Bændablaðið - 24.04.2013, Side 8

Bændablaðið - 24.04.2013, Side 8
Bændablaðið | Miðvikudagur 24. apríl 20138 Fréttir Jón Þórarinsson á Hnúki í Skíðadal í Dalvíkurbyggð segist ekki muna eftir jafn rosalegri snjóatíð og í vetur. Enn sé allt á bólakafi og ekki nokkur einasti möguleiki að koma fé út úr húsum, en sauðburður er að víða hefjast þessa dagana. „Þetta er svakalegt. Þó að við höfum oft séð mikinn snjó fram á vor hefur það aldrei verið eins og nú. Þetta er bara samansafnaður gaddur frá því í septemberáhlaupinu og síðan í framhaldi af því meira og minna í allan vetur. Það tók að vísu upp á láglendi og túnum eftir septemberhvellinn en aldrei af fjöllunum. Við munum aldrei nokkurn tímann eftir því hér að það geri svo mikla snjóa strax í október að við þyrftum þá að taka hross á fulla gjöf og hafa á gjöf allar götur síðan,“ segir Jón. Þurfa vélskóflur til að grafa niður á heyrúllurnar – Eru menn ekki orðnir heylitlir á þessum slóðum? „Jú, og þetta lítur alls ekki vel út. Þá mun það taka svakalegan tíma fyrir þennan snjó að taka upp og engin vísbending um hlýindi í kortunum. Þetta er orðinn jökull. Við reyndum að leita að rúllustæðunum með beittum broddstöfum en það er ekki hægt að stinga þeim niður í gegnum snjóinn. Þetta er svo samanbarið að það hefur ekkert dugað til að vinna á þessu nema gröfur.“ Áhyggjur af kali í túnum og girðingum –Hvað heldur þú þá með túnin, eru þau ekki farin að skemmast af kali? „Það lítur alls ekki vel út með túnin á þessu svæði. Menn eru orðnir mjög svartsýnir og sauðburður að bresta á næstu daga. Þá er reynsla okkar sú að afföll við sauðburð eru mest þegar ekki er hægt að koma lambám úr húsi. Þá hafa menn líka mjög miklar áhyggjur af ástandi girðinga. Það er því ekki mjög mikil bjartsýni ríkjandi hér enda rekur hvert áfallið annað. Sækja hey landshorna á milli Vegna þurrka í fyrrasumar heyjuðum við með daprara móti í haust. Bændur hér eru því búnir að kaupa mikið af heyjum og ekki sér fyrir endann á því. Fyrst í vetur var hægt að fá hey hér innan héraðs. Síðan hafa menn verið að sækja hey í Borgarfjörð og alveg í Rangárvallasýslur. Það er mikill kostnaður sem fylgir því að flytja hey svona landshornanna á milli og bændur eru farnir að velta vöngum yfir því hvernig þróunin verði næstu mánuðina. Heyrúlla sem er verið að flytja úr Borgarfirði kostar hingað komin um 11 þúsund krónur. Brugðist við með fækkun gripa Vegna þess að menn voru með hey í minnsta móti í haust fóru þeir strax að slátra hér hestum og nautgripum. Hér er t.d. búið að slátra meira af hestum en nokkur mann eftir. Síðan í nóvember er búið að senda héðan úr sveitarfélaginu á milli 70 og 80 hross til slátrunar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Þá hafa menn verið að grisja hjá sér nautgripina líka eins og þeir hafa getað. Það er því ekki ríkjandi hér nein rosaleg bjartsýni.“ Farið að reyna á sálartetrið Jón segir að ástandið sé farið að reyna mjög á sálartetrið hjá mörgum. Þá sé sauðburðurinn á fyrstu bæj- unum að byrja í þessari viku og fari á fulla ferð fyrstu dagana í maí. „Það er ekki fræðilegur möguleiki að setja fé út því það eru margra metra háir skaflar í kringum öll hús. Ég hef stundum sagt að það geti verið draumur að vaka yfir sauðburðinum þegar vel viðrar en það getur líka verið martröð í erfiðu árferði.“ Jón segist sjálfur samt ekki eins illa staddur og margir aðrir. Hann sé ekki með nema 115 kindur og 30 hross og hafi getað stundað aðra vinnu meðfram skepnuhaldinu. Samt kalli þetta á yfirlegu og vökunætur. Hann segist líka telja að sem betur fer hugsi flestir bændur um bústofn sinn ekki síður en fjölskylduna og því ekki skrýtið að menn hafi áhyggjur. /HKr. Bændur í Dalvíkurbyggð orðnir uppgefnir á vetrinum sem ekkert lát virðist ætla að verða á: Snjódýptin víða margir metrar og leitað að heyrúllum með gröfum – sauðburður að hefjast en algjörlega vonlaust að koma lambfé út úr húsum Ótti við alvarlegt kaltjón í Þingeyjarsýslum: Yfir 60 sentímetra þykkur klaki á túnum í Aðaldal – bændur hafa miklar áhyggjur af stöðu mála Veðurfarið hefur leikið þingeyska bændur grátt undanfarna mánuði og hafa bændur vægast sagt mjög miklar áhyggjur af stöðunni. Mikill snjór er ennþá mjög víða á túnum í sýslunni og engin merki um að vorið sé á næstu grösum. Bændur vita í raun ekki hvað er undir snjónum en margir óttast að mjög mikill klaki sé á túnunum, undir snjónum, sem komi til með að valda kaltjóni mjög víða. Þetta kemur fram á vefsíðunni 641. 