Læknablaðið - 15.12.1988, Blaðsíða 41
LÆKNABLAÐIÐ
415
Birna Þórðardóttir
FRÁ FUNDI LANDLÆKNA NORÐURLANDA UM
RÉTT SJÚKLINGA OG UPPLÝSINGAMIÐLUN
HEILBRIGÐISSTARFSFÓLKS
Dagana 20. og 21. apríl 1988 gengust
landlæknaembætti Norðurlanda fyrir ráðstefnu
um upplýsingar til sjúklinga og samskipti
sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Á
ráðstefnunni, sem haldin var í Bergen, var fjallað
um málin frá læknisfræðilegum, sálfræðilegum
og lagalegum hliðum og ólík sjónarmið reifuð.
Torbjörn Mork landlæknir Noregs setti
ráðstefnuna og gat þess að þetta væri hin þriðja
sem haldin væri um upplýsingar og réttindi
sjúklinga. Hann kvað mjög brýnt að þróa
heilbrigðiskerfið með það fyrir augum að hjálpa
sjúklingum til sjálfshjálpar. Heilbrigðisþjónusta
ætti ekki að miða að því að gera eitthvað við
sjúklinginn heldur með honum.
Að loknu ávarpi Torbjörns Mork tók Ólafur
Ólafsson landlæknir við fundarstjórn.
Fyrsta framsöguerindi flutti dr. juris Asbjörn
Kjönstad, Noregi. Hann fjallaði um rétt sjúklinga
í norskum lögum. Rétturinn til að vera sjúklingur
felur í sér það grundvallaratriði að menn hafi rétt
til heilsugæslu á sama hátt og börn hafa rétt til
skólagöngu. Þrátt fyrir það hafa stofnanir
mismunandi skyldur gagnvart sjúklingum. Það
gilda ólík lög fyrir almenn sjúkrahús,
geðsjúkrahús elliheimili, þannig að eitthvað sé
nefnt.
Hægt er að hugsa sér ýmsar aðferðir við að skipta
heilbrigðisþjónustu samfélagsins milli þegnanna.
Eiga sjúklingar sem mesta þörf hafa fyrir
þjónustu að hafa forgang eða hinir sem hafa
mestar batavonir og nýtist þjónustan best? Ólík
afstaða af þessu tagi getur leitt til togstreitu.
Ekki er unnt að ganga ætíð út frá hagsmunum
sjúklingsins, vegna þess að taka verður tillit til
annarra í umhverfinu. Þá vaknar sú spurning
hver tekur ákvörðun, sjúklingur eða
heilbrigðisstarfsfólk.
Þagnarskylda
Kjönstad kvað ýmsum spurningum ósvarað, sem
varða réttarstöðu sjúklings. Hvað getur læknir til
dæmis gert án þess að bera það undir sjúkling?
Gangist sjúklingur undir meiriháttar rannsókn
verður samþykki hans að liggja fyrir. En það er
ekki nóg, þess verður einnig að gæta að
sjúklingur viti hvað hann er að samþykkja,
þannig að fyrst þarf hann að fá nákvæmar
upplýsingar um fyrirhugaða meðferð.
Kjönstad kom einnig inn á þagnarskyldu
heilbrigðisstarfsfólks og hvenær mætti rjúfa
hana. Þar nefndi hann eftirfarandi tilfelli:
- Ef sjúklingur leyfir, en þá verður sjúklingur að
vita hvað hann leyfir.
- Lögbundin skerðing á þagnarskyldu er ef
almannahagsmunir krefjast.
Vegna margvíslegra reglugerðarákvæða um
undanþágu frá þagnarskyldu má segja að hún sé
fremur hugmyndafræðilegur grundvöllur en
viðurkennd í verki.
Hvenær hefur sjúklingur rétt til að krefjast
upplýsinga? Þar nefndi Kjönstad:
- Áður en sjúklingur gefur eitthvað eftir af rétti
sínum.
- Áður en meðferð hefst á sjúklingur rétt á að
vita hversvegna gripið er til viðkomandi
aðgerða.
Framkvæmd þessa er hins vegar mjög komin
undir einstökum læknum.
Áður var litið svo á að sjúkraskýrsla væri eign
læknis. Árið 1967 úrskurðaði Hæstiréttur Noregs
að sjúklingur ætti rétt á að sjá sjúkraskýrslu. Á
þessu eru þrjár undantekningar:
- Sé hætta á að sjúklingur fari sér að voða að
fenginni vitneskju.
- Sé hætta á að upplýsingar leiði til
samskiptaörðugleika við nánustu.
- Ef upplýsingar í sjúkraskrá eru frá fleiri aðilum
en sjúklingi.
Sjúklingur getur borið fram kvartanir vegna
læknismeðferðar, en álitamál er hvort hann hafi
nokkurn rétt á því að kvörtun verði tekin fyrir.