Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.12.1988, Síða 34

Læknablaðið - 15.12.1988, Síða 34
408 LÆKNABLAÐIÐ þjónustu. Ótti eða kvíði vegna heimsókna verður fátíðari með aldrinum. í rannsókn Haakansons á 20-60 ára Svíum viðurkenndu 27,6% slíkan ótta. Um 10% Svíanna sögðu ennfremur að þessi ótti hindraði þá í að leita til tannlæknis. Ennfremur kom þar í ljós, að 3% Svíanna álitu, að ótti og kvíði kæmi í veg fyrir að þeir leituðu sér þjónustu (4). Hjá Dönum yfir 65 ára aldri nefndu 5,6% ástæðuna »ótti við sársaukafulla meðferð« fyrir óreglulegum eða engum tannlæknisheimsóknum (1). Ótti við tannlæknisheimsóknir minnkaði með aldrinum og aðeins 3,6% Hjartaverndarkarla viðurkenndu talsverðan eða meiri ótta, en eingöngu 0,4%, að óttinn væri slíkur, að hann kæmi í veg fyrir, að þeir leituðu tannlæknis. Vegna samanburðarins skal þó undirstrikað, að sænska rannsóknin tók til blandaðs hóps karla og kvenna 20-60 ára. Skortur á þjónustu virðist ekki vandamál á íslandi í dag, enda er fjöldi íbúa á hvern tannlækni með því lægsta í heiminum. Af Hjartaverndarkörlum töldu 88,8% ekki erfitt að fá tíma við hæfi hjá tannlækni. Þetta er í fullu samræmi við »Könnun á heilbrigðisþjónustu«, sem gerð var á vegum landlæknisembættisins árið 1985. Þar töldu liðlega 90% framkvæmd og fyrirkomulag tannlæknisþjónustunnár góða eða mjög góða (16). Segjast karlar þessir, einkum hinir tenntu, mjög meðvitaðir um það, hvað tannlæknir gerir í munni þeirra. Yfir 90% tenntra kváðust fylgjast með því sem fyrir þá var gert á tannlæknastofu, en nokkru færri hinna tannlausu eða um 75%. Flestir þessara karla fara til tannlæknis í vinnutíma eða 61%. Fullvissir um að þeir gætu fengið frí úr vinnu voru 81%, í vafa voru 11%, en einungis 4% sögðu slíkt útilokað. Það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt, að eftirlit sé reglulegt og tafir frá vinnu vegna tímafrekra aðgerða í Iágmarki. Víða í nágrannalöndunum hafa stór fyrirtæki brugðist við á þann hátt, að ráða menn til þess að annast slíka þjónustu og láta þau hana jafnvel ókeypis í té. Á hinn bóginn er það vert umhugsunarefni, ef einhverjir þegnar velferðarríkisins eru án þeirra mannréttinda að geta leitað sér heilbrigðisþjónustu á hefðbundnum þjónustutíma. Vanþekking virðist augljós þar sem spurt er um álit á ástandi eigin tanna og tannholds. Tæpur þriðjungur karlanna telur ástandi tanna í einhverju ábótavant. Eingöngu 9% álíta, að eitthvað sé að tannholdi þótt vitað sé, að vandamál frá tannholdi sé ein helsta orsök tannmissis meðal eldri einstaklinga (9, 17). Skýringarinnar er ef til vill að leita í því, að tannholdssjúkdómur getur verið kominn á hátt stig án teljandi klínískra einkenna. Sjúkdómurinn veldur oftar vandkvæðum á fullorðinsárum þótt hann sé reyndar þekktur meðal barna og unglinga. Beintap getur verið orðið umtalsvert og tennur farnar að losna án vitundar viðkomandi. Aftur á móti er tannáta algengari fyrr á ævinni og getur valdið tannpínu þó skemmdin sé grunn. Þó benda rannsóknir til þess, að tíðni tannátu aukist aftur á efri árum (7). Þeir sem misst hafa tennur úr öðrum gómi telja frekar eitthvað að tannholdi en þeir sem halda tönnum í báðum gómum. Mögulegt er, að ástæðan sé sú, að þeir hafi haft meiri kynni af tannholdssjúkdómum og misst tennur sínar þess vegna. Þá telja hinir yngri í hópnum fremur, að eitthvað sé að tannholdi og tönnum. Bendir það til þess, að yngra fólkið sé sér meðvitaðra um tannheilsu sína. Vanmat á eigin ástandi kemur fram víða í erlendum rannsóknum en hefur þó minnkað með bættri almenningsfræðslu (6, 7). I skoskri rannsókn á tenntum einstaklingum kemur fram, að 41% þeirra, sem fara reglulega til tannlæknis telja, að lagfæringa sé þörf, en um 67% þeirra, sem ekki sækja tannlæknisþjónustu. í sömu rannsókn töldu yfir 30% tannholdinu ábótavant (15). Margt bendir til þess, að tannmennt íslendinga sé ábótavant (1). Vart er við því að búast að hún sé til fyrirmyndar hjá þessum hópi, sem naut lítillar fræðslu og þjónustu í þessum efnum á uppvaxtarárunum. Þó má ætla, að ástand það sem hér kemur fram, sé í raun lakara vegna þeirrar mannlegu tilhneigingar sem að framan getur, að vanreikna tíma og aðlaga svarið því, sem talið er æskilegra. Að áliti höfunda renna framangreindar niðurstöður enn frekari stoðum undir þá skoðun, að brýn þörf sé á stórauknu átaki til fræðslu almennings um tannverndarmál, ef ætlunin er að komast nær settu marki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hvað bætta tannheilsu varðar fyrir árið 2000 (18, 19). Þakkir: Höfundar færa dr. Nikulási Sigfússyni, stjórn og starfsfólki Hjartaverndar og Helga Sigvaldasyni verkfræðingi bestu þakkir. Styrkur til verksins var veittur úr rannsóknasjóði Háskóla íslands.

x

Læknablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.