Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 39
LÆKNABLAÐIÐ
23
LÆKNABLAÐIÐ
THE ICELANDIC MEDICAL JOURNAL
Læknafélag íslands og LR
Læknafélag Reykjavíkur
73. ÁRG. - JANÚAR 1987
UM WILLIAM OSLER
Sir William Osler lifði á árunum 1849-1919. Hann
var einn kunnasti læknir um sína daga í hinum
enskumælandi heimi og þó að víðar væri leitað. í
lifanda lífi var hann virtur og dáður umfram
flesta aðra lækna og var þjóðsagnapersóna í
áratugi eftir dauða sinn. En »fellur í gleymsku
það orð, sem er lifandi núna«. Virðist Osler nú
gleymdur að miklu leyti og fáir, sem kannast við
hann. Þó hefir hans verið getið öðru hverju í
bandarískum læknatímaritum allt fram á þennan
dag og enn er vitnað í hann stöku sinnum af
læknum.
Osler var ekki eitt af stóru nöfnunum í
læknisfræðinni, ekki mikill rannsóknamaður og
færði ekki læknavísindin fram á við líkt og ýmsir
aðrir læknar, sem fæddust á síðustu öld. Má þar
nefna meðal annarra Semmelweiss, Virchow,
Pasteur, Lister, Koch, Banting, Best, Minot,
Murphy og Flemming. Osler stóð engum þessara
manna á sporði í rannsóknum og þeim mikla
árangri og sigrum á sjúkdómum, sem þeim
auðnaðist að ná í starfi og með bættu heilsufari
almennings. Enn fremur hverfur ævistarf Oslers í
skuggann hjá hinum stórstígu framförum og
þeirri hraðfara vísindalegu og tæknilegu þróun,
sem átt hefir sér stað síðustu áratugi í
læknisfræði, yngstu vísindagreininni, eins og hún
hefir verið kölluð.
Hins vegar var það metnaður Oslers frá unga
aldri að verða góður klínískur læknir og góður
kennari og varð honum að hvoru tveggja ósk
sinni, að svo miklu leyti sem mögulegt var á þeim
tima, þegar vísindaleg læknisfræði var ennþá
skammt á veg komin. Jafnframt klínískri vinnu
og kennslustörfum gaf hann út stóra og fræga
kennslu- og handbók í lyflæknisfræði, og var
hann einsamall höfundur hennar. Kom hún út,
meðan hann var á lífi, í átta útgáfum, sem voru
allar endurskoðaðar og endurritaðar af honum
sjálfum. Var það heljarverk eitt sér. Hann var alla
tið húmanisti í lífi og starfi, ræðu og riti, flutti
mörg ávörp og erindi þar að lútandi, og voru þau
gefin út sem ritgerðasöfn. Það er og verður alla
tíð undrunarefni, hversu miklu stöku menn fá
áorkað og afkastað á sinni ævi, og var Osler einn
í þeirra hópi.
Þrátt fyrir hina miklu vaxandi framvindu og mikil
og flókin óleyst vandamál í læknavísindum nú á
tímum, má leiða að því líkur, að skoðanir Oslers á
læknisfræði og læknakennslu eigi enn nokkurt
erindi til lækna. Sagt hefir verið, að læknisfræðin
sé á leið frá list til tækni. Undur
nútímalæknisfræði eru vissulega mikil og fá
»fært um set fávisku manna og dauðann«. Engu
að síður er læknisfræðin ekki einvörðungu
raunvísindi, heldur er hún einnig og verður alltaf
að hluta til hugvísindi. Hvað sem líður þróun
raunvísinda í læknisfræði verður sú vísindagrein
jafnhliða fræði húmanista eins lengi og menn
hafa vitund, skynja, finna til, hugsa og eru sér
meðvitandi um dauða sinn. Það er deginum
ljósara, að læknisfræðin mun alla tíð fást við
mannlega þáttinn í meðferð sjúklinga og kennslu
lækna. Þess vegna er ennþá vert að gefa gaum að
orðum Oslers, því að hann er í fremstu röð
húmanista, sem uppi hafa verið á eftir
Hippocrates í læknastétt.
Osler var Kanadamaður að uppruna, fæddist í
litlu sveitaþorpi, Bond Head, í Ontario fylki, þar
sem faðir hans var sóknarprestur. Var hann
yngstur í stórum systkinahópi. Að honum stóðu
enskir og keltneskir stofnar, sterkir og
endingargóðir. Varð faðir hans 87 ára, móðir 99
ára, og var það að sjálfsögðu hærri aldur þá en nú
að tiltölu. Osler hlaut á unglingsárum menntun í
heimavistarskóla, þar sem langminni hans og
einbeitingarhæfni vakti athygli. Hann nam
læknisfræði frá 1868 við læknaskólann í
Toronto, þar sem hann lagði grunninn að þeim
lífsvenjum, sem entust honum til æviloka.
Hornsteinarnir voru vinna og hæfni til að sækja
gleði í vinnu.
í Toronto var hann sagður jafn mikill
mannkostamaður og hann var vel gefinn og
efnilegasti stúdent í sínum árgangi. Árið 1870
flutti hann sig til McGill háskólans í Montreal og
tók læknispróf þaðan 1872. Hann var ekki
gullmedalíumaður og ekki efstur í sínum árgangi,