Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 41

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 41
LÆKNABLAÐIÐ 25 erindi, sem Osler flutti í læknaskóla sagði hann: »Það er best að ég viðurkenni það og játi, að ég byrjaði í lífinu með vanalegt, hversdagslegt heilabú. Ég segi það nú með eftirsjá, að framan af á skólaárum mínum var ég meira gefinn fyrir ærsl en bækur, en undir eins og ég fékk áhuga á læknisfræði, hafði ég aðeins eitt að leiðarljósi, og það var að leysa hvert dagsverk mitt af hendi eins samviskusamlega og heiðarlega og mér framast var unnt, og af þeirri atorku, sem stóð í mínu valdi að leggja af mörkum.« Með vinnuna að undirstöðu þætti Osler við fjórum eiginleikum, sjálfstæði gagnvart því sem glepur hugann á unga aldri, skipulagi og aðferð í starfi, nákvæmni og vandvirkni og loks lítillæti og auðmýkt. Hann lagði áherslu á hið sjálfsagða, að skipulag og vani bætir vinnuna. Hann taldi, að tvennt væri nauðsynlegt í lífinu öðru fremur, það að vera heiðarlegur og það að vera ástundunarsamur á skynsamlegan hátt. Osler lærði snemma að fara vel með tíma sinn, skipuleggja hann og gernýta. Vissi hann manna best, hvernig átti að grípa mínútuna, sem gafst á milli hríða. Það kom aldrei illa við hann að verða fyrir truflunum og frátöfum. Var hann alltaf reiðubúinn til að gefa öðrum af tíma sínum en á móti kom, að hann var fljótur að átta sig á erindum og vandkvæðum annarra og einbeitingarhæfnin var honum alltaf tiltæk á ný. Það fór aldrei mínúta til ónýtis. Ekkert raskaði rósemi hans, hann var alla tíð glaður og reifur, seint og snemma. Osler ráðlagði læknanemum að lesa lesefni utan læknisfræðinnar jafnhliða námi sínu og starfi. Á unga aldri lagði hann það í vana sinn, að lesa bókmenntir, sem ekki voru læknisfræðilegs eðlis, í hálftíma á hverju kvöldi í rúminu, áður en hann slökkti ljósið og hélt þeim sið til æviloka. Það var skoðun hans, að bókaunnendum leiddist síður en öðrum, þeir yrðu siður óánægðir með sjálfa sig, síður gagnslitlir öðrum. Bækur voru líf og yndi Oslers, hann unni bókum af heilum huga, naut þeirra og hafði af þeim ómetanlegt gagn að eigin mati. Bókasýki hans var varanleg, ævilöng. Hann hvatti lækna til að þróa með sér eftirsókn í góðan andlegan félagsskap meðal mannfólksins fyrr og síðar, hafa samneyti stutta stund daglega við mestu andans menn allra alda í bókum. Það væri mikils virði fyrir Iækna að eiga þess háttar hugðarefni og athvarf utan starfsins en hættulegt að láta það verða of tímafrekt. Osler var með eindæmum hraðlæs og skipulegur í lestri og hafði óvanalega trútt minni. Hann var mjög mannglöggur og var með ólíkindum minnugur á andlit og nöfn fólks, sem hann hafði einu sinni hitt eða séð. Hann hafði þó snemma gert sér að vana að hripa niður aðalatriði úr hverju og einu, sem hann las, svo að þau væru honum tiltæk þegar i stað, þá er hann þurfti á þeim að halda. Enn fremur bætti hann við minnisatriðin hugleiðingum sínum um efnið. Þekktastur var Osler í Iifanda lífi fyrir kennslu sína. Hann var ekki einungis áhugavekjandi kennari, heldur hafði hann hinn sjaldgæfa hæfileika, sem einungis fáum útvöldum kennurum er gefinn og er sá að frjóvga huga annarra. Osler hafði trú á hinum hollu, örvandi og mannbætandi áhrifum, er kennsla hefir á þann sem kennir. Hann hélt því fram, að besta ráðið við þeirri stöðnun og afturför, sem læðist að sumum einstaklingum eftir fertugt, væri samskipti og félagsskapur við menn milli tvítugs og þrítugs, menn með yngri, ferskari, næmari og framsæknari huga en þeir sjálfir hefðu. Mátti heimfæra upp á Osler, að sá lærir sem kennir og sá kennir vel sem lærir um leið og hann kennir, svo og orð Bertrands Russells, að kennsla er ein þeirra gjafa sem menn auðgast á að gefa. Árangur Oslers í kennslu var ekki síður að þakka þekkingu hans á ungum mönnum og sjálfum sér en kunnugleika hans á námsefninu. Eins og áður var getið var álit Oslers ekki síður tilkomið vegna kennslu hans en vísindalegs starfs hans í læknisfræði. »Megnið af því sem við gerum er eins og sápukúla, sem springur og hverfur, en engin sápukúla er eins skrautleg og helst eins lengi á lofti og sú sem góður kennari blæs«, sagði Osler í gamni frekar en alvöru. Sá læknir sem hefir ekki áhuga á stúdentum og þolir ekki gloppur þeirra og bresti með glöðu geði, fer á mis við salt jarðar. Þeim lækni sem lifir í fjarlægð frá hinum skörpu hugum ungra og upprennandi lækna, hættir til að þykja klæði sin þröngt skorin, þegar líða tekur á ævina. Sá kennari sem eyðir tveimur timum á dag með hópi læknanema, gegnir afar þýðingarmiklu starfi og verður seint of metinn, ef vel tekst til. Áhrif hans geta borist frá kynslóð til kynslóðar. I kennslu lagði Osler áherslu á að þróa athyglisgáfu með læknastúdentum. Hann kenndi þeim að athuga sjúklingana, skrá einkenni, búa til töflur og tjá sig, nota skilningarvitin fimm. Hann sagði þeim að öll list læknisins væri fólgin í athugunum, því að kenna auganu að sjá, eyranu að heyra, fingrinum að þreifa og huganum að hlusta. Túlka og tengja fyrirbærin í samstæða mynd. Hið eina sem kennarinn getur gert, er að ýta stúdentnum á flot og vísa honum síðan á rétta

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.