Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 33

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 33
LÆKNABLAÐIÐ 19 áleiðis til Reykjavíkur. Alla leiðina hefur Lagarfoss 8 hnúta meðvind, en Goðafoss mótvind. Og nú kemur spurningin: Hvað heitir amma brytans á Lagarfossi? Ég hafði með að gera skýra og greinargóða konu, sem ég sótti um lengingu fæðingarorlofs fyrir. Henni var synjað í fyrstu atrennu, sárnaði og sagði við afgreiðslustúlkuna í læknadeild TR. »Takið þið ekkert mark á vottorði þess læknis, sem stundaði mig í meðgöngunni?« Svarið kom um hæl: »VIÐ TREYSTUM EKKI LÆKNUM«. Góðir kollegar, þetta er vandamálið í hnotskurn: Samninganefnd sjúkratrygginga semur við samninganefndir læknafélaganna um kjör heimilislækna á eigin stofum, um gjaldskrá heimilis- og heilsugæslulækna og sérfræðinga á eigin stofum. Gunnar Möller hrl. fyrrum formaður samninganefndar sjúkratrygginga og forstjóri SR í nær hálfa öld, sagði mér, að fram undir 1950 hefðu hann og formaður LR hist á skálanum á tveggja ára fresti og drukkið kaffi saman og þá hafi orðið til samningur næstu tveggja ára. Þessir tímar eru löngu liðnir. Ég hefi verið viðloðandi samninga í nokkur ár. Ég get því af eigin reynslu vottað, að samningagerð hefur orðið erfiðari og erfiðari og tekið lengri og lengri tíma. Meiri og meiri tími hefur farið í ófrjótt karp og útúrsnúninga. Erfitt hefur verið að ná nýjum verkum inn í gjaldskrár. Ákvarðanataka hefur verið dregin á langinn, varast að afgreiða nokkurt atriði fyrr en seint og síðar meir. Efalaust er um að ræða taktik af yfirlögðu ráði, annars vegar til að þreyta tímalitla lækna, sem eru í samninganefndum og verða oft fyrir verulegu tekjutapi og hins vegar til að draga greiðslur frá TR á langinn svo lengi sem auðið er. Læknar skilja, að TR verður að fylgjast með því hvernig almannafé er varið, að læknar misbeiti ekki samningum og að sú þjónusta, sem greitt er fyrir, sé innt af hendi. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir lækna og TR. Læknar hafa engan áhuga á því að halda hlífiskildi yfir þeim kollegum, sem gerast brotlegir. En við þolum ekki einhliða tilskipanir ofan frá og einhliða ósveigjanlega túlkun samningsatriða. Samningur er samkomulag tveggja eða fleiri aðila og krefst samráðs. Samráð krefst gagnkvæms trausts og virðingar. Á þessu er nú alvarlegur misbrestur. Hvað er til ráða? Vegna endurtekinna kvartana áttu formaður L.Í., framkvæmdastjóri læknafélaganna og undirritaður óformlega fundi með forstjóra TR og einkum tryggingayfirlækni og ræddu samskiptaerfiðleika í fullri hreinskilni. Eftir er að sjá, hver árangur verður af þeim viðræðum. (Að mínu mati var forstjóra TR að fullu ljós vandinn, en tryggingayfirlæknir vildi ekki kannast við hann nema að nokkru leyti). Það þarf að eyða þeirri gagnkvæmu tortryggni, sem nú ríkir milli lækna og TR. Það þarf að hafa heilbrigða skynsemi og sanngirni að leiðarljósi á báða bóga. Krefjast skal vandaðra vottorða en treysta heiðarleika viðkomandi lækna nema annað sannist. Stöðva þarf tilgangslausar greinargerðir og pappírsflóð í kansellístíl. Samningagerð verður að haga innan marka skynsemi og sanngirni, ræða einstök atriði og afgreiða þau jafnóðum, en kæfa þau ekki í karpi og pappírsflóði. Skjólstæðingar lækna og TR eru hinir sömu. Þeir eiga rétt á því, að mál þeirra séu afgreidd af heiðarleika og réttsýni og án tafa. (Erindi flutt á aðalfundi Læknafélags íslands á Sauðárkróki í ágúst 1986).

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.