, Íbúðalánasjóð og Farice.
Hagræðingarhópurinn leggur til að utan-
ríkisráðherra láti meta þörf fyrir sendiskrif-
stofur, umfang þeirra og kostnað með það
að markmiði að draga úr kostnaði. Þá verði
metið hvort selja megi dýrar sendiráðs-
eignir ytra og finna ódýrari í staðinn. Lítil
þjóð verður að sníða sér stakk eftir vexti.
Eðlilegt er að skoðuð verði gaumgæfilega
tillaga sem snýr að mennta- og menningar-
málaráðherra um að háskólum verði fækkað
með sameiningu eða að samstarf milli þeirra
verði aukið. Þannig nýtist betur það fé sem
lagt er til háskólakerfisins. Sama gildir um
þá tillögu að námsárum fram að háskóla-
námi, þ.e. í grunn- og framhaldsskóla, verði
fækkað. Vinna að því markmiði er raunar
hafin í menntamálaráðuneytinu. Þá leggur
hagræðingarhópurinn til að ýmsar stofn-
anir ráðuneytisins verði sameinaðar sem og
yfirstjórn fjölmargra menningarstofnana,
starfsemi Ríkisútvarpsins endurskoðuð og
Fjölmiðlanefnd lögð niður.
Sama gildir um innanríkisráðuneytið þar
sem tillögur eru meðal annars um fækk-
un lögregluliða og sýslumannsembætta.
Fjölmargar hagræðingartillögur snúa að
fjármála- og efnahagsráðuneytinu, meðal
annars að skoðaðir verði kostir þess að sam-
eina starfsemi embætta ríkisskattstjóra og
tollstjóra og hið sama gildir um Seðlabank-
ann og Fjármálaeftirlitið. Þá er, auk annars,
lagt til að Bankasýsla ríkisins verði lögð
niður og verkefni flutt til fjármálaráðuneytis-
ins. Þá verði stefna mótuð í sölu ríkiseigna.
Hvað félags- og húsnæðismálaráðuneytið
varðar má nefna, auk sameiningar stofnana
og húsnæðislánakerfis án ríkisábyrgðar, til-
lögu um að bóta- og skattkerfið verði byggt
upp með þeim hætti að það borgi sig að vera
á vinnumarkaði. Auk sameiningartillagna
vegna stofnana sem heyra undir sjávarút-
vegs- og landbúnaðarráðuneytið er lagt til að
greiðslum til Bændasamtaka Íslands verði
hætt. Sameining margra atvinnuþróunar-
sjóða er heyra undir iðnaðar- og viðskipta-
ráðherra er lögð til og hið sama gildir um
margar stofnanir umhverfis- og auðlindar-
áðuneytisins.
Hagræðingarhópurinn færir Alþingi og
ríkisstjórn brýn úrlausnarefni svo gera megi
ríkisbúskapinn sjálfbæran til lengri tíma.
Tillögur hagræðingarhóps
Þjóðin sníði sér stakk eftir vexti
Jónas Haraldsson
jonas@frettatiminn.is
Ríkisolíufélag
Loft
Mikið væri
óskandi að allt
velmeinandi
fólk gæti sest
niður eitt
augnablik, dreg-
ið djúpt andann
og hugsað í stað
þess að smíða
loftkastala.
14 viðhorf Helgin 15.-17. nóvember 2013