63 cm þykkur klaki Þar segir einnig að Benedikt Kristjánsson bóndi á Hólmavaði í Aðaldal hafi tekið sig til og borað holu í klakann sem er á einu túnanna á Hólmavaði til þess að mæla hve þykkur hann væri. Hann notaði ísbor til þess. Þykktin á klakanum var 63 cm og upp úr holunni gaus rotnunarfýla mikil þannig að augljóst er að túnið er ónýtt vegna kals. Bændur heylitlir Að sögn Maríu Svanþrúðar Jónsdóttur ráðunautar á Húsavík eru margir bændur orðnir mjög heylitlir og mega því illa við því að seint vori. Heyfengur bænda varð rýr vegna kals og kuldatíðar sumarið 2011 og sumarið 2012 var heyfengur líka rýr vegna þurrka. Af þeim sökum eiga bændur litla sem enga fyrninga fyrir þetta vor og brugðu margir á það ráð að minnka ásetning síðasta haust til þess að fækka á fóðrum. Margir kúabændur hafa sent yngri gripi til slátrunar í vetur en venjulega, til að létta á fóðrum. Bændur fá minna greitt fyrir yngri og léttari gripi og því ber þetta allt að sama brunni. Bændur í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði hafa keypt hey í vetur, bæði úr Borgarfirði og alla leið sunnan úr Landeyjum. Gríðarlegur kostnaður er við þessi heykaup en algengt verð sem greiða þarf fyrir hverja heyrúllu er um 6-7.000 krónur og annað eins fyrir flutninginn heim í hlað. Því miður hefur eitthvað borið á því að þessar aðkeyptu heyrúllur séu lélegar og varla skepnufóður í einhverjum tilfellum. Girðingar ónýtar Í septemberóveðrinu eyðilögðust girðingar mjög víða og ekki hafa snjóþyngslin í vetur bætt úr skák. Líklegt er talið að mun meira tjón á girðingum en blasti við eftir septemberóveðrið eigi eftir að koma í ljós þegar snjóa leysir. Verstu 12 mánuðir árum saman? Ef veðurfarið í Þingeyjarsýslu er lauslega skoðað frá því í maí 2012 til apríl 2013 má segja að þessir tólf mánuðir sé einhverjir þeir verstu til búskapar í sýslunni síðan 1979. Seint í maí 2012 kom hressileg stórhríð og allt fór á kaf í snjó. Sumarið var líklega það þurrasta í einhverja áratugi, sem leiddi til þess að tún brunnu vegna þurrkanna og mjög lítil uppskera kom af þeim. Seinni sláttur brást algjörlega hjá langflestum bændum og heyfengur varð með minnsta móti. Allir muna svo eftir fjársköðunum sem urðu í september og margir þurftu að taka inn kýr í kjölfar óveðursins vegna þess að grænfóður og kál eyðilögðust vegna snjóa. Síðan kom mjög snjóþungur vetur sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Engin hlýindi í kortunum Augljóst er að allur búfénaður hjá flestöllum bændum í Þingeyjarsýslu þarf að vera á fullri gjöf langt fram eftir vori fari ekki að hlýna í veðri fljótlega. Veðurspáin fyrir næstu daga gefur ekki tilefni til bjartsýni, því búist er við áframhaldandi snjókomu og frosti eftir helgi, eins langt og spáin nær. Bændur vonast auðvitað eftir því að það breyti um veðurlag um eða upp úr mánaðamótum með hlýjum sunnanáttum og hláku. Það getur breytt stöðunni mikið til batnaðar frá því sem nú er. Þangað til geta bændur hins vegar ekki annað gert en að bíða og vona. /MÞÞ Beita þarf gröfum til að ná heyrúllum upp úr samanbarinni fönninni. Myndir / Jón Þórisson Snjódýptin er vel á þriðja metra. Hvert sem litið er er ekkert nema snjór. Nei, þetta er ekki nýtt stöðuvatn, heldur svell á túninu á Hólmavaði. 63 cm þykkur klaki er á einu túninu á Hólmavaði í Aðaldal. Myndir / Benedikt og Elín á Hólmavaði

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.