Bændablaðið - 10.01.2013, Qupperneq 12

Bændablaðið - 10.01.2013, Qupperneq 12
Bændablaðið | Fimmtudagur 10. janúar 201312 Ræktunarfélag um nytjaplöntur er starfandi á Suðurlandi: Unnið að eflingu jarðræktar í landinu – formaður félagsins ræðir um möguleikana í greininni Um haustið 2010 var áhugamanna- félagið Ræktunarfélag um nytja- plöntur á Íslandi stofnað á Selfossi. Finnbogi Magnússon, oft kenndur við Jötunn Vélar, er formaður félagsins en hann er landbúnaðar- tæknifræðingur að mennt auk þess að vera mikill áhugamaður um jarðrækt. Finnbogi segir aðalástæðuna fyrir stofnun félagsins vera mikinn skort á upplýsingum varðandi ræktun og jarðrækt almennt. „Félagsmenn eru rúmlega tuttugu bændur sem hafa mikinn áhuga á jarðrækt og þróun hennar. Við töldum að með því að sameinast í áhugamannafélagi væri mögulegt að deila reynslu og afla upplýsinga á auðveldari hátt en ella og þannig flýta áframhaldandi uppbyggingu ræktunar og jarðræktartækni á Íslandi. Félagsgjald er 50.000 krónur á ári og er það hugsað til að standa undir kostnaði við innlenda ráðgjöf og komu erlendra sérfræðinga. Starfsemin er í þróun og á eftir að eflast á næstu árum en félagið er í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands um úttektir á nýjum tegundum sem félagsmenn eru með í ræktun. Niðurstöður þeirra eru svo skráðar inn í ræktunarskýrslu sem allir félagsmenn fá svo afhenta. Félagið hefur einnig staðið fyrir tveimur námsferðum. Farið var til Noregs þar sem aðaláherslan var lögð á að kynna sér reynslu Norðmanna í ræktun nýrra nytjaplantna og svo til Danmerkur þar sem aðaláherslan var lögð á fræðslu varðandi jarðræktartækni og áhrif mismunandi jarðvinnsluaðferða á uppskeru. Fleiri ferðir eru fyrirhugaðar í framhaldinu enda eru félagsmenn sammála um að mikil þekking safnist í slíkum ferðum. Félagið er jafnframt að kanna möguleika á samstarfi við finnska og danska jarðræktarráðunauta sem munu þá í framhaldinu miðla félagsmönnum af reynslu sinni og þekkingu,“ segir Finnbogi og nefnir í því sambandi að í skoðun sé að halda námskeið í vetur um notkun og umhirðu úðadæla og hjálparefna. Möguleikar jarðræktarinnar hafa talsvert verið í umræðunni að undanförnu. Finnbogi telur að hugarfarsbreyting þurfi að eiga sér stað til að við Íslendingar getum virkilega farið að nýta okkur þá möguleika sem séu til staðar. „Ég tel að möguleikar okkar á sviði jarðræktar séu gríðarlegir og vaxi jafnt og þétt samfara plöntukynbótum og hlýnandi veðurfari. Akkilesarhæll okkar er vantrú okkar á eigin getu og möguleikum ásamt skorti á fjármunum til kynbóta og rannsókna. Staðreyndin er að við eigum mikið af landi sem unnt væri að nýta mun betur en gert er í dag og uppskera nytjaplantna eins og byggs er orðin það mikil að verulegur fjárhagslegur ávinningur felst í slíkri ræktun þegar vel tekst til. Ég er sannfærður um að innan fárra ára muni verða hópur bænda sem stundi jarðrækt sem sína aðalbúgrein og hafi af því góða afkomu, en til að það gangi eftir er nauðsynlegt að við förum að líta á jarðrækt sem alvöru búgrein.