Milli mála - 01.01.2012, Page 332
332
BJARTI FÁLKINN FRÍÐI
sátu enn yfir leifunum af rauðrófusalatinu og ósköpuðust yfir því
hve óásjáleg slánaleg brúðurin væri með þessi þykku gleraugu, á
meðan Klava, sem hafði fengið sitt fyrsta glóðarauga, grét í herbergi
nágrannanna4 á öxl móður Zhenju. Til að hugga hana dröslaði
Zhenja til hennar samanlímdri franskri dúkku, Lúísu, dýrgrip
ömmu sinnar. Mamma Zhenju lagði hráan lauk á marblettinn sem
var að byrja að blómstra – þá tíðkaðist þessi sérkennilegi siður sem
einnig virtist sóttur í viskubrunn alþýðuspekinnar. En Klava hristi
tjásulegan hárbrúskinn með nýja sex mánaða permanentinu og út-
hellti fyrstu tárunum yfir sinni miklu ást.
Svo bankaði María Vasíljevna móðir Klövu á dyrnar, grét og
sagði:
– Þú hefur steypt þér í glötun, stelpukjáni, steypt þér í glötun.
Það hefði verið skárra að giftast drykkjumanni en svona rudda …
Og Filipp elskaði Klövu konuna sína af öllum sínum illu sálar-
kröftum. Allt þeirra tveggja og hálfs árs hjónaband barði hann hana
sundur og saman, og lét svívirðingarnar dynja á henni þar sem hann
elti hana eftir löngum gangi kommúnölkunnar. Þó að hún væri
hálfblind var hún fim og leggjalöng og reyndi alltaf að stökkva út
bakdyramegin og út á götu, en hann náði henni og ef hann gerði
það ekki fleygði hann á eftir henni hamri eða stígvélasteðja úr járni.
Og alltaf öskraði hann það sama:
– Þú munt lifa, tíkin þín, og hór…st, en ég mun deyja.
Hann var skósmiður, hafði lært iðnina af pabba sínum í æsku og
vann sér inn dálítinn pening þar sem hann sat í þröngu skotinu sem
tilheyrði fjölskyldu hans og á voru tveir þriðju hlutar af glugga.
Herberginu, sem var stórt með tveimur gluggum, var skipt í þrennt
með heimatilbúnum skilrúmum og í hverjum hluta bjó ein fjöl-
skylda.
Í þá daga var svo lítið til af skóm og það þurfti oft að gera við
þá. Og Filipp bjó til hælbætur fyrir bæði nágranna sína og
ókunnuga, tjaslaði saman sólum, festi á hælkappa …
4 Veislan fer fram í því herbergi sem fjölskylda Klövu (sem er gælunafn fyrir nafnið Kládía) hafði
til umráða – en hún fer og leitar sér huggunar í næsta herbergi, sem önnur fjölskylda hefur til
umráða.
Milli_mála_4A_tbl_lagf_13.03.2013.indd 332 6/24/13 1:43 PM