Læknablaðið - 15.12.1988, Blaðsíða 7
LÆKNABLAÐIÐ
391
Vilhelmína Haraldsdóttir, Jóhann Ragnarsson
ORSAKIR OG TÍÐNI YFIRLIÐA
Ferilrannsókn um eins árs skeið
INNGANGUR
Yfirlið er afar algengt fyrirbæri og er talið að
mikill meirihluti fólks falli í yfirlið einhvern tíma
á lífsleiðinni (1, 2). Þetta sýnir að yfirlið er ekki
sjúkdómur heldur einkenni, sem getur verið
merki um alvarlegan sjúkdóm, þó svo þurfi ekki
að vera (3).
Helstu orsakir yfirliða eru hvatning skreyjutaugar
(vasovagal yfirlið) og sjúkdómar í hjarta, sem
valda annað hvort truflun á hjartslætti eða
minnkuðu blóðflæði frá hjarta. Sjúkdómar í
miðtaugakerfi geta og valdið yfirliði.
Blóðþrýstingsfall í standandi stöðu (orthostatisk
hypotension) getur verið orsakavaldur, einnig eru
yfirlið tíð við viðbragð í skreyjutaug, framkallað
af ýmsum athöfnum, svo sem að kasta þvagi eða
rembast. í rannsóknum (1, 2, 4, 5) sem hafa verið
gerðar á þessu efni kemur fram, að í hluta
sjúklingahóps finnst ekki orsök fyrir yfirliði þrátt
fyrir vandlega leit. Stundum liggur orsök yfirliðs
ljós fyrir, oftast þarf þó að rannsaka
einstaklinginn nánar áður en orsökin finnst. Það
er mjög mikilvægt að komast sem næst orsökinni,
því rannsóknir (1, 2) hafa sýnt mikinn mun á
horfum þessa fólks. Rannsóknir í Bandaríkjunum
hafa m.a. leitt í ljós um þriðjungi meiri
dánarlíkur á einu ári meðal þeirra sem falla í
yfirlið af völdum hjartasjúkdóma en þegar
orsakirnar eru aðrar (1, 6).
Hér á eftir verður greint frá ferilrannsókn
(framsýnni rannsókn) á sjúklingum sem leituðu á
Borgarspítalann vegna yfirliða. Rannsóknin tók
eitt ár.
Tilgangur rannsóknarinnar var eftirfarandi:
1. Gera grein fyrir fjölda, kyni og aldri sjúklinga.
2. Greina orsakir yfirliðanna.
3. Athuga hvaða þættir skipta mestu máli við
greiningu.
Frá lyflækningadeild Borgarspítalans. Barst ritstjórn
16/03/1988. Samykkt 13/09/1988.
EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Athugaðir voru allir sjúklingar sem leituðu á
Borgarspítalann vegna yfirliða um eins ár skeið,
þ.e. frá október 1985 til október 1986. Flestir
leituðu af sjálfsdáðum á Slysa- og sjúkramóttöku
spítalans eða voru fluttir þangað af læknum
neyðarbíls. Nokkrum var vísað af læknum
Slysadeildar eftir að í ljós kom að meiðsli voru til
komin vegna yfirliðs.
Yfirlið var skilgreint á eftirfarandi hátt:
Meðvitundarleysi sem stendur stutt og sjúklingur
fær meðvitund á ný án sérstakra
endurlífgunaraðgerða. Til frekari glöggvunar
voru þeir útilokaðir sem:
1. Fengu nær yfirlið (near syncope).
2. Urðu óstöðugir á fótum (dizziness).
3. Fengu svimakast.
4. Höfðu áður þekkta krampa.
5. Voru í losti.
6. Voru í dái.
Tekin var nákvæm sjúkrasaga af öllum
sjúklingum og fengin lýsing vitnis á atburðinum
ef mögulegt var. Til þess að fá sem ítarlegasta
sjúkrasögu var einnig farið yfir atriðalista með 31
atriði sem spurt var sérstaklega um (mynd 1).
Nákvæm líkamsskoðun var gerð af öllum
sjúklingum. Eftirtaldar rannsóknir voru gerðar:
blóðhagur, natríum, kalíum, klóríð, kalsíum,
kreatínín, blóðsykur og hjartalínurit. Þegar
niðurstöður lágu fyrir var tekin ákvörðun um
hvort frekari rannsókna væri þörf, svo sem
hjartasírit í sólarhring, hjartaómun,
áreynsluhjartarit, heilalínurit og tölvusneiðmynd
af heila. Höfundar fylgdu síðan sjúklingunum
eftir þar til orsök yfirliðs Iá fyrir.
Sjúklingar voru flokkaðir í sjö aðalhópa eftir
orsökum yfirliðs:
1. Yfirlið vegna skreyjutaugarertingar eða
oföndunar (vasovagal yfirlið eða
hyperventilation).
2. Yfirlið tengd hægðum, þvaglátum eða hósta.