“ Kornrækt „Byggið er sú planta sem við erum komin lengst með í ræktun hérlendis. Samt verður að segjast eins og er að okkur vantar enn mikið upp á að fullnýta möguleika okkar þar og þekking okkar og reynsla er langt á eftir öðrum jarðræktarþjóðum þar sem jarðræktarþekking hefur byggst upp í margar kynslóðir,“ segir Finnbogi. „Meðaluppskera byggs hérlendis er í dag um þrjú tonn af þurru korni á hektarann en með aukinni þekkingu á að vera auðveldlega hægt að hækka meðaltalið í allavega fjögur tonn innan fárra ára. En slík uppskeruaukning myndi hafa veruleg áhrif á arðsemi ræktunarinnar en auk þess felast mikil tækifæri í lækkun ýmissa kostnaðarliða tengdri ræktun og uppskeru byggsins. Hafrar hafa verið mjög lítið ræktaðir hérlendis en ná góðum þroska á hlýrri svæðum landsins. Hafrar eru ágætir í sáðskipti með byggi auk þess sem þeir gera minni kröfur til jarðvegs og áburðar og bera minni sjúkdóma en korn. Einnig er fyrirtak að sá höfrum utan með byggökrum þar sem gæsir og álftir líta yfirleitt ekki við höfrum og finna þar af leiðandi ekki byggið. Talsverð eftirspurn er eftir höfrum meðal fóðursala og mikilvægt að við aukum ræktun þeirra til að svara þeirri eftirspurn. Hveiti þarf álíka langan vaxtartíma og hafrar og er því spennandi að kanna betur arðsemi ræktunar hveitis hérlendis. Hveiti hefur verið ræktað í mjög litlum mæli undanfarin ár og ljóst að eftirspurn er eftir miklu magni af vel þroskuðu hveiti.“ Vert að gefa vetrarafbrigðum gaum Finnbogi telur að áhugavert geti verið að skoða ræktun á vetrarafbrigðum hveitis, rúgs og byggs, en þau afbrigði hafa þótt mun vandasamari í ræktun en vorafbrigðin þar sem rysjótt vetrarveður geti verið til vandræða. „Það sem kannski er mest spennandi varðandi ræktun vetrarafbrigðanna er að mögulegt er að þau muni þrífast best á kaldari svæðum landsins þar sem veturnir eru kaldir og snjóþungir og sumrin eru jafnvel of stutt til ræktunar vorafbrigða og geti þannig aukið fjölbreytni ræktunar á þeim svæðum. Sú planta sem ég tel mest spennandi til að prófa í þessu sambandi er vetrarrúgur þar sem hann er harðgerðastur en ræktun hans hefur verið reynd nokkuð norðanlands, en þá mest til beitar snemma að vorinu en ekki til þroska. En þessar tilraunir hafa sýnt að vetrarrúgurinn lifir ágætlega af hinn norðlenska vetur. Vonandi verður unnt að gera tilraunir næsta sumar með sáningu vetrarrúgs til þroska bæði sunnan og norðanlands en síðasta haust var uppskorin einn akur hér sunnanlands með vetrarrúg sem var vel þroskaður og skilaði góðri uppskeru. Kornhálmurinn er síðan kapítuli út af fyrir sig en mér finnst sorglegt að hér séu fluttar inn þúsundir tonna af undirburði á hverju ári sem kostar um 100 krónur á kílóið – á sama tíma og hálmurinn er stórlega vannýttur. Staðreyndin er að ef að hálmurinn er vel þurr og saxaður er þurrkgeta hans svipuð og í sagi. Ef hitameðhöndlun er bætt við eykst þurrkgeta hálmsins upp í að verða tvöföld á við sagið, þar sem hitameðhöndlunin brýtur upp Lignin- húð sem er utan á hálmstráinu og gerir stráið vatnsfráhrindandi. Þar fyrir utan er þurr hálmur fyrirtaks orkugjafi ef hann er brenndur og orkuinnihald hans um 35-40% af orkugildi olíu. Þarna eigum við mikla möguleika sem munu stuðla að aukinni arðsemi kornræktarinnar á komandi árum en forsenda fyrir góðri nýtingu hálmsins er væntanlega að unnt sé að tryggja örugga þurrkun hans. Í því sambandi má nefna að tiltölulega auðvelt og ódýrt er að nýta kornþurrkunaraðstöðu að hluta til þurrkunar hálmsins í rúllunum.