Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 48

Læknablaðið - 15.01.1987, Blaðsíða 48
32 LÆKNABLAÐIÐ fái þeir laun samkvæmt þvi. Annars vegar verði um að ræða fast gjald fyrir hvern einstakling, sem skráður er hjá lækni. Hins vegar verði greiðslur samkvæmt taxta fyrir unnin verk t.d. viðtöl, skoðanir og vitjanir. Hverjar skyldu hafa verið niðurstöður nefndar Davíðs Gunnarssonar? í tillögum nefndarinnar segir m.a.: »MikiIl meirihluti er fyrir því að flytja rekstur heilsugæslu til sveitarfélaganna«. Og ennfremur: »Sveitarstjórn á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýli verði heimilt að semja við sjúkrahús, heilsugæsluhóp eða einstaka heilbrigðisstarfsmenn um rekstur heilsugæslu eða vissra þátta hennar á vegum stjórnar heilsugæslu«. Þannig virðist vera töluverð samstaða um að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum, sem gæfu möguleika á fleiri rekstrarformum. Undirritaður er sannfærður um að hér er um skynsömustu og fljótvirkustu leiðina að ræða til að bæta hlut heilsugæslunnar hér. SAMSTARF HEIMILISLÆKNA OG SÉRFRÆÐIN G A Eins og kunnugt er hefur þróun varðandi sérfræðiþjónustu orðið með talsvert öðrum hætti. Hér hafa risið upp læknastöðvar þar sem margir sérfræðingar hafa tekið upp samvinnu um rekstur og hefur þessi starfsemi gefið góða raun. Nefnd Davíðs Gunnarssonar kemst að þeirri niðurstöðu á einum stað í nefndarálitinu, að »af einhverjum ástæðum er nokkur veggur milli sérfræðinga og heimilislækna«. Hér er sennilega komið að kjarna málsins. Starfsaðstaða sérfræðinga er talsvert önnur en heimilislækna og þeir síðarnefndu eru að reyna að hasla sér völl. Þar tel ég vera skýringu á ýmsum ummælum kollega minna hér að framan svo sem fullyrðingar um »dýra og óarðbæra sérfræðiþjónustu«. Það hlýtur að vera verkefni læknasamtakanna að bæta hér um. Innan þeirra þurfa nauðsynlega að fara fram umræður um skipan mála og það er miklu æskilegra að halda þeim umræðum innan þess vettvangs en í fjölmiðlum svo sem gert hefur verið. Heimilislæknar hljóta að verða að taka tillit til þeirrar heilbrigðisstarfsemi, sem nú þegar er fyrir hér á þéttbýlissvæðinu. Sérfræðingar verða einnig að taka fullt tillit til kollega sinna og standa þannig að tjáskiptum að hagsmuna sjúklinga okkar sé gætt. Slíkum samskiptum verður ekki komið á með fyrirmælum, boðum eða bönnum. Grundvallaratriðið hlýtur að vera að sjúklingurinn hafi val um hvert hann leitar eftir þjónustu. í Fréttabréfi lækna nr. 10/86 kemur Guðmundur H. Þórðarson inn á þessi samskiptamál þar sem hann ræðir um tilvísanir og ástæður þess að tilvísanaskyldan var ekki virt. Tilvísanaskyldan hefur nákvæmlega ekkert með samskiptamál sérfræðinga og heimilislækna að gera. Þessi ófögnuður var fundinn upp til þess að reyna að hafa áhrif á hvert sjúklingar leituðu og refsa þeim fjárhagslega ef þeir hlýddu ekki. G.H.Þ. kemst að þeirri niðurstöðu að tilvísanakerfið falli og standi með heilsugæslukerfinu. Ég er honum algerlega sammála í því að ófullnægjandi heilsugæsla hafi gert þetta kerfi óvirkt. En ég er einnig þeirrar skoðunar að góð heilsugæsla geri tilvísanakerfi ónauðsynlegt, því að sjúklingarnir muni leita þangað, sem þeir fá bestu þjónustuna og það eiga þeir að fá að gera án takmarkana af hálfu þess opinbera. Reykjavík 26. október 1986 Ólafur Örn Arnarson, lœknir

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.