SunnudagsMogginn - 25.12.2011, Blaðsíða 17

SunnudagsMogginn - 25.12.2011, Blaðsíða 17
25. desember 2011 17 í Bandaríkjunum og hefur Hrafnhildur ekki hitt þau enn. Lára féll vel inn í hópinn og að sögn Hrafnhildar kallar Joyce hana líka systur. Steven varð í fyrstu starsýnt á Láru enda mun hún vera sláandi lík móður sinni. „Hafi hann grunað að ég væri að villa á mér heimildir hvarf það eins og dögg fyrir sólu þegar hann sá Láru. Ekki fer á milli mála að hún er dóttir mömmu. Fyrstu klukku- stundirnar horfði pabbi mikið á Láru og þau spjölluðu mikið saman, það var dáldið þægilegt því þá var öll athyglin ekki á mér og ég gat melt þetta allt rólega.“ Fleiri líkindi bar á góma, einhver hafði orð á því að Hrafnhildur minnti um margt á móður Stevens, Vilmu, sem nú er látin. „Þar sem ég er elsta dóttir pabba fékk ég bæði hring og úr sem amma átti og Joyce var komin með. Joyce hafði látið setja eitt- hvað inn í hringinn til að minnka hann, ég tók það úr og hann passaði fullkomlega. Hringurinn er prýddur fæðingarsteinum barnabarna ömmu, nema minn vantar auðvitað. Mér finnst pínu skondið að ég skuli svo eiga hann núna,“ segir hún og sýnir blaðamanni. Spurð hvort Joyce hafi ekki þótt miður að láta frá sér gripina svarar Hrafnhildur því til að svo hafi alls ekki verið. „Þau sögðu bara, þú ert elst, þú átt þetta.“ Svakaleg blanda! Hrafnhildur hefur ákveðnum skyldum að gegna sem elsta dóttirin í fjölskyldunni. „Bjáti eitthvað á hjá Joyce þá fæ ég strax fyrirmæli frá pabba: Talaðu við systur þína!“ Ed, faðir Stevens, var af írsku bergi brotinn en Vilma var með ítalskt blóð í æðum. „Það skýrir skapgerð mína. Írskt, ítalskt og íslenskt blóð, það er svakaleg blanda,“ segir Hrafnhildur og skellir upp úr. Margt skemmtilegt dreif á daga Hrafn- hildar ytra og hún nefnir meðal annars heimsókn í Redwood-þjóðgarðinn, þar sem allir þurftu að skrifa í gestabók. „Það var skrýtin tilfinning að vera allt í einu í hópi þar sem allir skrifuðu sama nafn og ég – Mooney.“ Eitt kvöldið sátu þau öll saman og ein- hver spurði Hrafnhildi beint út hvort hún hefði ekki verið með neitt varaplan ef ske kynni að fjölskyldan væri öll galin. „Ég leit á Láru systur og við skelltum báðar uppúr. Við áttuðum okkur þarna á því að við höfðum ekkert leitt hugann að ein- hverju varaplani. Sem hefði auðvitað ver- ið það skynsamlega í stöðunni. En ég var þó búin að kynnast þeim svolítið áður. Þegar ég hafði samband við pabba fyrst hafði ég vitaskuld ekki hugmynd um hvað biði mín en til allrar hamingju kann ég al- veg ofboðslega vel við þetta fólk. Maður velur sér ekki ættingja og það er mikil gæfa að semja vel við þá, ekki síst þegar forsagan er með þessum hætti. Ég er mjög lánsöm.“ Hrafnhildur segir kveðjustundina eftir heimsóknina hafa verið erfiða. Faðir hennar hafi fellt tár. „Það er gömul saga og ný að Bandaríkjamenn séu meiri til- finningaverur en við Íslendingar – segja til dæmis „I love you“ í tíma og ótíma. Fyrst fannst mér það skrýtið en svo var ég allt í einu farin að segja „I love you – miss you“ eins og væminn Ameríkani! Þess utan skil ég pabba ósköp vel. Það er ekki sjálfgefið að hitta dóttur sína eftir öll þessi ár og að það gangi svona vel. Það var vissulega tregi í þessum tárum en samt aðallega gleði.“ Hún þagnar um stund, horfir síðan glottandi á mig: „Er þetta nokkuð að verða eins og Hallmark-kvikmynd?“ Við millilendinguna í Boston á heim- leiðinni var Hrafnhildi kippt harkalega niður á jörðina en þar frétti hún að ein nánasta vinkona hennar lægi fyrir dauð- anum. Hún hafði veikst skyndilega og dó nokkrum dögum síðar. Ofan í þessa miklu gleði kom því nístandi sorg. „Ég var auð- vitað þakklát og glöð yfir að fá þetta fólk inn í líf mitt en um leið í mikilli sorg yfir því að missa nána vinkonu. Þetta var mjög erfiður tími. Ég talaði mikið við pabba í þessu sorgarferli og kynntist honum þá betur um leið.“ Systkinin komu til Íslands Hrafnhildur hefur fram á þennan dag ver- ið í góðu sambandi við föður sinn, systkini og Julie. Þegar Hrafnhildur brautskráðist úr MBA-náminu sumarið 2010 komu Joyce og Brendan til Íslands og fögnuðu með henni. Auk þess að ferðast um Ísland fóru þau saman til Danmerkur og Svíþjóðar. Styrkti það böndin enn frekar. „Það var mjög skemmtilegt að fá þau hingað heim og kynna þau fyrir mínu fólki hérna.“ Hrafnhildur og Joyce hittust svo þriðja sinni í haust. „Ég ákvað að fagna fertugs- afmælinu í New York með Láru systur og vinkonum mínum. Joyce ákvað strax að koma að hitta okkur og við áttum saman frábæra helgi í New York. Við vorum svo samferða í leigubíl á flugvöllinn og ég man að ég hugsaði: „Þetta eru systur mínar!“ Það var sérstök tilfinning.“ Hún þagnar stutta stund. „Hefur þetta breytt lífi mínu?“ spyr hún svo. „Auðvitað á einhvern hátt en ég lít meira á þetta sem bónus. Núna get ég til dæmis fyllt út sjúkrasögu beggja foreldra, ég á pabba, mömmu, ömmu og afa og fullt af systkinum, já og bandarískt vegabréf ef ég vil! En jú, auðvitað hefur þetta haft áhrif á líf mitt og Dags, og ég verð alltaf í sam- bandi við þetta fólk – þetta er fjölskyldan mín.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg „Það var skrýtin tilfinning að vera allt í einu í hópi þar sem allir skrifuðu sama nafn og ég – Mooney,“ segir Hrafnhildur. Julie Mooney, fyrrverandi kona Stevens, Dagur, sonur Hrafnhildar, Lára systir hennar og Hrafnhildur fyrir framan höfuðstöðvar Facebook í Sílikondal í Kaliforníu. Eðli málsins sam- kvæmt urðu þau að koma við þar. ’ Ég áttaði mig fljótt á því að ég hafði alltaf verið hluti af lífi þeirra, þau vissu öll af mér og Joyce systir mín, sem er einu ári yngri en ég, sagði mér síðar að þau hefðu oft talað um mig. Það var til dæmis siður þegar dyrabjallan hringdi án þess að fjölskyldan ætti von á neinum að segja: Jæja pabbi, þá er týnda dóttirin frá Íslandi komin!“

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.