“ Nepja og repja „Reynsla undanfarinna tveggja sumra hefur sýnt okkur að ræktun vornepju (systurplanta repju en fljótvaxnari) er vel raunhæf hérlendis á hlýrri svæðum landsins og allar líkur á að fræ uppskera hennar geti orðið um 1,5-2 tonn á hektara sem er sambærilegt við uppskeru í Skandinavíu. Til að þessi ræktun sé vel arðbær er mikilvægt að leita markaða fyrir olíuna í matvælaiðnað s.s. matarolíu ýmiskonar þar sem slík vara er mun verðmætari en olía sem fer t.d. í eldsneyti. Einnig er mikilvægt að hratið nýtist vel sem próteingjafi í fóður og komi í stað innflutts fóðurpróteins. Ef þetta tekst er útlit fyrir fína afkomu í ræktun nepjunnar fyrir þá sem ná tökum á henni en hafa ber í huga að mjög lítil reynsla er af þessari ræktun hérlendis enn sem komið er og því mikið starf fram undan og umtalsverð áhætta við ræktunina. Ræktun vetrarafbrigða repju og nepju hefur einnig verið reynd hérlendis og hefur gengið ágætlega sum árin en rysjótt vetrarveður hefur reynst skeinuhætt í þessu sambandi og dregið mjög úr uppskeru sum árin. Líklega er svipað farið með vetrarafbrigði þessara plantna og ræktun vetrarafbrigða kornsins að bestu skilyrðin hérlendis eru þar sem veturnir eru kaldir og stöðugir. Finnbogi segir að auk þessa séu fjöldi annarra tegunda sem séu áhugaverðar. „Ekki síst eru það tegundir sem unnt er að framleiða lítið magn af en fá mjög gott afurðaverð fyrir. Dæmi um slíka ræktun eru plöntur eins og ertur, kúmen, burnirót, olíulín, gult sinnep, spelt og fleiri – sem vonandi verða prófaðar fyrr en seinna,“ segir hann. Gæðaprótein úr grasi „Nokkuð hefur verið rætt um skort á innlendu gæðapróteini til mjólkurframleiðslu en í dag er það helst fiskimjöl sem uppfyllir þau skilyrði en verð þess er mjög hátt. Í þessu sambandi langar mig að vekja athygli á að prótein úr þurrheyi er mun verðmætara til mjólkurframleiðslu heldur en prótein úr hefðbundnu hálfþurru rúlluheyi, þar sem AAT-gildi þurrheys er mun hærra. Því getur fóðrun á gæða þurrheyi – sem hluti af heimaöfluðu fóðri – dregið mjög úr nauðsyn þess að kaupa kjarnfóðurblöndur með fiskimjöli og í staðinn gert mögulegt að nota mun ódýrari blöndur með soja eða repjupróteini og lægra próteininnihaldi. Verðmæti þurrheysins vex enn meira í þessu sambandi ef Rauðsmári er í heyinu. Nú geri ég ekki ráð fyrir að menn telji hagkvæmt að hverfa aftur til þurrkunar á lausu heyi í stórum stíl. En eins og áður var nefnt varðandi þurrkun hálmsins er vel raunhæft að þurrka rúlluhey á einfaldan hátt þar sem fyrir er kornþurrkun. Ég hvet menn eindregið til að skoða þetta vandlega og er sannfærður um að við vissar aðstæður geti mjólkurframleiðendur lækkað fóðrunarkostnað sinn umtalsvert á hvern framleiddan lítra með notkun góðs þurrheys og byggs. Þar fyrir utan tel ég mikil tækifæri liggja ónýtt í hefðbundinni gras- og túnrækt, bæði hvað varðar notkun nýrra grastegunda og smára en einnig varðandi markvissari endurræktun og aukna uppskeru af þeim túnum sem nýtt eru. En með síhækkandi áburðarverði verður mikilvægara að hámarka uppskeru þeirra túna sem nýtt eru til beitar og fóðuröflunar til að lækka kostnað á kíló heimaaflaðs gróffóðurs.