Læknablaðið - 01.12.1968, Blaðsíða 70
280
LÆKNABL AÐIÐ
Fjölmörg fagleg og félagsleg rök hníga í þá átt, að almenn heil-
brigðisþjónusta verði í náinni framtíð bezt rekin með því að koma á
stofn læknamiðstöðvum. Allt bendir til, að með læknamiðstöðvum fáist
ungir læknar til að starfa úti um byggðir landsins um lengri tíma og
þar með fáist lausn á hinum mikla læknaskorti í dreifbýlinu, sem yrði
bæði heilbrigðisyfirvöldum og læknastéttinni til sóma.
Því ber að vinna að því með oddi og egg að koma læknamiðstöðv-
unum á fót, og mjög brýnt er að móta ákveðna heildarstefnu í þessu
máli fyrir landið allt. Mundi hún geta komið í veg fyrir rándýrar
byggingarframkvæmdir á stöðum, þar sem engar líkur eru til, að lækn-
ar sitji á í náinni framtíð. Einnig gæti hún komið í veg fyrir hugsan-
lega togstreitu milli einstakra svæða.
Læknasamtökunum ber því að kynna heilbrigðisyfirvöldum mikil-
vœgi þessa máls og freista þess að eyða tregðu þeirra á þessu sviði,
því að öllum má ljóst vera, að framgangur þess er fyrst og fremst undir
heilbrigðisyfirvöldum kominn.
í þessu sambandi má benda á, að núverandi læknaskipunarlög
eru úrelt og sníða læknaskipun landsins allt of þröngan stakk. Þau
samrýmast engan veginn hinum öru breytingum í þjóðfélaginu. Eitt
brýnasta verkefni heilbrigðisstjórnarinnar er því að vinna að nýjum
læknaskipunarlögum, sem veiti aukið svigrúm, hvað varðar búsetu og
starfssvæði héraðslækna. Mjög óliklegt er, að ný heildarstefna verði
mótuð í heilbrigðismálum dreifbýlisins, meðan núverandi læknaskip-
unarlög eru óbreytt.
Fundurinn harmar drátt þann, sem orðið hefur af hálfu heilbrigðis-
yfirvalda við setningu reglugerðar um læknamiðstöðvar, þrátt fyrir
það að til þess skipuð nefnd hafi löngu skilað áliti. Fundurinn telur,
að í slíkri reglugerð þurfi að koma fram eftirtalin atriði:
Læknamiðstöðvum verður að setja lágmarksstaðal, þar sem m. a.
verði kveðið á um lágmarksfjölda lækna og annarra heilbrigðisstarfs-
manna, lágmarksútbúnað og aðstöðu. Áherzlu þarf að leggja á sam-
eiginlegar sjúkraskrár og skulu þær vélritaðar. Sem flest erindi sjúk-
linga við lækna skulu fara eftir tímapöntunum fyrirfram. Æskilegast
er, að læknamiðstöðvar í dreifbýli séu reknar í nánum tengslum við
sjúkrahús, þannig að öll aðstaða, húsakynni, tæki og starfslið nýtist
sameiginlega og allar upplýsingar um sjúklinga liggi fyrir á einum
stað. Þessi sjúkrahús þurfa að vera heimilislækningasjúkrahús, þar
sem allir læknar stöðvarinnar hafa jafna aðstöðu. Lágmarksskilyrði
séu, að við læknamiðstöðvar í dreifbýli sé sjúkraskýli. Læknamiðstöðv-
ar skulu reka heilsuverndarstarfsemi og annast hóprannsóknir í miklu
ríkara mæli en tíðkazt hefur til þessa. Kveða þarf á um skiptingu
stofn- og rekstrarkostnaðar milli ríkis og viðkomandi byggðarlags.
F. h. Svæðafélags Norðausturlands.
Ingimar S. Hjálmarsson,
Þóroddur Jónasson,
Gísli G. Auðunsson.