Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 43

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 43
LÆKNABLAÐIÐ 27 þúsundir manna sæktu huggun í hina áhrifamestu játningu allra játninga: »Drottinn, ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.« Osler áleit trúna hafa græðandi eiginleika. Hann var á ómeðvitaðan hátt einn hinn farsælasti geðlæknir líkamlegra sjúklinga. Gárungarnir sögðu, að meðferðin á sjúkradeildum hans væri fólgin í mixtúru vonar Nux vomica. Að sjálfsögðu vissi hann manna best um takmörk trúarinnar, að hún læknar ekki krabbamein, lungnabólgu eða beinbrot. Hann sagði að burtséð frá sérhæfðum aðferðum í læknisfræði hefði trú alla tíð verið þýðingarmikill þáttur í meðferð sjúkdóma. Við lifum í trú og á trú. Án trúar getur maðurinn ekkert aðhafst. Trú á lækna, á lyf, aðferðir og rannsóknir væri hið mikla framlag stéttarinnar til fólksins. Hún var merki læknisins um velgengni hans í starfi. Hann vitnaði í Galen (uppi frá 130-200) sem sagði: »Sá læknar mest, sem flestir hafa trú á.« Osler kvað sjúkdóma geta aukið á þroska einstaklingsins, leyst úr læðingi dulda krafta hans, sýnt honum götuna fram eftir veg, veitt honum aðgang að áður óþekktum auðlindum og látið ávexti andans dafna með honum. Osler sagði dauðann ekki eins ægilegan og ógnvekjandi og hann væri í augum flestra. Sannleikurinn er sá, sagði hann, að mikill meiri hluti fólks deyr eins og það fæðist, í óminnisástandi. Enginn dauðdagi þarf að vera sársaukafullur fyrir líkamann. Þegar góður læknir getur ekki lengur haldið í líf sjúklinga sinna, sér hann um góða og greiða útgönguleið lífinu til handa. Osler var aldrei baráttumaður. Enda þótt hann gerði sér grein fyrir því, að einföldun, einsýni og kennisetning er oft nauðsynlegur þáttur i góðri kennslu, sá hann manna best að kennisetning eða kredda er einungis ein hliðin á því máli, sem deilt er um í öllum ágreiningi og árekstrum. Hann sagði: »Eini kostur þess að vera efasemdarmaður, er sá, að menn verða ekki undrandi eða reiðir, ef þeir reyna, að andstæðingarnir hafa á réttu að standa.« Skyn hans á drengilegum leikreglum, umburðarlyndi hans gagnvart brestum náungans og skopskyn hans myndu hafa gert hann óheppilegan Ieiðtoga mikils málefnis. Það þarf sterkan sannfæringarkraft til að standa í deilum, það þarf eitt sjónarmið, sem allar skoðanir geisla út frá og sýnast allar jafnsennilegar, til þess að verða mikill leiðtogi málefna og manna. Osler hélt því fram hálft í hvoru í gamni, að hrörnun byrjaði í mörgum mönnum eftir fertugt. Menn yfir fertugt væru sjaldan brautryðjendur í vísindum eða stærðfræði og sjaldan skapandi höfundar í bókmenntum. »Stærðfræði er leikur ungra manna«, sagði breski stærðfræðingurinn Hardy. Ekkert hverfur eins fljótt og æskan og besta vörnin gegn hrörnun er snerting við unga huga, sagði Osler. Osler virti heimilislækna, eðallynda menn og rólega, vel að sér í reglum sjúkraherbergisins í heimahúsum. Heimilislæknirinn væri vinur heimilanna, ráðgjafi þeirra. Starf hans væri mikilvægt og hefði grundvallarþýðingu í læknisfræði og heilsugæslu. Góður heimilislæknir væri jafnvirði margra manna eins og á tímum Hómers. Osler taldi dyggðir hjúkrunarkvenna vera sjö talsins, þ.e. háttvisi, snyrtimennsku, þagmælsku, samúð, mildi, uppörvun, allar sex tengdar með líknarhug. Háttvísi væri hin frelsandi dyggð kvenna, án hennar gæti engin kona náð árangri í hjúkrun, starfi eða öðru. Hann sagði, að læknir þyrfti að eiga konu, sem gætti heimilis og barna og réði öllu innan stokks. Sjálfur var hann mjög vel giftur. Blómaskeið Oslers og hápunktur á starfsferli hans voru árin hans við John Hopkins spítalann í Baltimore 1889-1904, á aldrinum 40-55 ára. Vinna hans þar var alla tíð óhemjumikil, fór vaxandi og síðustu þrjú árin fann hann að hún var meiri en svo, að hún gæti samrýmst endingu í starfi. Þó að sumir menn hafi feikna afkastagetu, má öllu ofbjóða, einkum þegar aldurinn færist yfir menn. Því þáði hann boð um prófessorsstöðu í Oxford, þegar það barst honum. Sú staða var að miklu leyti viðhafnarstaða, en einnig stjórnunarleg og ráðgefandi. Ráða hans var oft leitað og næstum alltaf farið að þeim. Hann gaf sig mjög að bókasafnsmálum háskólans. Hann vann áfram að endurútgáfum bókar sinnar. Hann flutti mörg ávörp og erindi þar og annars staðar í Englandi og einnig í Bandaríkjunum og Kanada. Hann naut í Oxford þeirrar virðingar og hlýhugs, sem fáir hafa öðlast. Árið 1917 féll sonur þeirra hjóna, Revere, yndi þeirra og eftirlæti, sætasta ljós augna þeirra, á vesturvígstöðvunum í Frakklandi, rúmlega tvítugur að aldri. Var það honum þyngri harmur en orð fá lýst. Eftir það varð hann ekki samur maður, glóðin var slokknuð, kviknaði ekki aftur, »ein af lindum hjartans þrotin«. Osler var ráðgáta mörgu fólki. Margir honum

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.