“ Markaður með korn er lykilatriði til vaxtar fyrir greinina Á dögunum var greint frá fundi Kornræktarfélags Suðurlands þar sem farið var yfir sóknarmöguleika kornræktarinnar og ræddar hugmyndir um stóra kornþurrkstöð fyrir bændur á Suðurlandi. Finnbogi segir áhugavert að sjá hvort bygging slíkrar stöðvar verði talin arðsöm og hvort slík stöð geti þurrkað korn á lægra verði en hjá minni stöðvunum sem bændur reki nú þegar heima hjá sér. „Aftur á móti er alveg víst að það er lykilatriði til að kornrækt geti vaxið verulega á komandi árum að til verði markaður með kornið þar sem bændur og fóðursalar geta selt og keypt korn eftir þörfum. Með slíkum markaði opnast möguleikar fyrir bændur í hefðbundinni framleiðslu til að auka ræktun sína umfram áætlaða eigin þörf og jafnframt opnast möguleikar fyrir landeigendur sem ekki geta nýtt kornið sjálfir til að hefja ræktun byggs á sínum jörðum.“ Fjölgun ferðamanna og matvælaframleiðslan En það er ekki einungis jarðrækt sem Finnbogi hefur skoðanir á. Hann er með ákveðnar hugmyndir um það hvernig við getum nýtt okkur vaxandi ferðamannafjölda til landsins til að sækja fram almennt í matvælaframleiðslu. „Ég held að við séum engan veginn að nýta okkur þá miklu möguleika sem fjölgun ferðamanna færir okkur. Staðreyndin er að ferðamenn sem koma til landsins í dag eru um 650.000 á ári og fjölgar um 100-150.000 á ári. Ef hver þessara 100-150 þúsund ferðamanna sem koma hingað til viðbótar árlega á næstu árum neytir ígildi fimm lítra af hrámjólk (í formi ýmiss konar mjólkurvara) meðan þeir staldra við hérlendis erum við að tala um 500- 750 þúsund lítra í aukinni framleiðslu á ári sem væri þá árleg hækkun greiðslumarks upp á 0,4-0,6% á ári. Ef við horfum á þetta á sama hátt frá sjónarhóli kjötframleiðslunnar getum við gefið okkur að ef hver ferðamaður neytir eins kílógramms af úrbeinuðu kjöti meðan þeir stoppa hér þá þarf að auka kjötframleiðslu um tvö til þrjú hundruð tonn árlega. Sama gildir síðan um grænmeti og önnur matvæli. Í samtali sem ég átti við góðan kunningja minn í bændastétt fyrir skömmu fæddist sú hugmynd hvort ekki væri unnt að koma upp aðstöðu í komusal Leifsstöðvar þar sem fram færi allsherjar kynning með smakkprufum á íslenskum matvælum jafnt landbúnaðarvörum og fiskafurðum alla daga ársins frá morgni til kvölds. Þannig fengju erlendir ferðamenn tækifæri til að kynnast mismunandi vörum og læra að þekkja þær og söguna á bak við þær á meðan þeir bíða eftir töskunum. Ég er sannfærður um að slík aðstaða myndi auka neyslu innlendra matvæla umtalsvert auk þess sem slíkt framtak myndi ýta mjög undir sterka ímynd íslenskrar framleiðslu sem nýtist einnig við markaðssetningu og útflutning í framtíðinni.“ /smh Finnbogi Magnússon, landbúnaðar- tæknifræðingur og áhugamaður um jarðrækt. Ekki er alltaf þörf á miklum fjárfestingum við jarðræktina. Hér sýnir jarð- ræktarbóndi í Danmörku hópnum hvernig má raðhreinsa illgresi í kornakri með einföldum tækjum. Mynd / Ólafur Eggertsson H Á SK Ó LI LÍ FS O G L A N D S HÁSKÓLA- NÁM Búvísindi Hestafræði Náttúru- og umhverfis- vísindi Skógfræði og landgræðsla Umhverfis- skipulag STARFS- MENNTA- NÁM á framhalds- skólastigi Búfræði www.lbhi.is

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.